Störf nefndar um skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:16:51 (5411)

1998-04-06 16:16:51# 122. lþ. 102.4 fundur 624. mál: #A störf nefndar um skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:16]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í nefnd þeirri sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til eiga sæti Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, sem er formaður nefndarinnar, Oddný Vilhjálmsdóttir sem tilnefnd er af Kvenréttindafélagi Íslands, og Ólafur Þ. Stephensen sem tilnefndur er af karlanefnd Jafnréttisráðs.

Nefndin var skipuð í maímánuði á síðasta ári en nefndarskipunina má rekja til bréfs sem karlanefnd Jafnréttisráðs ritaði dómsmrh. í byrjun mars 1997 þar sem þess var óskað að nefnd yrði skipuð til að kanna þessi mál. Tilefni þeirrar tillögu karlanefndarinnar var að mörg erindi bæði formleg og óformleg höfðu borist nefndinni frá feðrum sem töldu sig eiga í erfiðleikum vegna forræðis- og umgengnisréttar.

Nefndin ákvað strax í upphafi að tvískipta verkefninu, annars vegar í athugun á reynslu af sameiginlegri forsjá og könnun á raunverulegum samvistum barna við það foreldri sem þau búa ekki hjá og hins vegar í athugun á úrræðum gildandi laga til að koma á umgengni foreldra og barna og hvaða upplýsingar og fræðsla standi foreldrum til boða í tengslum við skilnað. Þessi skipting verkefna byggðist m.a. á því að fljótlega eftir að nefndin var skipuð kom í ljós að Sigrún Júlíusdóttir, dósent við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, var að undirbúa rannsókn um reynslu af sameiginlegri forsjá hér á landi. Um er að ræða yfirgripsmikla rannsókn sem mun gefa glögga mynd af þeirri reynslu sem fengist hefur af sameiginlegri forsjá þau fimm ár sem foreldrum barna hefur verið unnt að semja um slíkt fyrirkomulag.

Þá mun rannsóknin kanna raunverulegar samvistir barna við foreldri sem þau búa ekki hjá, a.m.k. í þeim hópi þar sem forsjáin var í upphafi sameiginleg. Nefndin taldi að niðurstöður rannsóknar Sigrúnar yrðu mikilvægt innlegg í hluta verkefna nefndarinnar og því æskilegt að ganga til samstarfs við hana um framkvæmd hennar. Dómsmrn. ákvað að styrkja þessa rannsókn sérstaklega. Nefndin bíður niðurstaðna rannsóknar Sigrúnar varðandi mat sitt á þeim verkefnum hennar sem snúa að mati á reynslunni af sameiginlegu forsjánni hér á landi og hverjar séu raunverulegar samvistir barna við það foreldri sem þau búa ekki hjá.

Nefndin hefur frá því að hún var skipuð haldið 15 fundi og einbeitt sér að því að kanna hvort úrræði gildandi laga til að koma á umgengni foreldra og barna séu fullnægjandi og hvaða upplýsingar og fræðsla standi foreldrum til boða í tengslum við skilnaðaðar-, forsjár- og umgengnismál. Nefndin hefur fengið til viðræðna fulltrúa fjölmargra aðila sem vinna að þessum málum til að fá yfirsýn yfir þau úrræði og þá fræðslu sem foreldrum standa til boða.

Á fund nefndarinnar hafa komið fulltrúar eftirtalinna aðila: Dómsmrn., embættis sýslumannsins í Reykjavík, Félags einstæðra foreldra, samtakanna Ábyrgra feðra, fjölskylduráðgjafarinnar Samvistar, Fjölskylduþjónustu kirkjunnar, Kvennaráðgjafarinnar, sjálfstætt starfandi félagsráðgjafa og Félagsmálastofnunar Reykjavíkur. Þá hefur umboðsmaður barna komið til fundar við nefndina og skýrt henni frá þeim athugasemdum og ábendingum sem því embætti hafa borist vegna þessara mála. Þá hefur nefndin aflað upplýsinga um fyrirkomulag fræðslu til foreldra í tengslum við skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál á hinum Norðurlöndunum.

Nefndin hefur nú lokið upplýsingasöfnun vegna fyrri hluta verkefnis síns og er nú að undirbúa áfangaskýrslu til ráðherra þar sem rakin verða úrræði gildandi laga til að koma á umgengni foreldra og barna og bent á leiðir til úrbóta. Jafnframt verður þar lýst þeirri fræðslu sem foreldrum stendur til boða í tengslum við skilnaðar-, forsjár- og umgengnismál og settar fram tillögur um hvernig gera megi betur í þessum efnum. Nefndin stefnir að því að skila ráðherra þessari áfangaskýrslu eigi síðar en 1. júní nk.

Síðan mun nefndin bíða niðurstaðna úr rannsókn Sigrúnar Júlíusdóttur um reynsluna af sameiginlegu forsjánni. Fyrstu niðurstaðna úr þeirri rannsókn er að vænta í júní eða júlí nk. en endanlegar niðurstöður ættu að liggja fyrir í haust. Að þeim niðurstöðum fengnum mun nefndin skila lokaskýrslu þar sem metin verður reynslan af sameiginlegu forsjánni hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum og skýrt frá hverjar sýnast vera raunverulegar samvistir barna við það foreldri sem þau búa ekki hjá. Lokaskýrslu nefndarinnar er því að vænta fyrir lok ársins 1998.