Tilkostnaður við tannréttingar

Mánudaginn 06. apríl 1998, kl. 16:53:05 (5424)

1998-04-06 16:53:05# 122. lþ. 102.8 fundur 610. mál: #A tilkostnaður við tannréttingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 122. lþ.

[16:53]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ekki skal ég leggja dóm á hvort allar þær tannréttingar sem framkvæmdar eru í landinu eru bráðnauðsynlegar, en hitt er ég sannfærður um að í mörgum tilvikum eru þær tvímælalaust nauðsynlegar. Svo er þó komið að margt það fólk sem mest þarf á þessum lækningum að halda hefur ekki efni á því að leita sér lækninga. Ég fullyrði að efnalítið fólk hefur ekki tök á að veita börnum sínum heilsuvernd á þessu sviði. Annaðhvort er stuðningur almannatrygginga of lítill eða verðlagning sérfræðinganna er of há, nema hvort tveggja sé. Hér er dæmi úr raunveruleikanum: Í barnafjölskyldu reynist þörf á því að rétta tennur í tveimur börnum. Í öðru tilvikinu er um alvarlega ágalla að ræða sem krefjast þess að fastar spangir verði settar í góma barnsins. Í hinu tilvikinu er um minni aðgerð að ræða. Foreldrarnir fóru til tannréttingasérfræðings og leituðu álits og báðu um kostnaðarmat og ekki stóð á svarinu: 500 þús. kr. í öðru tilvikinu, hálf millj. kr., 120 þús. kr. í hinu. Þetta er samtals á sjöunda hundrað þúsund krónur, eða vel rúmlega hálfs árs laun láglaunamanns. Er að undra að athuganir landlæknisembættisins hafi leitt í ljós að fólk í lægri tekjukantinum hafi ekki lengur efni á að leita sér tannlæknaþjónustu og þarf þó ekki þessi yfirgengilegu dæmi til? Þessi fjölskylda sem ég tek dæmi af fær 100 þús. kr. stuðning frá almannatryggingum vegna barnsins sem hefur alvarlegri ágallana en ekkert vegna hins. 100 þús. kr. hrökkva þó skammt þegar reikningurinn er á sjöunda hundrað þúsund kr. Hér er alvarlegur misbrestur á ferðinni sem verður að leiðrétta og þess vegna er spurt:

Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir ráðstöfunum til að draga úr tilkostnaði við tannréttingar en þess eru dæmi að láglaunafólk þurfi að greiða sem nemur hálfs árs tekjum fyrir tannréttingar hjá börnum sínum?