Málefni ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 11:40:27 (5497)

1998-04-15 11:40:27# 122. lþ. 104.13 fundur 491. mál: #A málefni ungra fíkniefnaneytenda# þál., Flm. SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[11:40]

Flm. (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt fram á Alþingi till. til þál. um málefni ungra fíkniefnaneytenda og auk mín skrifa upp á tillöguna hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að standa fyrir sérstöku átaki til að tryggja tafarlausa meðferð ungra fíkniefnaneytenda sem vilja fara í meðferð þannig að framvegis myndist ekki langir biðlistar eftir meðferð vegna áfengis- og fíkniefnanotkunar.``

Með tillögunni fylgir svohljóðandi greinargerð:

,,Í Morgunblaðinu 27. janúar sl. er viðtal við Þórarin Tyrfingsson yfirlækni á Vogi. Í viðtalinu kemur fram að að mati SÁÁ er meira um fíkniefni á Íslandi nú en nokkru sinni áður og einnig að tíðkaðar eru nýjar aðferðir við neyslu þeirra. Yfirlæknirinn fullyrðir að ástandið hafi versnað til muna frá 1995, mun meira af ólöglegum fíkniefnum sé í umferð, fleiri noti alls konar efni og neysluaðferðirnar séu fjölbreyttari. Hans álit er að lækning sé mun erfiðari en hún var fyrir þremur til fjórum árum.

Þórarinn segir að þetta skapi mikinn vanda hjá sjúkrahúsinu Vogi þar sem fólk sem er illa á sig komið og í afeitrun þurfi mikla umönnun og Vogur hafi alls ekki undan. Sjúklingar sem þurfi að sinna séu á biðlistum en göngudeildir og vaktir stóru spítalanna leggi fram mikla vinnu í þágu þeirra. Hann fullyrðir að mikill skortur sé á skyndiþjónustu fyrir áfengissjúklinga og allt að 300 sjúklingar séu á biðlista, misjafnlega illa á sig komnir.

Mat þeirra sem vinna að þessum málum er að mjög tilfinnanlega vanti meðferðarpláss fyrir yngstu vímuefnaneytendurna en ef séð væri fyrir þörfum þeirra mundi það létta á þrýstingi sem hefur verið á almenn meðferðarheimili að undanförnu um að taka mjög unga vímuefnaneytendur til meðferðar. Komið hefur fram í blaðafréttum að yngsti vímuefnaneytandi sem hefur verið til meðferðar á Vogi sé 13 ára. Þeir sem best þekkja til vímuefnavanda unglinga telja að unglingar í þessum aðstæðum þurfi mun sérhæfðari meðferð en er í boði á almennum meðferðarstofnunum.``

Í fskj. með þáltill. fylgja nokkur línurit og þar á meðal upplýsingar um innritanir ungs fólks sem fór í meðferð á Vogi árið 1997. Þar kemur í ljós að innlagnir þeirra sem voru 19 ára og yngri voru 264. Og í línuritunum sem fylgja með og koma líka frá sjúkrahúsinu á Vogi kemur fram að gríðarleg aukning, svoleiðis alveg ótrúleg að línuritið gengur beint upp í loftið, er á stórneytendum kannabis og amfetamíns.

Þegar ég las frétt í Morgunblaðinu sem vitnað er til í greinargerðinni bar ég fram á Alþingi fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. þar sem ég spurði hvort von væri á að meðferðarúrræðum yrði fjölgað í ljósi þessara upplýsinga sem lægju fyrir. Heilbrrh. sagði þá að úrræðum hefði fjölgað mjög á undanförnum árum. Hún sagði einnig að á Íslandi væru fleiri úrræði fyrir áfengissjúka og vímuefnasjúka en annars staðar í löndunum í kringum okkur, fleiri rúm fyrir þessa sjúklinga. En hún sagði líka að ríkisstjórnin væri fyrst og fremst með visst forvarnarátak í gangi.

[11:45]

Ég hygg að það hafi verið fleirum en mér sem fannst þetta nokkuð kaldar kveðjur til aðstandenda þeirra sem voru á fyrrnefndum biðlistum á Vog og þá kannski fyrst og fremst þeirra unglinga sem þarna eiga hlut að máli en það kemur einnig fram í svari heilbrrh. við fyrirspurn Ástu B. Þorsteinsdóttur við vímuefnameðferð barna og unglinga að gríðarleg aukning hefur verið á unglingum sem sækja eftir meðferð þannig að það er nánast tvöföldun á örfáum árum. Á þremur árum má segja að um tvöföldun sé að ræða og það liggur fyrir og er viðurkennt að þetta séu ekki hentug úrræði fyrir umræddan flokk sjúklinga, þ.e. unglinga, að setja þá í þá meðferð sem er í boði á Vogi. Samt kom í ljós að 8% af heildarfjölda skjólstæðinga Vogs á árinu 1993 höfðu verið á aldrinum 12--20 ára en 12% árið 1997.

Í umræddu svari heilbrrh. til hv. þm. Ástu B. Þorsteinsdóttur kemur einnig fram að á síðustu fjórum árum hafi verið einn sérmenntaður geðlæknir við störf á Vogi. Sálfræðingur hefur verið þar að störfum við meðferð og greiningu á unglingum síðan árið 1983 en félagsráðgjafar hafa að jafnaði ekki starfað á Vogi. Þetta eru uggvænlegar upplýsingar í ljósi þess fjölda sem maður veit að hefur verið þarna til meðferðar.

