Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 13:48:24 (5443)

1998-04-14 13:48:24# 122. lþ. 103.3 fundur 630. mál: #A fjáraukalög 1997# frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[13:48]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Samkvæmt venju liggur frammi frv. til fjáraukalaga. Ég vil byrja á að segja að ég teldi það afar gott ef hv. Alþingi gæti afgreitt þetta frv. til fjáraukalaga, svokallað seinna frv., vegna ársins 1997. Þar er árið 1997 gert upp eins og tíðkast hefur með undangengin ár.

Ég vil einnig segja frá því að vonandi mun verða hægt að leggja fram ríkisreikning vegna sl. árs innan tíðar. Fjmrn. stefnir að því að á næstu árum verði hægt að leggja það frv. fram, frv. til laga um ríkisreikning vegna fyrra árs, á vorþinginu jafnvel þótt frv. fái ekki afgreiðslu á því þingi. Það væri auðvitað bráðnauðsynlegt, m.a. vegna upplýsinga sem þar koma fram og snerta undirbúning fjárlagagerðar á hverjum tíma.

Af þessu tilefni, virðulegi forseti, vil ég rifja það upp að fyrir nokkrum árum þurfti ég að mæla fyrir einum sex eða sjö ríkisreikningum í röð. Ég vil sérstaklega taka fram að ég tel að á undanförnum árum hafi verið tekið ærlega til í þessum málum af hálfu ráðuneytisins og við höfum reynt að leggja frv. fram snemma til að geta mætt þeim eðlilegu óskum hv. þm. og almennings að fyrir liggi sem allra nýjastar upplýsingar um ríkisfjármálin þegar fjallað er um fjárlög og fjárlagafrv. næsta árs.

Í greinargerð með frv. til fyrri fjáraukalaga ársins 1997 er fjallað um meginatriðin í framvindu ríkisfjármála á sl. ári og rakin helstu frávik tekna og gjalda frá fjárlögum. Þar koma einnig fram ítarlegar skýringar á nýjum fjárveitingum sem óskað var eftir til viðbótar við heimildir fjárlaga.

Fyrir Alþingi verður lögð skýrsla um ríkisfjármál árið 1997 þar sem afkoma ríkissjóðs eftir greiðsluuppgjör er skýrð. Á síðasta ári var gerð sú breyting á uppsetningu lagagreina þessa frv. miðað við fyrri ár, að eingöngu var sótt um heimildir fyrir greiðslum umfram fjárveitingar í fjárlögum og fyrri fjáraukalögum ársins. Niðurfelling óhafinna fjárveitinga var því ekki tilgreind sérstaklega í lagagreinum frv. Sami háttur er hafður á uppsetningu frv. í ár.

Samkvæmt greiðsluuppgjöri var ríkissjóður rekinn með 5 milljarða kr. afgangi á síðasta ári. Er það í fyrsta sinn um langt skeið sem rekstur ríkissjóðs skilar tekjuafgangi. Þá eru undanskildar vaxtagreiðslur sem námu 3,8 milljörðum kr. og voru færðar til bókar á greiðslugrunni í kjölfar sérstakrar innköllunar á mörgum eldri flokkum spariskírteina. Við þá endurfjármögnun falla vaxtagreiðslur ríkissjóðs til fyrr en ella. Að þessari sérstöku aðgerð meðtalinni var tekjuafgangurinn 1,2 milljarðar kr. á greiðslugrunni.

Ég vil, virðulegi forseti, af þessu tilefni minna á að á undanförnum árum hef ég lagt mig fram um að kalla inn flokka spariskírteina sem borið hafa háa vexti. Það hefur fyrst og fremst verið gert til þess að spara ríkissjóði fjármuni, jafnvel þótt sá sparnaður komi ekki fram fyrr en eftir minn dag í fjmrn., en styttist nú mjög í dvöl minni þar eins og sumir vita. (SJS: Ha?) Ég vona að sumir hafi frétt af þessu.

Hins vegar skiptir það kannski meira máli að með þeim breytingum sem við höfum staðið að í þessu sambandi, hefur okkur tekist að lækka vexti verulega á skuldbindingum ríkissjóðs. Það hefur leitt til þess að ríkið greiðir nú miklu minna í vexti. Þannig gefst færi á að greiða niður skuldir ríkissjóðs hraðar eða nýta þá fjármuni til annars.

Ég vil þakka þeim hv. þm. sem sýnt hafa skilning á því að við fjárlagagerð á hverjum tíma var ekki hægt að setja þessi atriði í frumvörpin. Það var ekki hægt að gera fyrr en fyrir lágu upplýsingar frá viðeigandi opinberum stofnunum eftir ítarlega skoðun. Ég ætla ekki að gera það að aðalmáli hér. Ég er fyrst og fremst að segja þetta til skýringar, m.a. á því hvers vegna vaxtagreiðslur hafa á greiðslugrunni á undanförnum árum verið hærri en ella. Þetta hefur hins vegar ekkert með svokallaðan rekstrargrunn að gera. Hann er sá grunnur sem fjárlög nú byggjast á og munu byggjast á í framtíðinni. Þannig eru ríkisreikningur og fjárlög á sama grunni og þar er því sambærilegar tölur að finna.

