Skipun tilsjónarmanna

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:05:30 (5407)

1998-04-06 16:05:30# 122. lþ. 102.2 fundur 529. mál: #A skipun tilsjónarmanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:05]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í þeirri greinargerð sem ég nefndi áðan, sem skilað var að lokinni fimm ára starfsemi að Sogni, kemur m.a. fram að samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga á sá sem dæmdur hefur verið ósakhæfur og vistaður á réttargeðdeildinni á Sogni rétt á því að honum sé skipaður tilsjónarmaður en í 62. gr. almennra hegningarlaga segir:

,,Skal þá hæstiréttur skipa honum tilsjónarmann, sem eftirlit hefur með því, að dvöl hans á hælinu verði ekki lengri en nauðsyn ber til. Þegar ástæða þykir til, getur dómsmálaráðherra leitað úrlausnar héraðsdóms, þar sem hælið er, hvort téðar ráðstafanir skuli teljast lengur nauðsynlegar, enda hafi umsagnar læknis verið leitað. Svo getur og tilsjónarmaður krafist þess, þegar ár er liðið frá dómsuppsögn eða síðasta dómsúrskurði, eða fyrr, ef dómsmálaráðherra samþykkir, að málið skuli að nýju lagt undir úrskurð dómstóls þess, sem áður segir. Ákvörðun hans má áfrýja eftir reglum um kæru í opinberum málum.``

Samkvæmt greininni á sá sem er ekki sakhæfur og vistaður á Sogni, sem í þessu tilviki er kallað hæli, rétt á því að Hæstiréttur skipi honum tilsjónarmann. Tilsjónarmennirnir hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna þótt það komi ekki fram í þessum lagatexta. Það er mjög mikilvægt að mati þeirra sem skiluðu greinargerðinni og hafa starfað að Sogni í þessi fimm ár að hlutverk tilsjónarmanna verði skilgreint nánar en nú hefur verið gert og þar með hvernig þeir geti borið sig að við að sinna því. En í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

,,Einnig er nauðsynlegt að athuga hvort æskilegt væri að velja tilsjónarmenn úr hópi ákveðinna faghópa sem þekkingu hafa á gangi mála í heilbrigðis- og dómskerfinu, t.d. lögmenn. Hæstiréttur hefur á undanförnum árum í nokkur skipti skipað aðstandendur sjúklinga sem tilsjónarmenn. Getur það sett aðstandendur í mikinn vanda og skapað erfiðleika í samskiptum við sjúklinginn en það er aftur mjög óhagstætt fyrir bata og endurhæfingu þeirra. Æskilegt væri að athuga þau mál nánar.``

Það er niðurstaða þeirra sem unnu að þessari greinargerð eftir þetta fimm ára starf að það sé mjög nauðsynlegt að skipun og hlutverk tilsjónarmanns sé skýrt skilgreint í lögum eða reglugerð og kemur það líka fram í lokaorðum skýrslunnar. Um leið sé mjög nauðsynlegt að koma með skýrari reglur um réttarstöðu ósakhæfra geðsjúklinga þannig að tilsjónarmenn geti þá unnið eftir þeim reglum. Ég hef þess vegna borið eftirfarandi fyrirspurn fram til hæstv. dómsmrh.:

Hvernig er staðið að skipun tilsjónarmanna ósakhæfra geðsjúklinga skv. 62. gr. almennra hegningarlaga? Eru í gildi sérstakar reglur þar að lútandi? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að slíkar reglur verði settar?