Almannatryggingar

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 14:00:23 (5507)

1998-04-15 14:00:23# 122. lþ. 104.18 fundur 534. mál: #A almannatryggingar# (umönnunarbætur í fæðingarorlofi) frv., Flm. ÁÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[14:00]

Flm. (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir og Lúðvík Bergvinsson. Breytingin sem hér er lögð til er um að við 2. mgr. 43. gr. laganna bætist nýr liður sem verður e-liður og orðist svo: ,,Greiðslu í fæðingarorlofi og umönnunarbætur.``

Virðulegi forseti. Með frv. þessu verður skýrt kveðið á um að heimilt verði að greiða umönnunarbætur til foreldra langveikra og fatlaðra barna samhliða greiðslum í fæðingarorlofi. Nokkur munur virðist vera á því hvernig fjmrn. og heilbrrn. túlka greiðslur til mæðra sem taka fæðingarorlof. Skv. 4. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 118/1993, er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi og/eða taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar, ef andleg og líkamleg hömlun barnsins hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og þörf á sérstakri umönnun eða gæslu.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar, nr. 117/1993, segir, með leyfi forseta:

,,Foreldrar, sem leggja niður launuð störf í fæðingarorlofi, eiga rétt á fæðingardagpeningum samkvæmt grein þessari, enda hafi þeir að jafnaði átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna og eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barnsins.``

Í c-lið 16. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Fæðingardagpeningar skulu greiddir í 6 mánuði.``

Fæðingardagpeningar greiðast úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs læknis og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku viðkomandi samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur í reglugerð.

Virðulegi forseti. Í svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn um réttindi og greiðslur í fæðingarorlofi á 122. löggjafarþingi 1997 til 1998, þskj. 311, segir m.a. um konur í þjónustu ríkisins:

,,Konur í þjónustu ríkisins sem áður féllu undir lög nr. 38/1954, eldri starfsmannalög, njóta launa í barnsburðarleyfi í samræmi við reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Við fæðingu barns eru greidd laun í sex mánuði ...

Konan heldur þeim dagvinnulaunum sem stöðu hennar fylgja á þeim tíma sem hún fer í barnsburðarleyfi ...

Þegar kona nýtur launagreiðslna í barnsburðarleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 410/1989 er litið svo á að hún sé áfram í starfi og ávinnur hún sér þar af leiðandi rétt til orlofs og annarra starfsaldurstengdra réttinda á meðan barnsburðarleyfið varir, í allt að 12 mánuði. Greitt er í lífeyrissjóð af launum í barnsburðarleyfi.

Um konur sem eru opinberir starfsmenn sveitarfélaganna segir m.a.: ,,Opinberir starfsmenn sveitarfélaganna njóta að öllu jöfnu réttinda í samræmi við reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins. Byggist það á ákvæði í kjarasamningum ...``

Um aðra starfsmenn sveitarfélaganna segir: ,,Þó virðist það almennt vera svo að starfsmenn í fæðingarorlofi ávinni sér starfsaldur í orlofinu ...``

Virðulegi forseti. Þá segir jafnframt í svari fjmrh. um starfsmenn banka t.d.:

Samkvæmt kjarasamningi á kona rétt á að vera fjarverandi í sex mánuði þegar hún fær greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins í stað launa frá bankanum, enda nýtur konan fullrar réttindaávinnslu til starfsaldurs samkvæmt bókuninni í kjarasamningunum.

Virðulegi forseti. Af þessu má sjá að fjmrn. túlkar greiðslur í fæðingarorlofi á mjög eindreginn hátt sem launagreiðslur og er litið svo á að konan sé áfram í starfi meðan á töku barnsburðarleyfis stendur. Greitt er í lífeyrissjóð af launum konunnar og hún ávinnur sér rétt til orlofs og annarra starfsaldurstengdra réttinda enda hafi konan farið úr launuðu starfi meðan á fæðingarorlofi stendur.

Í úrskurðum sínum, virðulegi forseti, hefur Tryggingaráð hins vegar túlkað greiðslur til mæðra sem bætur en skv. 43. gr. almannatryggingalaganna er ekki heimilt að greiða samtímis tvenns konar bætur. Þannig hefur framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins verið á þann veg að mæður sem eignast alvarlega sjúk eða fötluð börn verði að velja um að taka annaðhvort fæðingarorlofsgreiðslur eða umönnunarbætur þótt umönnunarbæturnar séu augljóslega grundvallaðar á allt öðrum forsendum en greiðslur í fæðingarorlofi.

Í reglugerð með heimild í lögum um almannatryggingar er gert ráð fyrir að umönnunarbætur taki við af fæðingarorlofsgreiðslum, þótt heimilt sé að greiða bæturnar á fæðingarorlofstímabilinu. Þetta hefur ráðuneytið túlkað á þann veg að ef barn fæðist alvarlega fatlað eða með lífshættulegan sjúkdóm getur móðir fengið umönnunarbætur greiddar frá þriggja mánaða aldri barnsins gegn því að hún afsali sér fæðingarorlofsgreiðslum. Með þessu er móðurinni gert að afsala sér þriggja mánaða launum. Hafa ber í huga, virðulegi forseti, að launuð vinna móður á öðrum tíma skerðir ekki réttinn til umönnunarbóta enda er verið að standa undir tilfinnanlegum útgjöldum og sérstakri gæslu eða umönnun með þessum greiðslum. Greiðslur í fæðingarorlofi eru skattskyldar en ekki umönnunarbæturnar.

Með úrskurði sínum er tryggingaráð að leggja að jöfnu greiðslur sem eru af ólíkum toga og grundvallaðar á gjörólíkum forsendum eins og þessar greiðslur í fæðingarorlofi og umönnunarbætur sýna. Verið er að skerða tekjur foreldra langveikra og fatlaðra barna með því að gera þeim að afsala sér launatekjum í fæðingarorlofi gegn greiðslum á umönnunarbótum sem eiga að standa undir umtalsverðum kostnaði sem ekki fæst bættur með öðrum hætti. Þess eru mörg dæmi, virðulegi forseti, að annað foreldri þessara barna þurfi að dvelja langdvölum fjarri heimili og margar fjölskyldur halda tvö heimili meðan á meðferð barns stendur. Það er því augljóslega mikið réttlætismál að létta undir með foreldrum sjúkra og fatlaðra barna vegna tilfinnanlegra útgjalda. Þau útgjöld fást ekki bætt nema með greiðslum á umönnunarbótum.

Virðulegi forseti. Frv. þetta er flutt til að taka af öll tvímæli um túlkun á lögum um almannatryggingar um að greiðslur á dagpeningum í fæðingarorlofi til mæðra beri að túlka sem laun eða launaígildi, enda hafi móðir lagt niður launað starf vegna fæðingar barns og að greiðslur í fæðingarorlofi upphefji ekki rétt foreldra til greiðslna á umönnunarbótum vegna alvarlega sjúkra eða fatlaðra barna.

Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið máli mínu og óska að hv. heilbr.- og trn. fjalli um þetta mál. Ég vona að það fá brautargengi héðan frá Alþingi. Hér er augljóslega um mikið réttlætismál að ræða.