Heildartekjur ríkissjóðs árið 1997 urðu um 132 milljarðar kr. eða um 200 millj. kr. hærri en gert var ráð fyrir í endurskoðaðri áætlun fjmrn. sem fram kom í fyrri fjáraukalögum ársins 1997. Hlutfall ríkistekna af landsframleiðslu árið 1997 er áætlað 25%. Það er ívið lægra en árið áður. Hækkun tekna, frá því sem reiknað var með við setningu fjárlaga, nam um 5,8 milljörðum kr. og veldur það mestu um afkomubata ríkissjóðs. Þar gætir áhrifa af hagstæðri efnahagsframvindu á árinu.

Heildarútgjöld ríkissjóðs á sl. ári urðu 127 milljarðar kr. að frátöldum framangreindum áhrifum af sérstakri innlausn spariskírteina. Þau voru um 0,8 milljörðum kr. hærri en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Hlutfall útgjaldanna af landsframleiðslu er áætlað 24,1% og lækkar verulega frá árinu áður eða um 1,7%. Óhafnar fjárveitingar ráðuneyta námu alls 5,7 milljörðum kr. í árslok 1997 en greiðslur umfram veittar heimildir námu nærri 2,9 milljörðum kr.

Sótt er um heimildir fyrir umframgreiðslunum í þessu frv. til síðari fjáraukalaga eins og fram kemur í niðurstöðusamtölu í 2. gr. frv. Mismunur afgangsheimilda og umframgreiðslna nemur 2,9 milljörðum kr. eins og fram kemur í samtölu gjalda í 1. gr.

Í fskj. I eru sýndar fyrirhugaðar breytingar á fjárveitingum í fjárlögum ársins 1998 vegna stöðu fjárheimilda í árslok 1997, svonefndar yfirfærslur milli ára. Í fskj. II eru sýnd umframgjöld og afgangsheimildir sem falla niður í lok ársins 1997 og ekki er fyrirhugað að draga frá eða bæta við fjárveitingar ársins 1998. Þetta eru samtals um 1.300 millj. kr.

Virðulegi forseti. Við 1. umr. hefur ekki verið venja að fjalla um einstök ráðuneyti, um heimildir til útgjalda á vegum þeirra og hvernig útgjöld hafi staðist fjárlagaheimildir, né heldur um það yfirlit sem fylgir með þessu frv. Hins vegar ber að benda á töflu á bls. 17 sem sýnir breytingar framlaga 1998 vegna óhafinna fjárveitinga og umframgjalda 1997. Á töflunni má sjá hvernig fjárveitingar fara yfir áramót. Tekið skal fram, og það verður kannski aldrei of oft gert, að vafalítið hefur það haft gífurlega mikla þýðingu fyrir stjórn ríkisfjármálanna á undanförnum árum að geta sagt að óhafnar fjárveitingar geti færst á milli ára. Fyrir nokkrum árum var það þannig að einstakir stjórnendur í ríkisrekstri reyndu að eyða fjármunum sem þeir höfðu samkvæmt fjárlögum síðast á árinu, af ótta við það að ef þeir verðu ekki fjármununum til tiltekinna nota yrðu þeir fjármunir teknir af þeim í fjárlögum næsta árs. Sparnaður var ekki dyggð. Dyggðin var að koma peningunum í lóg. Með breyttum stjórnunarháttum sem m.a. koma fram í þessu hefur það gerst að menn treysta mun betur en áður því að eðlileg og góð og aðhaldssöm ráðdeildarstjórn í ríkisrekstrinum skili mönnum fjármunum en ekki hinu gagnstæða.

Ég legg áherslu á að það sem hefur gerst á undanförnum árum er þáttur í því hve vel hefur tekist til í ríkisfjármálunum. Ég viðurkenni hins vegar að það er ekki alltaf auðvelt að átta sig á þessari töflu en það er hægt að vísa til 2. gr. Ef við drögum fyrsta dálkinn frá öðrum dálki, þ.e. dálkinn fyrir umframgjöld 1997 frá dálki fyrir óhafnar greiðslur 1998, þá er mismunurinn 2,8 milljarðar kr. Það eru þeir fjármunir sem um getur í 1. gr. frv.

Ef við hins vegar leggjum tölurnar saman, og þá verður auðvitað að líta á að sumar þeirra eru neikvæðar í þriðja til sjötta dálki, eru 1.576 millj. kr. færðar yfir til ársins 1998. Um það er nánar getið um í fskj. I. Ég vona að þetta hafi ekki ruglað hv. þm., það átti að vera til skýringar. Þetta hefur hins vegar verið til umræðu hér á hverju einasta ári að undanförnu. Ég vonast til að við áttum okkur betur en áður á því hvernig þessi tafla er byggð upp.

Ég tel ástæðulaust, virðulegi forseti, að fara mörgum fleiri orðum um frv. Hv. fjárln. fær það til meðhöndlunar og fer auðvitað yfir einstaka þætti þess með þeim aðilum sem gefið geta sem besta upplýsingar um málið.

Að lokinni þessari umræðu vil ég gera tillögu um frv. verði samþykkt til 2. umr. og sent til hv. fjárlaganefndar til frekari umfjöllunar og afgreiðslu.