Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 15:26:30 (5451)

1998-04-14 15:26:30# 122. lþ. 103.3 fundur 630. mál: #A fjáraukalög 1997# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[15:26]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Ég skal vera örstuttorður. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur fyrir ræðu hennar áðan. Ég held að hún hafi alveg réttilega sagt að það þarf að ræða þessi mál, málefni sjúkrahúsanna og heilbrigðisþjónustunnar í landinu nokkuð öðruvísi en við höfum verið að gera á undanförnum árum. Það þarf að draga þar alla til ábyrgðar, ekki einungis þingmenn, ekki einungis þá sem eru í ráðherrastól á hverjum tíma, heldur láta umræðuna ná til allra þeirra sem starfa í þessum málaflokki án þess að framselja valdið til þeirra. Ég leyfi mér að skilja hv. þm. þannig að það þyrfti að styrkja fjármálastjórn sjúkrahúsanna fjárhagslega og heilsugæsluna og þá það forvarnastarf sem þar er unnið. Ég er alveg tilbúinn til að svara því játandi að ég er sammála hv. þm. um þetta. En þá verða leikreglurnar, aðferðin, að vera þannig að ljóst sé að stjórnendur geti og vilji fara að fjárlögum íslenska ríkisins.

Það er ljóst og var kannski angi af þessari umræðu þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gagnrýndi pottaaðferðina sem svo er kölluð, að hún er auðvitað hallærðisbragð, neyðarbragð af hálfu stjórnvalda vegna þess að það hefur gerst ár eftir ár að einstök sjúkrahús hafa keyrt verulega fram úr fjárlögum. Og stundum hefur það gerst því miður að þessi sömu sjúkrahús hafa ekki einu sinni getað haldið útgjöldum innan eigin fjárhagsáætlana sem gerðar voru þegar nokkuð var liðið á árið. Það eitt sýnir hve mikinn vanda er við að etja í þessum málum og hve nauðsynlegt er að finna aðferð sem heldur í þessum efnum því það er einskis virði frá mínum bæjardyrum séð að henda sífellt meiri fjármunum í þessa starfsemi. Það verður fyrst að finna þá aðferð sem við ætlum að nota og hægt er að fara eftir og það verði að vera vilji til þess að fara eftir þeim fjárlögum sem íslenska ríkið samþykkir, þ.e. sem Alþingi samþykkir á hverjum tíma.

Það var ekki meining mín að fara að deila við hv. þm. um árin 1990 og 1991. Ég minni hins vegar á að á þessum árum gerðist það líklega í fyrsta skipti að stjórnarandstaðan, a.m.k. Sjálfstfl. sem stjórnarandstöðuflokkur, studdi kjarasamninga sem gerðir voru. Það var held ég í fyrsta skipti sem það gerðist vegna þess að áður fyrrum þótti það sjálfsagt --- og stundum hefur það nú reyndar gerst síðar --- að stjórnarandstöðuflokkarnir færu gegn öllu því sem ríkisstjórnin er að gera hversu skynsamlegt sem það svo er.

Mig langar að allra síðustu að geta þess, af því spurt var um umhvrn. og útgjöld sem eru kölluð Ýmis umhverfisverkefni, að stærstu liðirnir sem þar er að finna í þessum 23 millj. kr. eru mengunarvarnir við hafnir annars vegar og lyfta við hús umhvrn. hins vegar sem samþykkt var að fara í af alkunnum ástæðum.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að ákjósanlegt væri ef hv. nefnd gæti afgreitt þetta mál fyrir vorið. Þannig stæðum við á næsta hausti með samþykkt fjáraukalög með fyrirliggjandi reikning fyrir liðið ár og fjárlagafrv. þá til umræðu á grundvelli nýjustu upplýsinga sem tiltækar eru sem er nauðsynlegt fyrir hið háa Alþingi þegar teknar eru jafnafdrifaríkar ákvarðanir og í fjárlögum á hverjum tíma.