Reglugerð um geðrannsóknir

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 15:52:40 (5401)

1998-04-06 15:52:40# 122. lþ. 102.1 fundur 526. mál: #A reglugerð um geðrannsóknir# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[15:52]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrri fyrirspurninni er það að segja að meðal þeirra atriða sem rannsaka skal við rannsókn opinberra mála eru ýmis atriði er varða sakborning sjálfan, svo sem persónulegar aðstæður, hegðun fyrir og eftir brot og þroski og heilbrigðisástand, bæði líkamlegt og andlegt, menntun, uppeldi og fleira. Ef vafi leikur á hvort ákvæði 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við um hagi sakbornings er rétt samkvæmt d-lið 1. mgr. 71. gr. laga um meðferð opinberra mála, að láta hann sæta sérstakri geðrannsókn til að leidd verði í ljós atriði sem geri dómara fært að meta sakhæfi hans. Liggi ekki fyrir ótvírætt samþykki sakbornings til rannsóknar þarf úrskurð dómara. Ýmist er það ákæruvaldið, þar með taldir lögreglustjórar eða héraðsdómari, sem á frumkvæði að framkvæmd geðrannsóknar. Hann tekur ákvörðun um framkvæmd hennar, svo sem hvaða læknir skuli annast hana. Venjulegast er ákvörðun um geðrannsókn tekin með úrskurði og er hún þá oft tengd gæsluvarðhaldsúrskurði. Algengt er að gæsluvarðhaldi sé beitt fyrst og fremst til að geðrannsókn geti farið fram ótrufluð.

Rannsóknirnar eru alla jafna mjög ítarlegar og taka alllangan tíma, frá nokkrum vikum upp í marga mánuði. Nokkur breyting hefur orðið á í þessu efni á undanförnum árum og nú orðið er læknisfræðilegt mat eða álit er byggir á viðtali og skoðun án ítarlegrar rannsóknar oft látið nægja.

Um síðari lið fyrirspurnarinnar er það að segja að engar reglur eru lögfestar um hvaða brot skuli vera tilefni geðrannsóknar né hvaða afbrotamannagerðir komi þar helst til greina. Ákveðnar venjur hafa þó mótast og sum brot eru þess eðlis að þau gefa vísbendingu um afbrigðilegt sálarástand. Má þar nefna manndráp, brennu, grófar líkamsárásir og skírlífisbrot gagnvart börnum. Í öðrum tilvikum er geðrannsókn látin fara fram ef eitthvað kemur fram við rannsókn málsins sem vekur grun um andlega vanheilsu eða vanþroska. Geðrannsóknir eru taldar hafa tvenns konar hlutverki að gegna. Annars vegar þarf að ganga úr skugga um sakhæfi en hins vegar eru þær taldar gegna því hlutverki að skapa grundvöll fyrir val á virkum, sanngjörnum og skynsamlegum viðurlögum. Dómarar hafa almennt lýst því viðhorfi að ekki sé þörf á að settar verði reglur um framkvæmd geðrannsókna. Því til stuðnings má benda á að í Noregi og Danmörku hafa heldur ekki verið settar formlegar reglur um framkvæmd geðrannsókna. Telja verður að málum þessum sé ágætlega skipað án þess að settar verði reglur um framkvæmd þeirra. Tilvikin eru svo margbreytileg að það getur valdið vandkvæðum ef reyna á að flokka þau í ákveðna skilgreinda flokka sem þau falla svo e.t.v. ekki að í hinni raunverulegu framkvæmd. Meðan engrar gagnrýni verður vart á núverandi fyrirkomulag tel ég enga þörf og þar af leiðandi ástæðulaust að setja sérstakar reglur um framkvæmd geðrannsókna.