Jöfnun á námskostnaði

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 13:34:37 (5505)

1998-04-15 13:34:37# 122. lþ. 104.23 fundur 645. mál: #A jöfnun á námskostnaði# frv., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[13:34]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, nr. 23/1989.

1. gr. þessa frv. til breytinga á lögunum hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Síðari málsliður 2. gr. laganna orðast svo: Réttur til styrks fellur niður ef nemandi nýtir rétt sinn til töku námsláns.``

2. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1998.``

Samkvæmt lögum sem hér er frv. um að breyta, lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, skal ríkissjóður veita námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum. Þessi námsstyrkur er í daglegu tali kallaður dreifbýlisstyrkur og getur tekið til ferða, fæðis og húsnæðis auk þess sem efnalitlir nemendur geta átt rétt til sérstakra styrkja. Ekki er um háar upphæðir að ræða en þó munar fjölskyldur sem þurfa að kaupa fæði og húsnæði fyrir unglinginn sinn um þessa peninga enda er afar kostnaðarsamt ef ungmenni þurfa að sækja nám sitt um langan veg og leigja húsnæði og kaupa fæði auk ferðakostnaðar.

Þessa réttar til dreifbýlisstyrks eiga þeir framhaldsskólanemar að njóta sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að vista sig utan lögheimilis fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins. Þó eiga framhaldsskólanemar ekki rétt á styrk ef þeir geta stundað sambærilegt nám frá lögheimili eða ef þeir eiga rétt til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna og það er einmitt vegna þessarar reglu, herra forseti, sem það mál er fram komið sem ég mæli fyrir.

Lánasjóður íslenskra námsmanna veitir lán vegna náms þar sem krafist er sambærilegrar undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis, þ.e. náms á háskólastigi, en lánasjóðurinn veitir einnig lán til svokallaðs sérnáms. Lög um framhaldsskóla taka til alls skólastarfs á því skólastigi sem tekur við af skyldunámsstiginu og allt til háskólastigs. Þessir skólar eru fjölbrautaskólar, iðn- og verkmenntaskólar og menntaskólar svo og skólar sem veita sérhæft nám á framhaldsskólastigi. Hvaða nám flokkast sem sérnám og verður þannig lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna ræðst af ákvörðunum stjórnar lánasjóðsins og er upptalning á slíku námi í fylgiskjali með auglýsingu um úthlutunarreglur lánasjóðsins. Þar eru taldar upp ýmsar námsbrautir framhaldsskólanna eða nám sem fram fer í framhaldsskólum landsins svo sem vélstjórnarnám, fiskiðn og fiskvinnsla, snyrtifræði, tækniteiknun, sjúkraliðanám, garðyrkja o.fl.

Við umræðu um fyrirspurn um dreifbýlisstyrk á þessu þingi kom líka fram að nemandi á tónlistarbraut í menntaskóla fékk ekki dreifbýlisstyrk eins og félagar úr sama landshluta því samkvæmt reglunum er tónlistarnám á 7. og 8. stigi talið lánshæft og átti þá viðkomandi nemandi, sem greinilega var kominn á þann stað í sínu tónlistarnámi, ekki lengur rétt til dreifbýlisstyrksins því hann átti samkvæmt lögunum orðið rétt á láni frá LÍN.

Réttur nemanda til námsstuðnings í formi styrks eða námslána er þannig mjög ólíkur á þessu skólastigi, því skólastigi sem rúmast innan ramma framhaldsskólalaganna. Nemendur sem stunda svokallað sérnám á þessu skólastigi eiga rétt á námsláni en geta ekki vegna þess réttar fengið dreifbýlisstyrkinn. Skiptir þá engu samkvæmt gildandi lögum hvort þeir nýta sér réttinn til lántökunnar eða ekki. Bara það að rétturinn er fyrir hendi kemur í veg fyrir að þeir geti fengið dreifbýlisstyrk. Þeir nemendur sem stunda hefðbundið bóknám á framhaldsskólastigi eða nám sem skoða má sem beinan undirbúning undir háskólanám eiga hins vegar ekki rétt á námslánum en geta eftir atvikum fengið dreifbýlisstyrk. Þannig getur það gerst að nemendur frá sama stað, á sinni brautinni hvor, í sama skóla eigi gjörólíkan rétt þó aðstæður séu að öðru leyti hinar sömu.

