Lánasjóður landbúnaðarins

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:00:33 (5457)

1998-04-14 16:00:33# 122. lþ. 103.5 fundur 625. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:00]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tiltölulega litlu frv. um breytingu á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997, sem flutt er á þskj. 1072 og er 625. mál þingsins. Frv. er aðeins tvær greinar og sín málsgreinin hvor grein en getur þó haft nokkra þýðingu fyrir þá sem um ræðir ef það verður að lögum. Frv. er flutt að tilhlutan stjórnar Lánasjóðs landbúnaðarins sem hefur óskað eftir því við landbrn. að það beiti sér fyrir breytingu á ofangreindum lögum í þá veru að lánstími verði lengdur á tilteknum lánum sjóðsins, þ.e. þegar í hlut eiga lán til nýrra bygginga, jarðakaupa, jarðræktarframkvæmda og annarra framkvæmda sem teljast varanlegar, sbr. 1. mgr. 10. gr. núgildandi laga en þar segir, með leyfi forseta:

,,Lán til nýrra bygginga, jarðakaupa og ræktunar mega vera til allt að 25 ára, svo og til þeirra framkvæmda sem varanlegar teljast, en lán til vélakaupa, bústofnskaupa og annars þess sem hefur skemmri endingu til allt að 12 ára.``

Tillagan er um að 25 ára lánstími verði lengdur í 40 ár og til þess gert að létta greiðslubyrði og auðvelda nýframkvæmdir og husanlega nýliðun í landbúnaði. Í fskj. með frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. kemur fram að ekki er gert ráð fyrir að frv. leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð þótt það verði að lögum, hins vegar er gert ráð fyrir að það breyti nokkru um innstreymi í sjóðinn þar sem lánstíminn verður 15 árum lengri ef ákvæðinu verður beitt að fullu en það er auðvitað ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjóra á hverjum tíma. Að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. og ég vænti þess að frv. geti orðið að lögum á þessu þingi.