Almannatryggingar

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 13:03:48 (5503)

1998-04-15 13:03:48# 122. lþ. 104.22 fundur 470. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging öryrkja) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[13:03]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Þetta mál fjallar um að leiðrétta þá ósanngjörnu reglu að greiðslur úr Tryggingastofnun ríkisins til ellilífeyrisþega, sem hefur verið öryrki áður, lækka við það eitt að öryrkinn verði 67 ára. Til þess að leiðrétta þetta óréttlæti þarf að breyta tveim greinum í lögum um almannatryggingar, í fyrsta lagi 11. gr. þar sem þarf að breyta henni til þess að grunnlífeyrir lækki ekki eða breytist ekki við það að öryrki veri 67 ára og fær ellilífeyrisgreiðslur. Til þess að svo verði ekki, þ.e. grunnlífeyrir lækki ekki, þarf að bætast við 2. mgr. 11. gr. nýr málsliður sem hljóðar svo:

,,Þá skulu þeir sem notið hafa örorkulífeyris við 67 ára aldur halda öllum réttindum sínum, þar með talinni fjárhæð tekjutryggingar öryrkja, þegar þeir hefja töku ellilífeyris.``

Einnig þarf að breyta 17. gr. Hún fjallar um tekjutryggingu og ný málsgrein þarf að bætast við hana sem hljóðar svo:

,,Fjárhæð tekjutryggingar ellilífeyrisþega, sem fengu greiddan örorkulífeyri við 67 ára aldur, skal ekki lækka við greiðslu ellilífeyris ef tekjur hlutaðeigandi hafa ekki breyst.``

Eins og ég sagði áðan er það svo samkvæmt núgildandi lögum að greiðslur til þeirra sem hafa fengið greiddan örorkulífeyri, þ.e. hafa verið öryrkjar áður en þeir urðu ellilífeyrisþegar, hafa lækkað við það eitt að öryrkinn verður 67 ára. Þá fær hann lægri greiðslur frá Tryggingastofnun eftir að hann nær 67 ára aldri. Þetta er ákaflega sérkennilegt og margir öryrkjar furða sig á þessu og skilja ekki hvers vegna þeim er ætluð lægri framfærsla frá tryggingunum við það eitt að verða eldri. Oft er það svo með öryrkjana að ef þeir hafa verið t.d. fatlaðir batnar ekki ástandið við það að þeir eldast.

Reglurnar eru svo hvað varðar grunnlífeyrinn að skerðingarprósenta gagnvart öðrum tekjum lífeyrisþegans er önnur gagnvart ellilífeyri en örorkulífeyri, þ.e. 30% skerðingarprósenta gagnvart ellilífeyri meðan skerðingarhlutfallið er 25% gagnvart örorkulífeyri og þar ...

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hv. þm. forláts vegna þess að forseti þarf að leiðrétta mismæli sem honum urðu á þegar hann kynnti hið umrædda dagskrármál, nefndi það sem 18. dagskrármálið, fjallar að sönnu um almannatryggingar en auðvitað er hv. þm. að ræða 22. dagskrármálið sem einnig fjallar um almannatryggingar. Rétt skal vera rétt og forseti leiðréttir þetta hér með.)

Það er rétt og ég þakka forseta fyrir leiðréttinguna en ég held áfram með mína framsögu fyrir þessu frv. Ég hafði rétt lokið við að skýra þær breytingar sem verið er að leggja til á grunnlífeyri lífeyrisþega sem fer af örorkulífeyrisgreiðslum yfir á ellilífeyrigreiðslur og hvernig reglurnar eru mismunandi fyrir þá sem eru annars vegar ellilífeyrisþegar. Þar er skerðingarprósentan 30% en örorkulífeyrisþegarnir búa við 25% skerðingu á grunnlífeyri. Þessu þarf að breyta ef örorkulífeyrisþeginn á að halda óbreyttum lífeyri eftir að hann er orðinn 67 ára.

Aftur á móti er það svo að tekjutrygging öryrkja er hærri en tekjutrygging ellilífeyrisþega, þ.e. óskert tekjutrygging. Þess vegna þarf að breyta 17. gr. laga um almannatryggingar ef öryrkinn á að halda óbreyttri tekjutryggingu eftir að hann er orðinn ellilífeyrisþegi. Það er ljóst eins og ég sagði áðan að ekkert bendir til þess að framfærsla öryrkja minnki við það að hann eldist, minnki við það að hann verði 67 ára. Þess vegna er sanngirnismál að þessar leiðréttingar verði gerðar. Það eru ekki mikil útgjöld fyrir tryggingakerfið að breyta þessu. Það eru ekki margir öryrkjar sem verða lífeyrisþegar ár hvert. Ég hef athugað þetta fyrir nokkru og það eru ekki nema nokkrir lífeyrisþegar á hverju ári sem þetta gildir um og þess vegna sanngirnismál að framfærslueyrir þeirra lækki ekki við það eitt að þeir verði 67 ára.

Í greinargerð með frv. bendi ég á annað atriði sem gæti einnig haft skerðingaráhrif á lífeyri öryrkja sem verður ellilífeyrisþegi. Það er atriði sem snýr að EES-samningnum og ætla ég ekki að fara út í að skýra það mál enda er það ágætlega skýrt í greinargerðinni og ekki gert ráð fyrir að því verði breytt með þessu frv. þar sem þar er stærra mál á ferðinni sem snýr að EES-samningnum og við breytum ekki svo léttilega með frv. sem þessu. Hér er á ferðinni mikið sanngirnismál, réttarbót fyrir öryrkja sem verða ellilífeyrisþegar við 67 ára aldur og mikilvægt að þetta verði leiðrétt. Þetta kostar ekki mikla peninga og er mál sem þyrfti að kippa í liðinn og ætti ekki að taka langan tíma.

Þegar ég hef lokið framsögu fyrir málinu legg ég til að það fari til heilbr.- og trn. til umfjöllunar. Reyndar hef ég áður flutt þetta mál, nú flyt ég það með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Síðast þegar þetta mál fór til heilbr.- og trn. fékkst það ekki afgreitt út úr nefndinni en ég vonast til þess að svo fari ekki fyrir málinu að þessu sinni heldur fáist það afgreitt úr nefndinni og þessir lífeyrisþegar, öryrkjar sem margir hverjir eiga lítinn sem engan rétt í lífeyrissjóðum haldi þó a.m.k. óbreyttum lífeyri þó að þeir nái 67 ára aldri. Það er ekki nema sanngjarnt mál og það hljóta allir að sjá að ekki er boðlegt að lækka greiðslu til öryrkja við það eitt að hann verði 67 ára. Framfærsla hans minnkar ekki við það, það er frekar að hún aukist með aldrinum þannig að ég vonast til þess að hv. heilbr.- og trn. afgreiði þetta mál fljótt og vel.