Málefni ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 11:58:26 (5499)

1998-04-15 11:58:26# 122. lþ. 104.13 fundur 491. mál: #A málefni ungra fíkniefnaneytenda# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[11:58]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni till. til þál. um málefni ungra fíkniefnaneytenda, málefni sem við höfum sannarlega tekið upp nokkrum sinnum áður. Bæði í utandagskrárumræðum og í málatilbúnaði frá stjórnarandstöðunni fyrst og fremst hefur á undanförnum þremur árum iðulega verið vakin athygli á því ástandi sem ríkir hvað varðar meðferðarúrræði fyrir unga fíkniefnaneytendur. Aftur og aftur hefur verið vakin athygli á því að þau meðferðarúrræði sem við höfum í dag, sérstaklega á vegum SÁÁ að Vogi, fullnægja ekki þeirri þörf sem er til staðar fyrir meðferð fyrir unga fíkniefnaneytendur og það er ákveðinn aldurshópur sem er á svokölluðu gráu svæði, þ.e. fellur ekki undir þær ráðstafanir sem gerðar eru á vegum félagsmálayfirvalda og ekki er heldur til úrræði fyrir á vegum heilbrigðisyfirvalda.

Þessi hópur er því miður orðinn nokkuð stór eins og sést á tölum á bls. 2 í fylgiskjali með tillögunni þar sem eru tölur um ungt fólk í meðferð á Vogi 1997 sem er á aldrinum 13--19 ára. Þar er alls um 206 einstaklinga að ræða en innritanir eru heldur fleiri, þær eru 264 sem þýðir þá væntanlega að sumir einstaklingarnir hafi komið oftar en einu sinni til meðferðar.

[12:00]

Það er jafnframt ljóst að á geðdeildum sjúkrahúsanna eru í dag ungir fíkniefnaneytendur. Inni í fangelsunum eru ungir fíkniefnaneytendur og fyrir stuttu síðan vöktum við athygli á því hversu nauðsynlegt er að taka sérstaklega á vistun ungra afbrotamanna, sérstaklega þeirra sem hafa leiðst út í neyslu fíkniefna og það er nú svo, virðulegi forseti, að langstærstur hluti ungra afbrotamanna er í fangelsum eða í vistun vegna þess að þeir hafa brotið af sér til þess að fjármagna fíkniefnakaup.

Það er mjög nauðsynlegt að taka á þessum málum og það er auðvitað mjög slæmt að hæstv. heilbrrh. skuli ekki vera á staðnum þegar þessi mál eru rædd, ekki síst í ljósi þess að hér voru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir úr ræðustól vegna þess að ráðherra hefði ekki verið beðin um það sérstaklega að vera viðstödd umræðu um vistun ungra afbrotamanna þar sem um er að ræða, eins og ég hef áður sagt, sjúklinga, þ.e. fíkniefnaneytendur. Þess vegna hefði verið mjög æskilegt að ráðherra væri hér á staðnum en ég býst við að 1. flm. þessarar tillögu hafi fallist á að hún væri fjarstödd. Það er kannski lýsandi líka fyrir þátttökuna í þessum umræðum hver hinn raunverulegi vilji til úrbóta er því eins og við sjáum eru ekki margir í salnum til að taka þátt í umræðunni eða að velta fyrir sér þeirri stöðu sem er í málefnum ungra fíkniefnaneytenda í dag.

Í heilbr.- og trn. er til meðferðar frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð sem hæstv. heilbrrh. hefur lagt fram og verður að öllum líkindum afgreitt. Ég óttast, miðað við þá umræðu sem hefur verið í gangi, að með því að búa til þetta áfengis- og vímuvarnaráð, og það er tilfinning mjög margra, séu þar með komnar þær úrbætur sem eiga að koma. En það er langt í frá vegna þess að þetta frv. og það ráð sem verið er að leggja til að sett verði á laggirnar mun í sjálfu sér ekki breyta neinu um þau meðferðarúrræði sem við höfum í dag.

Á ráðstefnu sem hér hefur verið minnst á sem foreldrahópur Vímulausrar æsku efndi til fyrir stuttu síðan, kom fram mjög skýrt í máli þeirra foreldra sem þar töluðu hvílíkt úrræðaleysi ríkir gagnvart þeim ungu fíkniefnaneytendum sem eru orðnir mjög háðir vímuefnum, þ.e. eins og það er kallað eru í harðri neyslu og hafa jafnvel af þeirri ástæðu hlotið varanlegar skemmdir, þ.e. eiga við mjög erfið sálræn eða geðræn vandamál að stríða og þurfa þess vegna á mjög sérhæfðri meðferð og læknishjálp að halda. Það kom mjög skýrt fram í máli þeirra allra að þessi meðferðarúrræði eru ekki til staðar í dag og þeir telja að við þeim breytingum sem gerðar voru varðandi sjálfræðisaldur hafi ekki verið brugðist né gripið til þeirra ráðstafana sem þurfti til þess að bæta aðstöðu þeirra í þeim hópi sem ekki hefur sjálfræði og þarf sérhæfð meðferðarúrræði og er nú mun stærri en áður var.

Þó að þessi tillaga hafi nú legið um nokkurt tíma í þinginu án þess að vera tekin á dagskrá, þá er enn tími fyrir Alþingi að samþykkja ályktun sem felur það í sér að tafarlaust verði leitað lausna til að tryggja meðferð ungra fíkniefnaneytenda og að farið verði í sérstakt átak. Það er rétt sem hv. þm. Ágúst Einarsson kom inn á. Það vantar stefnu í þessi mál öll hjá stjórnvöldum. Það vantar fjármagn og það vantar að þessu sé meira en í orði lýst sem sérstöku forgangsverkefni þannig að það verði í verki líka. Fjármuni þarf til og þó að þetta hafi ekki farið í sérstakt kostnaðarmat er sjálfsagt hægt að fá útreikning á því fyrir nefndina hvað reikna má með að þurfi af fjármagni og þó að kannski sé um einhverjar verulegar fjárhæðir að ræða þá verður að horfa á að þær munu skila sér margfalt til baka í hverjum þeim einstaklingi sem tekst að bjarga sé gripið inn í í tíma og áður en ungur fíkniefnaneytandi er dæmdur í annars konar meðferð, þ.e. í afplánun í fangelsi þar sem ekki er gert ráð fyrir neinni meðferð í raun og veru eða þeirri læknishjálp sem þetta unga fólk þarf á að halda. Ég vil því eindregið hvetja til þess að þessi tillaga fái afgreiðslu í þeirri nefnd sem hún fer til.