Yfirskattanefnd

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 15:46:53 (5455)

1998-04-14 15:46:53# 122. lþ. 103.4 fundur 641. mál: #A yfirskattanefnd# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[15:46]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum hér um breytingu á lögum um yfirskattanefnd er mjög mikilvægt og merkt mál. Það þarf að skoða, herra forseti, í tengslum við annað þingmál sem varðar bindandi álit í skattamálum. Hæstv. fjmrh. talaði fyrir því máli fyrir nokkru. (Gripið fram í: Settur fjmrh.) Settur fjmrh., hæstv. forsrh. talaði reyndar fyrir því, það er rétt ábending. En þingmálið sjálft var unnið í fjmrn. og á ábyrgð hæstv. fjmrh. Í þeirri umræðu kom fram sú ósk, sérstaklega hjá okkur stjórnarandstæðingum, að öll þessi mál yrði að skoða í víðara samhengi vegna þess að ekki væri nægjanlegt að kveða upp úr um bindandi álit í skattamálum heldur þyrfti einnig að koma til breyting á lögum um yfirskattanefnd. Meginatriðið í þessum málflutningi er að bæta réttarstöðu þeirra sem greiða skatt. Ég held að í sjálfu sér sé ekki ágreiningur um að mjög brýnt sé að þeir sem hafa spurningar um sín skattframtöl eða álagningu, að vandi þeirra sé leystur eins fljótt og auðið er og án þess að óhæfilegur dráttur verði.

Bent var á í þeirri umræðu að það frv. væri gallað hvað viðvék því atriði að ekki var kveðið upp úr um fresti hjá ríkisskattstjóra varðandi bindandi álit. Nú hefur hv. efh.- og viðskn. haft þetta mál til umfjöllunar og komist að samhljóða niðurstöðu að afgreiða málið til 2. umr., þ.e. frv. um bindandi álit í skattamálum og gerir á því breytingar. Þær veigamestu eru að kveða upp úr um ákveðinn frest sem ríkisskattstjóri hefur til að gefa bindandi álit. Það er mjög mikilvægt að frestir séu settir hjá stjórnvöldum við að taka ákvarðanir gagnvart þegnunum. Það má ekki líðast að stjórnvöld nýti fresti eða ef frestir eru ekki til staðar til að draga mál von úr viti.

Ég geri þetta að sérstöku umtalsefni, herra forseti, vegna þess að yfirskattanefnd hefur einmitt verið þessu markinu brennd. Mál hjá yfirskattanefnd hafa dregist um langan tíma, í allt að tvö ár, jafnvel þó segi í lögunum að yfirskattanefnd skuli afgreiða mál í meginatriðum innan þriggja mánaða og í undantekningartilvikum innan sex mánaða. Í þessu frv. er lagt til að gera almennan frest til afgreiðslu hjá yfirskattanefnd sex mánaða. Ekki ætla ég svo sem að hafa á móti því, jafnvel þó að fresturinn verði lengdur, ef því fylgir þá sá vilji löggjafans og framkvæmdarvaldsins að standa við þá fresti. Það er satt best að segja alveg ólíðandi að við skulum hafa ákvæði í lögum sem kveða upp úr um tiltekna fresti, eins og er í lögunum um yfirskattanefnd, en svo er það brotið og menn yppta öxlum og gera ekkert í málinu.

Við gerðum betrumbót í efh.- og viðskn. á frv. um bindandi álit í skattamálum og ég fagna því sérstaklega að það vorum við í stjórnarandstöðunni sem höfðum frumkvæði í því að gera þá breytingu á frv. Það var samhljóða niðurstaða eins og í mjög mörgum málum sem við fjöllum um frá hæstv. fjmrh. Ég tel brýnt að frv. fái skjóta meðferð í þinginu. Ég held að þetta sé brýnt mál og það eigi lögfestingu skilið og menn eigi ekki að láta frv. daga uppi. Ég held að þetta sé gott mál. Það þarf vitaskuld að fara vel yfir það, sérstaklega hvað varðar þá þætti að tryggja réttarstöðu þegnanna, sem greiða skatta hér á landi, að ekki sé brotið á þeim með því að fara fram yfir lögbundna fresti.

