Skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 13:41:22 (5442)

1998-04-14 13:41:22# 122. lþ. 103.2 fundur 620. mál: #A skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[13:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum, en frv. gerir ráð fyrir breytingum á hvorum tveggja þessum lögum. Þetta frv. er að finna á þskj. 1051 og er 620. mál þessa þings.

Á undanförnum árum hafa sífellt verið gerðar strangari kröfur til opinberra aðila um hvernig staðið skuli að innkaupum vöru, þjónustu og framkvæmda. Er það í samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Einnig hefur samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gert strangari kröfur um hvernig að þessum málum skuli staðið.

Þrátt fyrir þetta má segja að fyrirkomulag innkaupa ríkisins hafi verið gott miðað við önnur lönd. Hér á landi fór snemma að tíðkast notkun útboða við innkaup og formfastar reglur voru settar um tilhögun þeirra. Má að nokkru leyti þakka það því að auk þess að leita fyrirmynda í Evrópu var á sínum tíma einnig fylgst með skipan þessara mála í Bandaríkjunum. Ég vil, virðulegi forseti, nefna í þessu sambandi sérstaklega lög nr. 63/1970, sem hér er verið að breyta, sem Magnús Jónsson, fyrrv. fjmrh., hafði forgöngu um að setja, en sú löggjöf held ég að hafi skipt sköpum um þróun þessara mála hér á landi.

Þau lög, sem nú eru í gildi og ég nefndi og varða innkaup ríkisins, eru annars vegar lög nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og hins vegar lög nr. 52/1987, um opinber innkaup. Breytingar voru gerðar á þessum lögum með lögum nr. 55/1993 vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en í þeim samningi eru gerðar miklar kröfur um hvernig haga skuli innkaupum opinberra aðila.

Í maí 1993 samþykkti þáverandi ríkisstjórn útboðsstefnu ríkisins og var hún þáttur í því umbótastarfi sem stjórnvöld hafa unnið að til að koma á nýskipan í rekstri ríkisins. Gerðar voru kröfur um aukin útboð á vegum ríkisins og að skýrar reglur giltu um útboð þannig að jafnræðis væri gætt milli þeirra sem bjóða ríkinu viðskipti. Jafnframt var það markmið útboðsstefnunnar að auka hagkvæmni í rekstri ríkisins og efla samkeppni í einkageiranum. Nokkur reynsla er nú komin af þeim tilmælum sem fólust í stefnunni. Útboð hafa aukist verulega og gætir yfirleitt ánægju með það hjá seljendum vöru, þjónustu og framkvæmda.

Á svipuðum tíma og útboðsstefnan var samþykkt gaf stjórn opinberra innkaupa út reglur um innkaup ríkisins. Þeim var ætlað að skýra samskipti og skapa traust milli kaupenda og seljenda. Jafnframt gaf stjórnin út handbók um innkaup innan Evrópska efnahagssvæðisins og var henni ætlað að vera opinberum aðilum leiðsögn í þeirri skyldu sem aðild að EES hafði í för með sér varðandi opinber innkaup. Nýlega voru reglur um innkaup ríkisins og ýmis atriði útboðsstefnunnar fest í sessi með því að sameina ákvæði þeirra reglugerð um opinber innkaup í reglugerð um innkaup ríkisins, nr. 302/1996.

Frumvarp til breytinga á lögum um opinber innkaup og skipan opinberra framkvæmda var lagt fram sl. vor en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarp þetta er byggt á því frumvarpi. Helsta breytingin frá því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi er að horfið er frá þeirri hugmynd að skipa sérstaka kærunefnd útboðsmála.

[13:45]

Gert er ráð fyrir að farið verði með brot á lögum samkvæmt almennum reglum þannig að verktakar, birgjar og þjónustuaðilar geti leitað til dómstóla og eftir atvikum sýslumanns, sé brotið á rétti þeirra. Ætlunin er að ákvæði um sérstakt úrskurðarvald fjmrh., þar sem ráð gert er fyrir því að leitað sé til hans áður en mál séu borin undir dómstóla, verði felld brott. Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemd við þessa skipan mála og bent á að fjmrn. og önnur ráðuneyti eigi oft hagsmuna að gæta í innkaupamálum. Hins vegar er ekki talið skylt að láta sérstaka úrskurðaraðila fjalla um kærumál vegna brota á reglum EES-samningsins um opinber innkaup. Í Noregi og Bretlandi er t.d. fjallað um þessi mál í almenna dómskerfinu.

Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á þeim ákvæðum laganna sem fjalla um viðmiðunarfjárhæðir en þær breytingar eiga rót að rekja til breytinga sem gerðar voru á tilskipun um opinber innkaup síðasta haust. Tilskipun þessi var sett til að laga löggjöf Evrópusambandsins að reglum GATT-samningsins um opinber innkaup. Til skoðunar er að Ísland gerist aðili að þeim kafla GATT-samningsins sem fjallar um opinber innkaup. Slíkt mundi kalla á frekari lagasetningu.

Loks eru lagðar til ýmsar breytingar í því skyni að kveða skýrar á um atriði er þykja óljós í núgildandi lögum. Frv. er m.a. ætlað að koma til móts við athugasemd Eftirlitsstofnunar EFTA vegna núverandi skipunar kærumála. Það hefur verið sent til stofnunarinnar til umsagnar að því er þetta atriði varðar. Nauðsynlegt kann að vera að gera einhverjar breytingar á frv. að fengnum athugasemdum stofnunarinnar.

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess að í Evrópulöndum sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópusambandinu mun vera vaxandi áhugi á því að taka upp ákvæði um stjórnvald sem úrskurðað geti í málum þar sem ágreiningur er m.a. um opinber innkaup. Það er hins vegar ekki talin vera skylda og af hálfu íslenskra stjórnvalda var ákveðið að fara þessa leið. Íslensk stjórnvöld og hv. Alþingi verða á næstu árum að fylgjast vel með þessum málum og breyta löggjöfinni til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar ef við viljum njóta þess hagræðis sem öllum er ljóst að er af því að geta boðið út á stærra svæði en íslenska ríkisvaldið nær til.

Virðulegi forseti. Að lokum legg ég til að frv. verði afgreitt til 2. umr. og sent hv. efh.- og viðskn.