Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. apríl 1998, kl. 17:58:10 (5478)

1998-04-14 17:58:10# 122. lþ. 103.6 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 122. lþ.

[17:58]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Við fyrirspurnum hv. þm. er það að segja að þegar hann spyr hvað verði um veiðireynslu skipa sem verið hafa að veiðum árin áður en þau þau verða seld, þá er það ljóst fyrir að engum veiðirétti hefur verið úthlutað. Fyrirkomulagið sem hér er mælt fyrir um er ráðstöfun til þriggja ára. Þegar kemur að lokum þess tímabils þarf að taka ákvarðanir um það hvernig standa eigi að framhaldinu. Hér er ekki kveðið á um hvaða reglur koma til með að gilda, eftir árið 2000.

Þá spurði hv. þm. hvort viðhorf mitt væri að þessi regla ætti að gilda um aðrar úthafsveiðar og hvort draga ætti úr þeim hvata sem úthafsveiðilögin gera ráð fyrir varðandi aðrar veiðar. Ég get svarað því mjög skýrt. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel að sá hvati sem felst í úthlutun samkvæmt veiðireynslu sé mjög mikilvægur. Ég tek undir með hv. þm. um að mjög brýnt er að við getum farið að hefja tilraunaveiðar með kolmunna. Við vitum að í undirbúningi eru tilraunaveiðar á túnfiski. Að mínu mati er eðlilegt, þegar kemur að úthlutun aflaheimilda úr þessum stofnum, að það byggist á grundvelli veiðireynslu í samræmi við meginreglur úthafsveiðilaganna.

Varðandi síðustu spurninguna um þá spennu sem fylgir því að setja reglur af því tagi sem hv. þm. var að lýsa, þá er það ágallinn við aðferðir eins og þessar að hugsanlega þarf að taka ákvarðanir um endurúthlutun á miðri vertíð. Ég tek undir það með hv. þm. að það er ágalli. Aðferðir eins og þessar geta gert það óhjákvæmilegt.