Full ástæða er til þess, herra forseti, að endurskoða í heild þau ákvæði sem gilda um námsstuðning, bæði um námslán og styrki, til að gætt sé samræmis og að réttlæti og tilgangur þessara jöfnunaraðgerða hins opinbera sé öllum ljós og skiljanlegur. Með þessu litla frv. er ekki verið að leggja til stórar breytingar á þessum málum en þó breytingar sem hníga í réttlætisátt. Hér er lagt til að það ákvæði laga um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði sem kveður á um að framhaldsskólanemendur eigi einungis kost á námsláni, ekki dreifbýlisstyrk, ef þeir stunda sérnám á framhaldsskólastigi samkvæmt skilgreiningu stjórnar lánasjóðsins, falli út. Þess í stað verði það val þessara nemenda hvort þeir taka námslán eða þiggja dreifbýlisstyrk eins og jafnaldrarnir, enda séu aðstæður þeirra sambærilegar hvað það varðar að um sé að ræða ungmenni, fólk sem enn á lögheimili hjá foreldrum og þarf að stunda nám fjarri fjölskyldu sinni. Vegna eðlis sérnámsins, m.a. þess að fólk er gjarnan eldra þegar það hefur slíkt nám, er eðlilegt að nemendur í slíku námi eigi rétt á námsláni þannig að það er fjarri því að verið sé að leggja til að sá réttur verði af tekinn.

Það má líka undirstrika það að með því að nemendur í slíku sérnámi sem yfirleitt er starfsnám eigi bæði þennan rétt til dreifbýlisstyrks eða láns úr lánasjóðnum ef þeir svo kjósa, þá sé beinlínis verið að ýta undir það að nemendur fari í slíkt nám en nokkuð hefur þótt á það skorta að slíkt nám þætti nógu eftirsóknarvert. Hins vegar er ljóst að hluti nemenda vill gjarnan eiga kost á dreifbýlisstyrk á framhaldsskólaárunum og geta þannig átt óskertan rétt til námsláns síðar, því að eins og kunnugt er er sá réttur takmarkaður við tiltekinn árafjölda og hafa iðnnemar t.d. ítrekað bent á það óhagræði sem hlýst af því að vera ef til vill búinn að nýta stóran hluta þess tíma þegar háskólanám er hafið og fólk kannski farið að reyna að standa á eigin fótum og stofna eigið heimili. Það fer því betur á því að snúa þessum réttindum við eins og hér er lagt til, þ.e. að allir sérnámsnemar á framhaldsskólastigi sem að öðru leyti uppfylla skilyrði eigi rétt til dreifbýlisstyrks nema þeir sem kjósa að taka námslán. Þeir eigi þann rétt áfram. Þannig verði það val framhaldsskólanema í sérnámi hvort þeir nota rétt sinn til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna þá þegar eða þiggja dreifbýlisstyrk og geti þeir átt rétt til hans vegna aðstæðna sinna og eigi þá óskertan rétt til námslána ef þeir hyggja á háskólanám síðar.

Herra forseti. Sá málsliður sem nú er í lögunum og á að hverfa, ef frv. verður að lögum, hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Eigi skulu þeir njóta styrks er eiga rétt til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna eða njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu.``

Í stað þessa, herra forseti, er lagt til að þessi málsliður orðist svo: ,,Réttur til styrks fellur niður ef nemandi nýtir rétt sinn til töku námsláns.``

Ég held að hér sé um ákveðna réttarbót að ræða fyrir þá framhaldsskólanemendur sem enn eru á framfæri foreldra sinna en stunda nám fjarri heimili og vilja geyma þann rétt sem þeir eiga eða geta átt hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna þar til þeir eru lengra komnir í námi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og meðferðar í hv. menntmn.