Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 17:14:42 (5472)

1998-04-14 17:14:42# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[17:14]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er viðbúið að ágreiningur rísi um mál af þessu tagi þar sem verið er að skammta hagsmuni eða verðmæti eða rétt eða hvað við viljum kalla það vegna þess að það er svo sannarlega gert þegar verið er að móta reglur um það hverjir fái að veiða og þá hversu mikið úr þessum tiltekna stofni.

[17:15]

Það er í sjálfu sér tillaga að ákveðnu kvótakerfi sem hér er verið að búa til. Ekki sú sama og verið hefur, ekki sú sama og getið er um í lögunum um stjórn fiskveiða og ekki heldur sú sem menn vildu horfa til þegar lög voru sett um veiðar á úthafinu. Enda á 1. gr. þessa frv. að kippa 5. gr. þeirra laga úr sambandi þannig að þau ákvæði um hvernig skuli úthluta veiðiheimildum séu ekki í gildi, e.t.v. vegna þess að nú gat verið komið að því að á reyndi að komin væru árin þrjú sem dygðu til að úthluta veiðiheimildum varanlega, innan gæsalappa þó. En ég hef á tilfinningunni, herra forseti, og það er kannski meira en tilfinning, að þetta afkvæmi sem hér liggur fyrir í frv. til laga um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum sé fyrst og fremst afkvæmi deilna um hvernig eigi að stjórna þessum veiðum. Deilna sem eigi rót sína að rekja til þess þegar lögin voru sett um veiðar á úthafinu en þá gerðist það, herra forseti, að meiri hluti sjútvn. tók það sérstaklega fram í nál. sínu að það væri hans skilningur, með leyfi forseta að:

,,Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verði á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa. Veiðireynsla úr þessum stofni myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild.``

Það kom sem sé fram, herra forseti, strax í lok árs 1996 að ekki var vilji meiri hluta sjútvn. að veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum mynduðu grunn að fastri aflahlutdeild. Þeir voru ýmsir sem undirstrikuðu þennan vilja sinn og skilning hér í þingsal þegar þau lög voru afgreidd frá Alþingi. Ég hygg að þarna sé grunnurinn að því að nú er gripið til þess ráðs að kippa 5. gr. laganna um veiðar á úthafinu úr sambandi og frv. lagt fram til sérstakra laga um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Við þær aðstæður, herra forseti, er ekki óeðlilegt þótt þeir sem hafa verið að afla sér reynslu í veiðunum og hafa að sumu leyti mátt trúa því að þeir væru að gera það, vegna þess að bæði kveða úthafsveiðilögin á um hvernig það skuli gert og einnig hitt að hæstv. ráðherra hefur ekki verið fáanlegur til að kveða upp úr um hvernig þessum málum yrði háttað, þá hefur þeim aðilum sem hafa verið að afla sér reynslu verið leyft að trúa því að staðið yrði við þessi ákvæði úthafsveiðilaganna sem birtast í 5. gr. laganna.

Í fyrravor spurði ég hæstv. ráðherra einmitt út í þessi mál og reyndi að fá hann til að senda mönnum þau skilaboð, klár og kvitt, að þeir væru ekki að afla sér veiðireynslu. Það fékkst ekki. Því segi ég það aftur, herra forseti, að menn máttu trúa því miðað við það hvernig hæstv. ráðherra hefur komið fram í þessu máli að þeir væru að afla sér veiðireynslu. Þess vegna er ekkert skrýtið þótt einhverjir þeirra séu sárir og reiðir og sárreiðir þegar það kemur í ljós að ákveðið hefur verið að búa til eina regluna enn, að búa til nýja reglu sem ekki byggir á því sem þeim var þó leyft að halda að yrði gert og höfðu e.t.v. byggt einhverjar áætlanir á.

Nú á að snúa þessu við og horfa til burðargetu og svo á að skipta jafnt og síðan eiga að vera eftir ákveðin prósent fyrir þá sem vilja fá að spreyta sig en hafa ekki gert það áður. Það er þó ekki rétt að segja að alls ekki sé horft til veiðireynslu vegna þess að það eru jú þeir sem hafa einhverja reynslu af veiðunum, og eins og fram hefur komið fyrr í þessari umræðu nægir að hafa bleytt veiðarfæri til að flokkast sem slíkur, en það eru þessir aðilar sem fá 90% af þeim veiðiheimildum sem úthlutað verður. Þessar veiðiheimildir skiptast síðan eftir burðargetu að 60% til, og að 40% jafnt.

Eftir standa þá allt að 10% eins og það er orðað og á ráðherra að setja reglur um hvernig þeim verður úthlutað. Ég tel rétt að hæstv. ráðherra upplýsi strax hvernig það er hugsað. Ég held að mjög óeðlilegt sé að senda þessi 10% algjörlega opin til umsagnar án þess að ljóst sé hvaða reglur ráðherra er með í huga varðandi þessi 10%. Ég met það á svipaðan hátt og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson að eftir þrjú ár, af því að verið er að móta nýjar reglur til þriggja ára, hafi menn tilhneigingu til að líta svo á að búið sé að loka síldarpottinum. Ég á a.m.k. erfitt með að sjá hvernig hægt verður að komast hjá því að þá teljist menn enn á ný vera búnir að afla sér tiltekinnar reynslu eða vinna sér inn tiltekinn rétt og það geti orðið snúið að taka þann rétt af þeim. Hins vegar getum við auðvitað að fenginni reynslu einnig allt eins átt von á því að strax næsta haust komi frv. til breytinga á þessum lögum af því þá þurfi að hringla eitthvað með þessa nýju reglu af því hún hafi að einhverju leyti ekki reynst nógu vel.

