Þingsköp Alþingis

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 12:19:41 (5501)

1998-04-15 12:19:41# 122. lþ. 104.15 fundur 229. mál: #A þingsköp Alþingis# (upplýsingar um hlutafélög) frv., 230. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[12:19]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur frv. til laga sem í fljótu bragði mætti ætla að væru alls ótengd því annað þeirra varðar breytingar á lögum um hlutafélög og hitt breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Málin eru þó nátengd. Bæði lúta þau að því að löggjafinn tryggi greiðan aðgang að markvissum upplýsingum af hálfu hlutafélaga sem eru að helmingi eða meira í eigu ríkisins.

Þessi frv. voru lögð fram fyrir nokkrum mánuðum síðan og spruttu af utandagskrárumræðu sem þá fór fram um rétt alþingismanna til aðgangs að upplýsingum um stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins. Í kjölfarið birti forsrh. skýrslu um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins, sem saman var tekin af Stefáni M. Stefánssyni lögmanni.

Þau mál sem ég geri hér að umtalsefni hafa sannarlega verið ofarlega á baugi í almennri þjóðfélagsumræðu nú hina síðustu daga, vikur og mánuði. Þar vísa ég til þeirrar almennu umræðu sem átt hefur sér stað vegna tiltekins rekstrarkostnaðar viðskiptabankanna, án þess ég ætli að fara í gegnum hana að þessu sinni. Þó tel ég rétt að vekja athygli á því að með formbreytingum á viðskiptabönkunum, Búnaðarbanka og Landsbanka, taka mætti formbreytingu á Pósti og síma með í það kompaní, þá er nú svo komið að þær upplýsingar sem þjóðin hefur verið að furða sig á upp á síðkastið varðandi risnukostnað, starfskjör bankastjóra o.s.frv. að alþingismenn hafa ekki lengur aðgang að þeim. Með öðrum orðum þá væri einfalt svar við spurningunni um hvaða fjármunir hefðu runnið til slíkra hluta af hálfu Landsbankans eða Búnaðarbankans á yfirstandandi ári. Þá gæti hæstv. viðskrh. komið í þingsal og sagt: Ég hef ekki heimildir til að svara þessu. Síðan bæri hann við viðskiptaleynd.

Ýmsir hafa túlkað það svo að með formbreytingunni á ríkisfyrirtækjum hafi lokast gjörsamlega fyrir upplýsingastreymi til alþingismanna og þjóðarinnar allrar hvað innri mál viðkomandi stofnana varðar. Í skýrslu þeirri sem forsrh. lét taka saman um þessi mál kemst skýrsluhöfundur að þeirri niðurstöðu að réttur einstaklinga til að krefja ráðherra um upplýsingar skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar og 49. gr. þingskapalaga nái aðeins til þeirra málefna sem talist geti opinber. Löggjafinn kveður síðan nánar á um hvaða málefni eru opinber. Í framhaldinu af því hafa hæstv. ráðherrar, hæstv. samgrh. og hæstv. viðskrh., túlkað það svo að þegar ríkisfyrirtæki hafi verið hlutafélagavædd séu þau ekki lengur opinber. Þar með stöðvast upplýsingaflæðið til þingsins og þjóðarinnar allrar. Við þetta verður auðvitað ekki búið.

Það er alveg ljóst, ekki síst með hliðsjón af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað síðustu daga og vikur að viðskiptalífið almennt, hlutafélög, stórfyrirtæki og önnur verða að leggja sín spil á borðið og sýna viðskiptamönnum sínum, þeim sem borga brúsann og halda fyrirtækjunum gangandi, svart á hvítu hvernig málum er hagað á viðkomandi bæjum.

Þessi frv. eru til þess ætluð að taka af öll tvímæli í þessa veru. Annars vegar kveða þau á um skýrt afmarkaðan og skilgreindan rétt alþingismanna í þingskapalögum. Hins vegar er um það að ræða að ríkisfyrirtæki, sem eru í eigu ríkissjóðs að helmingi eða meira, séu skýlaust undir það sett að veita þær upplýsingar sem um er beðið af hinu háa Alþingi. Þetta eru ákaflega einföld frv. að allri gerð og engin ástæða til að þingið þurfi að voma lengi yfir þeim. Þetta er einfaldlega spurning um pólitískan vilja og vilja til að standa skil á almennum upplýsingum til þjóðarinnar með viti bornum hætti.

Nú hafa þessi hlutafélög í eigu ríkissjóðs verið skilgreind í lögum um fjárreiður ríkisins sem svokölluð E-hluta fyrirtæki eða ríkisaðilar. Í þessu frv. um þingsköp Alþingis eru öll tvímæli tekin af um að þau teljist þar með til opinberra fyrirtækja og beri því að veita upplýsingar um ýmsa þætti í rekstri þeirra.

Hins vegar eru líka tekin af öll tvímæli í lögum um hlutafélög þar sem einfaldlega er sagt að hlutafélög sem teljist til E-hluta ríkisreiknings og ríkið á að hálfu eða meira sé skylt að veita Alþingi sömu upplýsingar um opinber málefni og ríkisfyrirtækjum. Þeir einkaaðilar sem hugsanlega eiga hlut í fyrirtækjum ásamt ríkisvaldinu og þjóðinni, eru undir þetta verklag seldir.

