Útgáfa reglugerðar um sölu áfengis

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:29:51 (5394)

1998-04-06 15:29:51# 122. lþ. 102.91 fundur 296#B útgáfa reglugerðar um sölu áfengis# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka þetta mál hér upp. Ég verð sömuleiðis að segja að ég varð undrandi þegar ég frétti að hæstv. ráðherra hefði við þessar aðstæður, meðan Alþingi hefur til umfjöllunar fjögur mál sem tengjast fyrirkomulagi og skipulagi áfengismála, gefið út reglugerð sem felur í sér grundvallarbreytingu á stöðu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Auðvitað er slík breyting gerð á með þessu.

Ég vil láta það koma fram að ég hafði óskað eftir því við formann efh.- og viðskn., í kjölfar frétta af því að nefnd, m.a. skipuð aðstoðarmönnum ráðherra, væri að skoða skipulag Áfengis- og tóbaksverslunarinnar, að við í efh.- og viðskn. fengjum allar upplýsingar um þá vinnu á meðan við værum að vinna að málinu. Og að sjálfsögðu reiknaði maður þá ekki með því að standa frammi fyrir gerðum hlut af hálfu hæstv. ráðherra.

Ég vil einnig minna á þá ósk okkar í stjórnarandstöðunni að allar þingnefndirnar sem fjalla um áfengismálin, og þær eru þrjár, efh.- og viðskn., heilbr.- og trn. og allshn., ættu þess kost að fara yfir tillögur nefndar ráðherranna á sameiginlegum fundi. Það hefur ekki heldur verið unnt að verða við þessu, a.m.k. hefur ekki unnist tími til þess enn þá. Samt gefur hæstv. ráðherra út þessa reglugerð.

Það er einnig nauðsynlegt að fram komi, herra forseti, að það er hreinn og klár fyrirsláttur hjá hæstv. ráðherra að bera fyrir sig nefnt álit Samkeppnisstofnunar. Samkeppnisstofnun er að vísa í þau ákvæði samkeppnislaga að aðskilja þurfi einkaleyfabundna starfsemi og samkeppnisstarfsemi. Fyrir því eru fjölmörg fordæmi að bókhaldslegur og fjárhagslegur aðskilnaður sé gerður á milli slíkra þátta í rekstri opinberra stofnana. Nærtækt dæmi er Póstur og sími heitinn, sem var með Samkeppnisstofnun á bakinu og sífellt að framkvæma slíkan fjárhagslegan og bókhaldslegan aðskilnað. Auðvitað var hægt að gera þetta gagnvart ÁTVR. Ef lagastoð skyldi vanta þá bar vel í veiði því lögin voru til meðferðar á Alþingi. Að bera það fyrir sig að það hafi ekki verið lagastoð til að gera þetta er auðvitað alveg fráleitur málflutningur.

Hvað segir þá hæstv. ráðherra við því ef við veitum lagastoðina fyrir umræddum aðskilnaði með brtt. á þeim frv. sem hér eru til umfjöllunar? Er hæstv. ráðherra þá tilbúinn að draga þessa ákvörðun til baka eða a.m.k. endurskoða hana og leyfa ÁTVR að annast innflutning áfram, enda sé sá hluti starfseminnar aðskilinn með fullnægjandi hætti frá smásölunni þannig að Samkeppnisstofnun telji það fullgilt?