Ef til vill kemur líka í ljós það sem segir í þessari merkilegu greinargerð, sem að stórum hluta til er í viðtengingarhætti og fylgir þessu frv., að þær veiðar sem voru undir núverandi verklagi hafi einfaldlega ekki reynst nægilega hagkvæmar og áfram verði leitað leiða til frekari hagkvæmni. Mætti þá segja mér að sá vísir að frjálsu framsali sem hér er að finna gæti e.t.v. spírað enn frekar í frumvarpsgerð hér í þinginu.

En í viðtengingarhætti, sagði ég, herra forseti, því það er furðulegt að lesa í grg. frv. þær vangaveltur sem fram koma um hugsanlegt göngumynstur norsk-íslenska síldarstofnsins þegar og ef hann kæmi nú inn fyrir landhelgina. Það er eiginlega merkilegt í ljósi þeirrar sögu og þeirrar þekkingar sem við Íslendingar eigum að hafa á síldarstofninum, að menn skuli setja annað eins og þetta frá sér á prenti. Það er kannski allt í lagi að tala um þessa hluti en stjórnarfrv. til nýrra laga um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum hefur aðra stöðu og á að hafa aðra stöðu en þá að menn varpi fram hugmyndum sem ekki byggja á merkilegri grunni en hér virðist vera.

Herra forseti. Ég þykist skilja og átta mig á því af hverju meiri hluti þingmanna og ríkisstjórnin ákveður að fara fram með þetta frv. Það hefur komið fram í máli mínu að ég tel það vera til að forða sér undan því að veiðireynsla í þessum stofni myndi grunn að fastri aflahlutdeild eins og meiri hluti sjútvn. bókaði sem sinn skilning og kom fram við afgreiðslu á úthafsveiðilögunum.

Ég vil hins vegar minna á að fyrir þinginu hefur legið og verið til vinnslu í sjútvn. frv. jafnaðarmanna, sem flutt var bæði á síðasta þingi og endurflutt á þessu, um breytingar á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, einmitt um síldina, ákvæði þess efnis, herra forseti, að ráðherra skuli bjóða út veiðiheimildir í norsk-íslenska síldarstofninn. Ég held að ástæða sé til að rifja það frv. upp við þessa umræðu því mér sýnist, herra forseti, að hægt verði að komast hjá ýmsum þeim vanda sem hér er verið að reyna að sniðganga með því einfaldlega að samþykkja það frv. Með því gætu menn náð þeirri hagkvæmni sem greinilega er ekki talin hafa náðst með hinum frjálsu veiðum á síðasta ári og ég er nokkuð viss um að menn þykjast ekki heldur ná þó að þetta frv. verði að lögum eins og það liggur fyrir núna. Vil ég þar m.a. benda á takmarkað framsal og ljóst er að einhvers staðar í miðri ánni verður skipt um takt því að í d-lið frv. er gert ráð fyrir að ráðherra geti ákveðið endurúthlutun þegar eitthvað er liðið á vertíð og við getum átt von á að settar verði nýjar reglur eða einhverju breytt þannig að menn búi skyndilega við allt aðrar aðstæður en þeir gera við upphaf vertíðar. Það mun þykja óhagkvæmt bæði fyrir þá sem stunda veiðar og vinnslu.

Í öðru lagi er það einnig svo að ef menn bjóða út þessar veiðiheimildir í síldina þarf ekki að takast á um þá hagsmuni sem hér er verið að skammta. Þá þarf ekki að takast á um hvort það er veiðireynsla, burðargeta eða annað sem á að ráða. Þá einfaldlega bjóða þeir í sem treysta sér til að veiða síldina með arðbærum hætti. Ég held við hljótum öll að vera sammála um að sá háttur sé eðlilegastur í þessu tilliti þegar allt kemur til alls.

Ég hef tekið eftir að sú hugmynd um að norsk-íslenski síldarstofninn sé tekinn út fyrir sviga hefur átt ákveðnu fylgi að fagna. Til dæmis hefur formaður Framsfl., þegar hann hefur verið í mátulegri fjarlægð frá umræðu um þetta mál, lýst því yfir að hann væri nokkuð hrifinn af þeirri hugmynd og gæti hugsað sér hana á einhvern hátt. Við sjáum hins vegar hvernig fór um þá hrifningu þegar þetta frv. var lagt fram því hann hlýtur að hafa samþykkt það í ríkisstjórn fyrst og síðan stutt það í gegnum sinn þingflokk og inn í þingsal. Það er a.m.k. alveg ljóst að eitthvað annað hefur orðið ofan á en hrifning hans á því að bjóða upp veiðiheimildir í norsk-íslenska síldarstofninum. En ég held, herra forseti, að rétt væri að við litum til þess að fara þá leið frekar en vera á flótta undan því að veiðireynsla úr þessum stofni myndi grunn að fastri aflahlutdeild eins og mér sýnist vera hér í gangi, að við ákveðum að síldin lúti öðrum lögmálum hvað varðar stjórn veiða en aðrar veiðar með því að bjóða upp heimildirnar, reynum þannig að ná hagkvæmni og réttlæti umfram það réttlæti sem felst í því að breyta úthlutunarreglum, að breyta skömmtun, ókeypis skömmtun ár frá ári á flótta undan því sem ekki má verða samkvæmt skilningi meiri hluta sjútvn.