Ég lít því svo á, virðulegi forseti, í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað, að það sé almennur vilji í þinginu til að taka þessi frv. til afgreiðslu, fljótt og vel. Þau eru einföld að allri gerð. Hér er aðeins spurt um pólitískan vilja. Ég þykist vita að meiri hluti þingheims vilji síður að upplýsingar af þeim toga sem hér hafa verið mikið í umræðu síðustu daga verði lokaðar niðri í skúffum. Þeim má ekki sópa út í horn og opinberir aðilar mega ekki hafna að veita upplýsingar sé um þær beðið. Flóknara er þetta mál ekki.

Í þessu samhengi er auðvitað freistandi að nefna dæmi í þessa veru. Nú nýverið var eitt dótturfyrirtækja Landsbankans uppvíst að því að neita um upplýsingar vegna þess að 10% eignarhlutdeild var á hendi einkaaðila. 90% hlutdeild var hins vegar á hendi ríkissjóðs. Það dugði hins vegar ekki til þess að hægt væri að krefja þetta fyrirtæki um skýlausar upplýsingar. Það bar fyrir sig þessari svonefndu viðskiptaleynd. Við þetta verður ekki búið.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna, virðulegi forseti, þótt það eigi nú kannski ekki við nákvæmlega efni þessara frv., hið almenna siðferði í viðskiptalífinu. Eins og ég gat um er hér við það miðað að þeim fyrirtækjum sem ríkið á að helmingi eða meiru beri að veita upplýsingar en í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um einstaka kostnaðarliði bankakerfisins er auðvitað eðlilegt að krefjast þess að einkaaðilar geri slíkt hið sama. Ég er þar til að mynda að vísa til Íslandsbanka en ég hef spurt forsvarsmenn þess banka að því hvort þeir séu ekki reiðubúnir til að leggja sín spil á borðið eins og ríkisbankarnir hafa gert og eru enn að gera þessa dagana.

Fyrstu viðbrögð þeirra las ég í Morgunblaðinu í morgun og þau ollu mér miklum vonbrigðum. Þau eru mjög hefðbundin. Því er borið við með almennum orðum að ekki standi til að veita slíkar upplýsingar og enn fremur er það fullyrt að þessi mál séu heilbrigðari og betri hjá þeim en á öðrum bæjum. Þetta eru auðvitað bara fullyrðingar út í loftið meðan fram á þær er ekki sýnt með tölum.

Ég vil hvetja til þess úr þessum ræðustól að samkeppnisaðilar á bankamarkaði gangi fram fyrir skjöldu, ótilneyddir, og geri hreint fyrir sínum dyrum þannig að viðskiptamenn geti glöggvað sig á rekstri þeirra fyrirtækja.

[12:30]

Í þessu samhengi er líka rétt að minna á að Íslandsbanki er auðvitað samansettur af nokkrum öðrum bankastofnunum og til skamms tíma og allt fram á seinustu mánuði hefur ríkið verið eignaraðili þar í gegnum Fiskveiðasjóð. Ef ég man rétt var núverandi formaður bankaráðs í bankaráðinu fram undir það síðasta sem fulltrúi ríkisvaldsins, Fiskveiðasjóðs, og einmitt í því ljósi er enn eðlilegra en ella að Íslandsbanki gangi fram fyrir skjöldu.

En nóg um það. Ég geng út frá því sem vísu, virðulegi forseti, að til þess sé pólitískur vilji að vinda sér í að afgreiða málið hratt og vel inn í viðkomandi nefndir strax að lokinni þessari umræðu. Mér sýnist í fljótu bragði eðlilegt að frv. um þingsköp fari inn í allshn. og geri tillögu um það. Á hinn bóginn er vísast eðlilegast að breytingar á lögum um hlutafélög fari inn í efh.- og viðskn. og geri ég það einnig að tillögu minni. Ég geng hins vegar út frá því sem vísu að þessar tvær nefndir hafi samráð sín á milli varðandi vinnulag og verklag í nefndunum. En ég vil enn og aftur árétta að það eru engin efni til þess að það þurfi að sitja yfir þessum einföldu frv. daga og nætur svo vikum skiptir. Öll efni standa til þess að nefndir þingsins geti afgreitt þau hratt og vel inn til 2. umr. að örfáum dögum liðnum og verður fylgst grannt með því hver hinn pólitíski vilji stjórnarmeirihlutans á Alþingi er til þess að gefa Alþingi og þjóðinni allri kost á því að fylgjast með því hvað gerist bak við luktar dyr í hlutafélögum í eigu ríkisins. Það er ákveðinn mælikvarði á ummæli margra þeirra upp á síðkastið hvort hugur fylgir máli þar eða hvort verið sé að tala inn í tómið og gegn betri vitund eða hvort þeir meini eitthvað með því að upplýsingasamfélagið fái að virka eðlilega. Hér er gerð bein tillaga um það og ég vænti þess og vona svo sannarlega að menn falli ekki á því prófi.

Stjórnarandstaðan, þingmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna, þ.e. Alþfl., þingflokks jafnaðarmanna, þingflokks Alþb. og Kvennalista, eru hér meðflm. þannig að vilji stjórnarandstöðu er skýr í málinu. Nú reynir hins vegar á vilja ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl., um þessi efni, hvort nýjustu tíðindin hafi kennt þeim eitthvað í þá veru að upplýsingar verði ekki lokaðar niðri í skúffum, þeim verði ekki haldið frá þjóðinni, og hvort þeir hafi áttað sig á hinni nýju vídd og hinum miklu breytingum sem hafa átt sér stað í þá veru eða hvort þeir ætla að hamra hið gamla járn og reyna að loka þær inni í skúmaskotum og lokuðum skúffum. Því neita ég að trúa fyrr en ég tek á.