Ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:07:52 (5459)

1998-04-14 16:07:52# 122. lþ. 103.96 fundur 303#B ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:07]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. spyr um ástæður fyrir því að sýslumanninum á Akranesi hefur verið tilkynnt um þau áform ráðuneytisins að flytja hann til starfa á Hólmavík. Áður hefur komið fram af minni hálfu að ein meginástæðan fyrir því er sú að ráðuneytið telur að betur fari á því að sýslumaðurinn á Akranesi stýri minna embætti en hann hefur gert. Að vísu er ekki mjög algengt að embættismenn séu fluttir á milli embætta en kemur alltaf fyrir öðru hverju og oft hefur gefist mjög vel að flytja menn þannig á milli og menn hafa staðið sig með ágætum þegar þeim hafa verið fengin ný verkefni sem eru betur við þeirra hæfi. Ég vona satt best að segja að sú verði einnig raunin á í þessu tilviki. Ég tek eftir því að hv. 4. þm. Vestf. talar á annan hátt um þetta mál á Alþingi en hann hefur gert að undanförnu í fjölmiðlum, líkir ekki Hólmavík lengur við Brimarhólm eða Síberíu og fer í sjálfu sér mjög vel á því. Hv. þm. nefndi það ekki í þingræðu sem hann hefur gert opinberlega að réttara hefði verið að víkja sýslumanninum á Akranesi frá störfum. Ég lít svo á að þótt það sé mat ráðuneytisins að embættissýslan á Akranesi hafi ekki verið sem skyldi séu ekki tilefni til að grípa til slíkra aðgerða og í þessu falli sé eðlilegra að taka tillit til meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. Stjórnsýslulögin og ekki síst 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gerir beinlínis ráð fyrir að embættismenn séu fluttir þannig til og stjórnarskráin gerir það einnig og í athugasemdum við 36. gr. laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er þess sérstaklega getið að æskilegt sé að hafa heimild til að flytja starfsmenn þannig á milli embætta. En það er rétt að geta þess að samkvæmt stjórnarskránni eiga embættismenn rétt á því að hafna því að taka við embætti og taka við eftirlaunum í staðinn og það er ákvörðunaratriði þeirra sem eiga hlut að máli í slíkum tilvikum og rétt er að taka fram að sýslumanninum á Akranesi hefur verið veittur andmælaréttur vegna þessara áforma til 20. þessa mánaðar.

Þá er að því spurt hvers vegna Hólmavík hafi orðið fyrir valinu í þessu tilviki. Það var mat ráðuneytisins að það væri eðlilegt að finna minna sýslumannsembætti sem væri minna að umfangi og hefði færri mál til afgreiðslu í þessu tilviki. Það kom svo heim og saman að á Hólmavík var einnig sýslumaður sem við treystum mæta vel til að takast á við stærra embætti og því var afráðið að þeir tveir embættismenn hefðu skipti á embættum.

Varðandi andmæli íbúa á Hólmavík og Ströndum er það að segja að því fer alveg víðs fjarri að með þessari ráðstöfun sé á nokkurn hátt verið að óvirða íbúa á þessum svæðum. Aldrei hefur verið uppi það sjónarmið í fyrri tilvikum þegar embættismenn hafa verið fluttir til. Ég hef staðið að slíkum ákvörðunum áður og minnist þess ekki að menn hafi haft slíka gagnrýni í frammi en sýslumaður á lögmætan andmælarétt og endanleg ákvörðun verður að sjálfsögðu ekki tekin fyrr en svör hafa borist frá honum en aðrir eiga lögum samkvæmt ekki rétt til andmæla.