Störf nefndar um skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:13:06 (5410)

1998-04-06 16:13:06# 122. lþ. 102.4 fundur 624. mál: #A störf nefndar um skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:13]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Spurning mín til hæstv. dóms- og kirkju\-mrh. er svohljóðandi:

Hvað líður störfum nefndar sem skipuð var til að kanna:

a. reynsluna af sameiginlegri forsjá,

b. úrræði gildandi laga um umgengni foreldra og barna og hvaða fræðsla standi foreldrum til boða í tengslum við skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál,

c. hvernig auka megi þá fræðslu ef þess verður talin þörf?

Þegar lög voru sett fyrir fáeinum árum sem heimiluðu sameiginlega forsjá foreldra með barni sínu eða börnum eftir skilnað voru Íslendingar að fara inn á sömu braut og Norðurlandaþjóðirnar og ýmsar þjóðir fleiri, svo sem Bretar og Bandaríkjamenn. Mér leikur forvitni á að vita hvernig þetta hefur reynst hér á landi. Hæstv. dómsmrh. skipaði nefnd á síðasta ári til að gera skýrslu um sameiginlegu forsjána og fleira og sú nefnd hefur sem sagt starfað í tæpt ár. Þar er hið mætasta fólk að kanna þessa reynslu en í skipunarbréfi nefndarinnar kemur ekki fram hvenær nefndin eigi að skila skýrslu sinni. Því spyr ég hvað sé að frétta af starfinu og hvenær megi vænta þess að niðurstöður komi.

Ég hef á tilfinningunni að ýmis vandamál hafi komið upp vegna hinnar sameiginlegu forsjár, e.t.v. vegna þess að ekki sé nógu vel um hnútana búið þegar sameiginlega forsjáin er ákveðin. Sameiginleg forsjá foreldra eftir skilnað þeirra, forsjá með börnunum, er samstarfsverkefni og afar þýðingarmikið. Það er sameiginlegt uppeldi og sameiginleg ábyrgð á hag og hagsmunum barnsins.

Hjón skilja sjaldnast að tilefnislausu. Það eru oft að baki erfiðleikar, ósætti og vonbrigði en hjón sem skilja geta verið sammála um það að reyna að gera eins gott úr og hægt er barna sinna vegna og reyna því að breiða yfir ágreining fyrst í stað. Þá kann að vera að vandamálin komi upp nokkru síðar og reynslan sé þá sú að þau hafi í skilnaðarmálinu tæpast verið í standi til að taka sameiginlega ábyrgð á forræðinu. Því er spurningin einnig sú hvort ekki þurfi að auka möguleikana á fræðslu, ráðgjöf og leiðbeinandi aðstoð og auðvelda fólki að þiggja þá þjónustu.