Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 14:37:24 (5447)

1998-04-14 14:37:24# 122. lþ. 103.3 fundur 630. mál: #A fjáraukalög 1997# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[14:37]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þetta er að snúast upp í allsherjar kveðjuræður hér og kannski fyllilega við hæfi. Hæstv. ráðherra lét í ljós þá ósk að þetta frv. yrði afgreitt í vor. Ég efa ekki að það ætti að vera hægt. Þó að hv. fjárln. sé ekki alveg jafnverkefnalaus og hv. 4. þm. Norðurl. e. vildi vera láta, þá held ég að það sé fullur hugur í nefndarmönnum að afgreiða málið í vor. Því er ekkert til fyrirstöðu en það er hætt við því að það verði ekki afgreitt í tíð núv. fjmrh. ef marka má flugufregnir.

Þetta merkilega þingmál er ekkert smámál. Þetta er síðara frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1997 og lokaniðurstöður fjárlagadæmis þess árs. Þær eru um margt athyglisverðar, eins og hér hefur komið fram, ekki síst með tilliti til þess að við afgreiddum fyrri fjáraukalög í desember, örskömmu fyrir jól. Maður skyldi halda að þá væri orðið nokkuð ljóst um niðurstöður tekna en þó fyrst og fremst um gjöldin í öllum megindráttum.

Hér kemur reyndar annað á daginn og ber ekki þess vott að menn hafi nægilega góð tök og yfirsýn yfir það sem er að gerast á hinum ýmsu stöðum í ríkiskerfinu. Það varpar nokkrum skugga á þær glæsilegu niðurstöður sem hæstv. fjmrh. hefur nú kynnt.

Ég hlýt auðvitað enn einu sinni að minna á álit minni hluta fjárln. og viðvörunarorð, bæði við afgreiðslu fjárlaga ársins 1997 og við afgreiðslu fjáraukalaganna í desember sl. Við höfum margsinnis sýnt fram á að þar var um stórfelldar vanáætlanir að ræða, bæði tekju- og gjaldamegin. Enn einu sinni sannast að ekkert hefur verið ofsagt í þeim efnum og langt frá því. Við höfum að sjálfsögðu viljað hafa vaðið fyrir neðan okkur og töldum upphaflega tekjuhliðina vanáætlaða um 1--2 milljarða. Nú hefur komið á daginn að tekjur ríkissjóðs hafa verið vanáætlaðar um rétt tæpa 6 milljarða kr. Sú niðurstaða var raunar orðin ljós við afgreiðslu fyrri fjáraukalaga í desember og þar munar sáralitlu. Gjaldahliðin og þær upplýsingar sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga ársins 1997 vekja nokkra furðu.

Við í minni hlutanum vorum ákaflega ósátt við ýmsar ráðstafanir á gjaldahliðinni og vildum þar hafa annan hátt á. Það var einkum í sambandi við rekstur sjúkrastofnana sem hart er tekist á um á hverju einasta ári og ekki útséð um þau átök. Það voru mikil vonbrigði að meiri hluti Alþingis skyldi ekki taka tillit til ábendinga minni hlutans og ráðast að vanda sjúkrahúsanna, einkum stærstu sjúkrahúsanna í landinu. Þau eiga í vök að verjast og auðvitað hefur komið á daginn að betur hefði verið hlustað á það sem minni hlutinn hefur haft fram að færa. Flestar forsendur hafa legið ljósar fyrir og sýnt að brýn þörf er á að hækka fjárveitingar til þessara sjúkrastofnana ef við ætlum að halda því ágæta þjónustustigi sem þær hafa hingað til veitt. Tillögur minni hlutans hafa því miður verið felldar og þó að meiri hlutinn hafi viljað taka á þeim vanda á vissan hátt þá er vandinn óleystur enn þá.

Minni hlutinn sýndi hins vegar mikinn skilning á fjárþörf sendiráðanna, eins og hér hefur komið fram. Nú er reyndar komið í ljós að sá mikli skilningur var auðvitað algjör ofrausn. Samkvæmt viðauka II í skýrslu Ríkisendurskoðunar eiga sendiráðin enn þá inni á annað hundrað millj. kr. í ónýttum fjárheimildum. Almennt eiga sendiráð inni rúmar 89 millj. og sendiráð Íslands í Brussel 15,6 millj. Þessi mikli skilningur var því ónauðsynlegur í þetta sinn. Ýmsar fjárheimildir sem hér eru sýndar í viðauka II í skýrslu Ríkisendurskoðunar hafa ekki verið nýttar nú í mars 1998. Sýnilegt er að hér eru margar stofnanir og verkefni sem eiga inni heilmiklar ónýttar fjárheimildir. Þetta vekur auðvitað spurningar sem við hljótum að leita svara við í störfum okkar í nefndinni.