Sú hugmynd hefur vaknað hvort ekki ætti að vera refsi\-ákvæði í skattalögum, ekki gagnvart þeim sem brjóta skattalögin heldur gagnvart skattyfirvöldum, ef þau fara fram úr þeim frestum sem lögbundnir eru. Það var ekki útfært þannig í hv. efh.- og viðskn. varðandi bindandi álit í skattamálum. Hugmyndin er samt athyglisverð vegna þess að það er brýnt, herra forseti, að mínu mati að hugað verði betur að réttarstöðu skattgreiðendanna, að staða þeirra sé gerð betri gagnvart fjmrn. og skattyfirvöldum. Auðvitað þarf ákveðið jafnvægi að vera þarna á milli og sanngjarnar reglur og það hefur tekist að nokkru leyti. En fyrst og fremst verðum við að ganga frá löggjöfinni þannig að umgjörðin sé skýr og öll deilumál hafi farveg sem leiðir til skjótrar niðurstöðu og vitaskuld megum við ekki gleyma því að hvort sem það viðvíkur bindandi álitum eða úrskurði skattyfirvalda þá hafa þegnar landsins vitaskuld dómstólaleiðina alltaf sem úrræði. Ýmsar ábendingar sem eru núna að koma fram í frumvörpum hjá hæstv. fjmrh. eru einmitt byggðar m.a. á ábendingum umboðsmanns Alþingis, og það er vel þegar brugðist er við með þeim hætti.

Ég tel, herra forseti, að þetta frv. sé í meginatriðum af hinu góða. Það bætir réttarstöðu fólksins í landinu, það íþyngir ekki almannavaldinu og það er eðlilegt að stuðla að samþykkt þess.

Ég vil að lokum, herra forseti, nota þetta tækifæri þar sem svo háttar að þetta er síðasta þingmál hæstv. ráðherra, þ.e. hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar, og segja örfá orð. Væntanlega erum við að hlusta á síðustu ræðu hans sem ráðaherra. Hann mun hins vegar sitja á Alþingi áfram enn um stund eftir því fréttir herma. Ég veit ekki, herra forseti, hvaða siðir eiga við hér á Alþingi þegar ráðherra hverfur úr sínu embætti. Ég ætla hins vegar að fara nokkrum orðum um störf ráðherrans.

Hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, hefur setið mjög lengi í stóli fjmrh. Það er eitt annasamasta embætti ríkisstjórnar Íslands og hefur verið það lengi. Stundum er fjmrh. öfundaður af þeirri stöðu en oftar en ekki ganga yfir hann sjóir miklir og öfundin verður í minna lagi oft og tíðum.

Það verður hins vegar að segjast þegar horft er yfir ráðherraferil hæstv. ráðherra, Friðriks Sophussonar, að margar breytingar hafa verið gerðar, fjölmargar til bóta, aðrar miður eins og gengur. En í meginatriðum finnst mér að segja megi að honum hafi verið umhugað um að bæta áætlanagerð, bæta fjárreiður ríkisins, og hann hefur staðið fyrir faglegum vinnubrögðum. Ég hef hins vegar oft og tíðum verið ósammála hæstv. ráðherra, Friðriki Sophussyni, en hann hefur aldrei skotið sér undan málefnalegri umræðu. Hann hefur verið hreinskiptinn gagnvart okkur þingmönnum, einnig stjórnarandstöðuþingmönnum, og það er ekki sjálfgefið, herra forseti, að ráðherra hegði sér svo. Véfréttir einar vita hvað hæstv. ráðherra tekur sér fyrir hendur, en ég vil óska honum velfarnaðar í framtíðinni og þakka honum fyrir samstarfið þann tíma sem hann var ráðherra.