Ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 16:15:44 (5461)

1998-04-14 16:15:44# 122. lþ. 103.96 fundur 303#B ráðstöfun sýslumannsembættisins á Hólmavík# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[16:15]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það vakti óneitanlega mikla undrun þegar það spurðist út um fyrirætlanir hæstv. dómsmrh. og dómsmrn. um hrókeringar á sýslumönnum milli Hólmavíkur og Akraness. Málið er að sýslumann, sem dómsmrn. taldi með réttu eða röngu að réði ekki við starf sitt á Akranesi, átti að senda til Hólmavíkur. Ég ætla út af fyrir sig ekkert að leggja dóm á embættisferil þessa tiltekna sýslumanns. Það er ekkert í mínum verkahring eða mínu valdi. En það er hins vegar óneitanlega mjög sérkennilegt að úr því að það er mat dómsmrn. að þessi viðkomandi sýslumaður ráði ekki við starf sitt á einum stað þá sé svarið að senda hann til starfa á öðrum stað. Hvað er það sem gefur til kynna að þetta sé skynsamleg ráðstöfun?

Þetta hefur valdið mjög miklum sárindum og óánægju og reiði á Vestfjörðum. Mótmæli hafa borist frá Fjórðungssambandinu. Það hafa borist mótmæli frá einstökum sveitarfélögum og í dag bárust mér mótmæli yfir 200 atkvæðisbærra manna í Strandasýslu sem safnað var á örfáum dögum, sárafáum dögum. Og það liggur fyrir að fleiri mótmæli eru á leiðinni. Það er mjög mikill þungi á bak við þessa kröfu sem kemur fram í undirskriftalistanum úr Strandasýslu, þar sem kjósendur mótmæla harðlega ákvörðun dómsmrh. um boðuð sýslumannsskipti og þar sem okkur þingmönnum Vestfjarða er falið að hlutast til um að fyrrnefnd embættismannaskipti komi ekki til framkvæmda.

Ég tel að þetta hafi verið mjög óheppileg og mjög óskynsamleg ákvörðun, að sjálfsögðu ekki gerð af illum hug, en hún er alls ekki til farsældar. Það er ógeðfelld tilhugsun okkar sem búum í hinum dreifðu byggðum að út á land séu sendir menn sem eru ekki taldir standa sig í þéttbýlinu. Ég hafði vænst þess, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra endurskoðaði afstöðu sína og það veldur mér vonbrigðum að það er ekki gert. Ég skora því enn og aftur á hæstv. dómsmrh. að endurskoða þessa afstöðu sína.