[14:45]

Í þessari skýrslu og raunar í frv. kemur fram að ónotaðar fjárheimildir nema alls 4,2 milljörðum kr. Mikið af þessum fjárheimildum koma fram við afgreiðslu fjáraukalaga í desember þegar árið er nánast liðið. Áætlanir eru því ekki mjög nákvæmar á þessum bæ. Þetta er talsvert hærri fjárhæð en á árinu 1996 en þá nam samsvarandi upphæð um 2,7 milljörðum kr. Þar er fjmrn. reyndar ofarlega á blaði sem hefur ætlað sér miklu meiri vaxtagjöld en varð. Það vekur einmitt upp þá spurningu hvernig áætlanagerðinni er eiginlega háttað í fjmrn. að þeir skuli ekki átta sig betur á tölum í desember en raun ber vitni.

Margar athyglisverðar upplýsingar koma mjög skýrt fram í viðauka í skýrslu Ríkisendurskoðunar og þarf virkilega að fara yfir og leita skýringa á hvað er á bak við allar þær tölur. Það þarf að leggja í þá vinnu, hjá því verður ekki komist. Vissulega eru ýmsir liðir sem vitað er að voru ætlaðir til framkvæmda sem hafa tafist af einhverjum orsökum en fyrst og fremst vekja rekstrartölurnar undrun. Maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum aðalskrifstofa félmrn. hefur t.d. allt of háar fjárveitingar fjögur ár í röð, hún hefur sem sagt ónotaðar heimildir á hverju einasta ári um áramót og Brunamálastofnun ríkisins hefur mjög háar ónotaðar heimildir miðað við umfang þeirrar skrifstofu. Fleiri dæmi mætti nefna, t.d. ábyrgðasjóð launa, liðinn Félagsmál, ýmis starfsemi. Það vekur auðvitað spurningar að hér eru bæði Ríkisspítalar og Sjúkrahús Reykjavíkur sýnd með ónotaðar heimildir en það mun vera vegna framkvæmda sem ekki var farið í fyrir áramótin. Eins og ég segi, það er auðvelt að skýra þau atriði þar sem um framkvæmdir er að ræða því alltaf getur eitthvað slíkt komið upp á. En það mætti margt tína hér til, skýrsluvélakostnaður er með vannýtta heimild upp á rúmlega 80 millj. og þannig hefur það verið á hverju einasta ári þau fjögur ár sem hér eru sýnd. Þetta þarf allt saman að fara yfir.

Sama er að segja um lista sem er í viðauka I í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem taldir eru upp nokkrir liðir sem fóru 7 millj. kr. eða meira yfir fjárheimild. Það þarf að leita skýringa á því. Það hlýtur að þurfa að hækka verulega t.d. liðinn Jöfnun á námskostnaði sem hefur farið undanfarin fjögur ár ævinlega talsvert fram úr fjárheimildum. Eins er um Bændaskólann á Hólum sem hefur í þrjú ár farið talsvert fram úr fjárheimildum að ekki sé minnst á sýslumanninn á Akranesi sem hefur á hverju ári í fjögur ár farið myndarlega fram úr (Gripið fram í: En á Hólmavík?) og er rúmlega 26 millj. fram úr á þessu blaði. Sýslumaðurinn á Hólmavík hefur ekki gert það, maður veit ekkert hvað verður á næsta ári. Það er annað mál.

Það hlýtur að þurfa að skoða þá liði þar sem farið er fram úr á hverju ári. Það geta verið eðlilegar orsakir, einfaldlega of lágt áætlaður rekstrarkostnaður eða eitthvað slíkt og yfir það þarf að fara því að það gengur ekki að setja þetta þannig fram ár eftir ár án þess að leitað sé skýringa á því hvað þarna er að baki.

Ýmislegt fleira væri gaman að fara út í sem kemur fram í skýrslunni. Ég vil aðeins nefna eitt atriði sem er stjórnendum ríkisins til nokkurs lofs vegna þess að oft hefur verið talað um ofvöxt og útþenslu í ríkisgeirunum og að þar sé fjöldi starfsmanna sem geri helst ekkert annað en naga blýanta. Hvað sem því líður þá hefur heildarfjöldi reiknaðra ársverka ekki aukist á síðasta ári, þeim fækkaði reyndar en ef leiðrétt er fyrir flutningi á rekstri grunnskólans frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna á síðasta ári stóðu ársverk því sem næst í stað milli ára og það er athyglisvert.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. Ég vil aðeins segja að það er auðvitað fagnaðarefni að ríkissjóður standi vel. Það er reyndar tími til kominn eftir langvarandi hallarekstur undanfarinna ára sem er nú farinn að nálgast afskriftir ríkisbankanna á sama tíma í stærðargráðu. Enginn mótmælir því að markmið um hallalaus fjárlög er markmið sem á að stefna að og helst góðum afgangi. En ég hlýt að undrast og gagnrýna áætlanagerð af því tagi sem okkur birtist og ég hef verið að benda á þar sem menn eru að veita heimildir langt umfram þörf að því er virðist og það á síðustu dögum fjárlagaársins en um leið er þráast við að taka á augljósum vanda heilbrigðisstofnana í landinu.