Ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:13:28 (5460)

1998-04-14 16:13:28# 122. lþ. 103.96 fundur 303#B ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík# (umræður utan dagskrár), GMS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:13]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Óneitanlega er um allsérstætt mál að ræða sem vakið hefur upp mikla reiði í Strandasýslu og víða um Vestfirði. Hér var nefnt áðan að um 200 Strandamenn hafa sent mótmæli til þingmanna Vestfjarða. Ég vænti þess að þau mótmæli finni sér stað hjá þeim flokki sem stendur að þessum gjörningi.

Hitt er svo annað mál að það kann vel að vera að menn hafi misst svolítið áttir í því hvað menn telja að sé að hjá þessum ágæta manni sem þarna er um að ræða, Sigurði Gizurarsyni. Hann hefur lent eitthvað upp á kant við dómsmrn. og att kappi við menn þar um lagatúlkanir í nokkurn tíma. Hins vegar megum við ekki gleyma því að þetta er maður sem hefur að baki mjög góðan námsferil, maður sem á eitthvert hæsta lögfræðipróf sem tekið hefur verið á Íslandi. Þetta er líka maður sem Alþingi hefur í tvígang kosið í nefnd til að semja frv. eða drög að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland og þetta er maður sem er menntaður bæði frá Frakklandi og Sviss og á að baki nokkuð góðan feril sem fagmaður í grein sinni. Ég held því að þótt þetta sé óvenjuleg gerð hjá hæstv. dómsmrh., sem ég vona að hann vindi ofan af og leysi með öðrum hætti, þá megum við ekki gleyma að þessi ágæti einstaklingur sem þarna á í hlut, Sigurður Gizurarson, er að öllu leyti hinn vænsti maður sem kann sitt fag og það er fráleitt að tala um að senda hann í einhverja Brimarhólmsvist norður til Hólmavíkur því að það vita þeir sem þekkja Hólmavík og landið þar í kring að það er svo fráleitt að það sé afleitur staður til að vera á. Samt sem áður, miðað við hvernig þessi mál hafa skipast þá vona ég að hæstv. dómsmrh. finni aðra lendingu í málinu en núna er stefnt að.