Hv. þm. Ásta B. Þorsteinsdóttir spyr líka hverja þjónustu barna- og unglingageðdeild Landspítala veitir þeim börnum og ungmennum sem þurfa meðferð vegna misnotkunar á vímuefnum. Hæstv. ráðherra bendir á það sem er alveg rétt að algengasta vímuefnið er áfengi sem börn og unglingar misnota sem og aðrir í þessu þjóðfélagi en á geðdeild Sjúkrahúss Reykjavíkur fer ekki fram sérstök meðferð barna og unglinga sem eiga við vímuefnavanda að etja og innlagnir á Landspítalann voru 1996 60 talsins, væntanlega af fyrrgreindum orsökum þó að það sé ekki tiltekið í svarinu. Það segir sig sjálft að þarna er ekki um meðhöndlun af neinu tagi að ræða á þeim stóra hópi sem þarna er í brýnni þörf.

Það kemur einnig fram í svari hæstv. heilbrrh., sem hafði í svari sínu til mín sagt í febrúar að á Íslandi væru mun fleiri úrræði fyrir áfengissjúka og vímuefnasjúka en annars staðar í löndunum í kringum okkur, að það sem er verið að ræða um sérstaklega fyrir ungmenni eru átta greiningarrými á Stuðlum og alls 20 meðferðarrými á Varpholti, Torfastöðum, Árbót og Bakkaflöt og þarna er engan veginn eingöngu um að ræða unglinga sem aðeins eiga í erfiðleikum vegna vímuefnavanda. Þau börn sem eru í meðferð á flestum þessum stöðum eiga við margs konar blandaðan vanda að etja og mörg alls ekki af vímuefnatoga.

Þegar hæstv. heilbrrh. er spurð hvort hún telji heppilega lausn að veita börnum og ungmennum meðferð vegna vímuefnanotkunar á stofnunum sem sniðnar eru að þörfum fullorðinna þá svarar hæstv. ráðherra því til að best fari á því að börn og unglingar fái meðferð á þar til gerðum meðferðarstofnunum. Samt liggur það fyrir að 264 börn og ungmenni fengu meðferð hjá SÁÁ í fyrra og ríkisstjórnin hefur engin áform um fleiri meðferðarúrræði. Ég verð að segja að ég undrast mjög þá afstöðu í ljósi þeirrar flóðbylgju sem núna virðist ganga yfir þjóðfélagið af vandamálum í kjölfar vímuefnaneyslu unglinga. Ég held að við þurfum mjög á því að halda að fá öfluga enduruppeldisstofnun í þjóðfélaginu þar sem börn að 20 ára aldri sem hafa lent í vímuefnavanda og jafnframt þau sem hafa gerst sek um afbrot, sem eru oft tengd neyslu vímuefna, yrðu meðhöndluð. Ég held að þetta ætti að vera nokkurs konar skólastofnun og ég sé fyrir mér setrið að Reykholti og þá skóla sem þar höfðu verið byggðir upp sem kjörna til að reka slíkt heimili á. Auðvitað yrði slíkt heimili að vera með íslensku sniði og á forsendum okkar Íslendinga en við getum samt lært heilmikið af því sem gert er erlendis og vel hefur tekist. Ég minni á fyrirlestur, sem haldinn var á vegum Barnaverndarstofu um daginn, um meðferðarstofnunina sænsku, Hassela, sem er einmitt blönduð stofnun þar sem ungmenni geta komið. Eiginlega eru þrjár leiðir sem ungmenni geta komið eftir til meðferðar inn á Hassela. Það er ef þau sjálf óska þess að komast úr úr miklum vímuefnavanda, það er ef þau eru dæmd af félagsmálayfirvöldum til að undirgangast meðferð og einnig er þriðji möguleikinn sem er líka mikið notaður að þau fá að velja, þegar þau hafa hlotið dóm vegna fíkniefnaafbrota, hvort þau afpláni með því að undirgangast meðferð á Hassela eða fara í fangelsi. Mörg velja Hassela en það verður að taka fram að það eru ákaflega ströng skilyrði. Allir sem fara inn á Hassela-meðferðarstofnunina þurfa fyrst að fara inn á stofnun sem má kalla afeitrunarstofnun í þrjá mánuði. Þá fyrst komast þau inn á Hassela-stofnunina sem er að nokkru leyti opin stofnun þannig að þau fá að fara í bæjarferðir í fylgd gæslumanna gegn ákveðnum mjög ströngum skilyrðum og sem dæmi vil ég taka að ef það kemst upp að unglingur hafi fengið sér einn bjór í slíkri bæjarferð, er það brot á skilorði og þá verður hann undantekningarlaust, t.d. ef hann hefur farið inn á Hassela til að afplána afbrot, að fara í fangelsi og taka út sína refsingu þar. Þar eru engir sénsar gefnir eins og það er kallað á Íslandi.

Meðferðin á Hassela-stofnuninni sjálfri tekur tvö ár og svo tekur við eitt ár undir mjög nánu eftirliti eftirlitsmanna stofnunarinnar en samt eru ungmennin vinnandi eða í námi úti í þjóðfélaginu. Líka má minna á það að í tengslum við meðferðina á Hassela-stofnununum, sem ég tel að þurfi líka að koma hér, er mjög öflug foreldrameðferð og foreldrastarf en ávallt verður að hafa það í huga að þegar ungmenni lenda í slíkri ógæfu verða foreldrarnir og fjölskyldurnar oft ákaflega illa úti og það er ekki síst nauðsynlegt að fjölskyldur ungmennanna fái stuðning við þessar aðstæður.