Skipun tilsjónarmanna

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:08:41 (5408)

1998-04-06 16:08:41# 122. lþ. 102.2 fundur 529. mál: #A skipun tilsjónarmanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:08]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda er kveðið á um það í 62. gr. almennra hegningarlaga að Hæstiréttur skuli skipa þeim mönnum sem eru vistaðir á hæli skv. 15. gr. eða 16. gr. almennra hegningarlaga tilsjónarmann. Þannig er staðið að skipun tilsjónarmanna að Hæstiréttur leitar jafnan til skipaðs réttargæslumanns eða verjanda viðkomandi er tekur málið upp við fjölskyldu hans. Undantekningarlítið hefur einhver ættingi tekið að sér hlutverk tilsjónarmanns en honum ber að hafa eftirlit með því að dvöl viðkomandi á hælinu verði ekki lengri en nauðsyn ber til.

Ekki hafa verið settar almennar reglur um þessi efni. Tilvikin eru mjög fá eða um það bil eitt mál á tveggja ára fresti. Að því er ég best veit hafa engin vandkvæði komið upp í þessu efni og heilbrigðisyfirvöld hafa ekki gert athugasemdir til dómsmrn. um þessa framkvæmd. Þannig hefur ekki verið talin þörf á því fram til þessa að setja sérstakar reglur um þetta atriði en eðlilegt er að fylgst verði með framvindu mála og að sjálfsögðu mun ráðuneytið verða fúst til þess að ræða við heilbrigðisyfirvöld sem bera ábyrgð á framkvæmd mála á Sogni um skýrari framkvæmd ef þess er talin þörf. En reyndin hefur verið sú á réttargeðdeildinni á Sogni að yfirstjórnin þar eða geðlæknir sem hefur viðkomandi sjúkling til meðferðar hefur gert tilsjónarmanni viðvart þegar sjúklingur hefur náð slíkum bata að rétt kunni að vera að leggja undir úrskurð héraðsdóms á Suðurlandi hvort hælisvistun teljist lengur vera nauðsynleg.