Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 17:16:50 (5512)

1998-04-15 17:16:50# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[17:16]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þessi kolsvarta skýrsla er hrollvekja, skelfileg hrollvekja. Hún er hreint áfall og blaut tuska framan í þjóðina. Hin gegndarlausa spilling, græðgi og ofsalega misnotkun á fé skattborgaranna til persónulegs ávinnings og eigin hagsmuna er hræðileg. Mér blöskrar þetta og ofbýður. Stjórnendur stærsta banka þjóðarinnar hafa nú endanlega gengið fram af fólki. Hvílíkt hamstur! Hvílík misnotkun á almannafé! Hvernig er þetta hægt, herra forseti? Óútskýrð áfengiskaup hjá tveimur bankastjórum upp á 2,5 millj. kr. Óútskýrð risna upp á 4,8 millj. hjá tveimur bankastjórum. Þar af eru 800 þús. kr. endurgreiddar hjá einum bankastjóra.

Ríkisendurskoðun segir bankastjóra hafa farið utanlandsferðir með maka sem ekki verði séð að tengist með nokkrum hætti erindisrekstri þeirra. Alvarlegar athugasemdir við risnukostnað vegna utanlandsferða bankastjóra. Risnukostnaður í utanlandsferðum nam 50--140 þús. kr. Ríkisendurskoðun segir sterkar vísbendingar um að risnuútgjöld tengist í mörgum tilvikum aðeins bankastjórunum sjálfum og mökum þeirra. Samt fá þeir fulla dagpeninga, makarnir hálfa og greitt að fullu fyrir gistingu þeirra. Makarnir fylgja þeim oftast í utanlandsferðum, segir Ríkisendurskoðun. Taka þessir menn aldrei upp buddu sína?

Skýringar vantar á 19 millj. af 68 millj. í risnu eða tæplega þriðjungi. Umboðsaðilar áfengis afhentu áfengi beint í veiðihús. Slíkt er bannað með lögum. Í risnu tveggja bankastjóra eru 3 millj. kr. áfengisviðskipti við eitt veitingahús, þar af eru aðeins 440 þús. kr. skýrðar. Ganga þarf úr skugga um að lögformlega hafi verið staðið að skattskilum vegna ferðahlunninda bankastjóra, segir Ríkisendurskoðun.

Brot á hvaða lögum eru hér á ferðinni, herra forseti? Stöndum við frammi fyrir því, herra forseti, að þessi skýrsla sem hvíla mun eins og skuggi yfir þjóðinni um langan tíma, kalli á lögsókn og lögreglurannsókn? Herra forseti. Ég spyr ráðherrann um hvort það verði skoðað. Erum við á Íslandi eða í bananaþjóðfélagi þar sem valdhafar maka krókinn á kostnað fólksins? Spurningin er áleitin, herra forseti. Erum við á bekk með siðspilltum þjóðum eða þjóðum þar sem siðgæði ríkir? Er hér að koma upp á borðið ein ástæða þess að ein af ríkustu þjóðum heims getur ekki búið öllum þegnum sínum sómasamlegt viðurværi vegna bruðls og sóunar? Er þetta ástæða þess að hyldjúp gjá er að skapast og myndast milli ríkra og fátækra í íslensku samfélagi?

Reiði fólksins er að brjótast fram af meiri þunga og af meiri krafti en við höfum áður séð. Fátækt fólk sem telja þarf hverja krónu í buddu sinni til að eiga fyrir brýnustu nauðsynjum en greiðir samviskulega sín bankalán er allt í senn sárt, undrandi en þó langmest, herra forseti, ævareitt. Því svíður, herra forseti, undan græðgi toppanna sem treyst hefur verið til trúnaðarstarfa. Því svíður græðgi þeirra manna sem fá 1 millj. í mánaðarlaun eða sem svarar einum árslaunum verkafólks en virðast samt ekki geta tekið upp buddu til að greiða fyrir einkaneyslu sína, skemmtanir og hvers konar fríðindi. Fólk hefur kallað þetta þjófnað. Ég lái því það ekki, herra forseti.

Hinn venjulegi launamaður í þessu landi er hundeltur af kerfinu, skattinum og bönkunum ef hann greiðir ekki sína skatta og skuldir. Fær hann afskrifuð sín bankalán eða skattaskuldir eigi hann ekki fyrir þeim? Nei, hann er látinn bera ábyrgð og honum er refsað ef hann stendur ekki við sitt. Fólk krefst með réttu þess sama af þeim sem treyst hefur verið til trúnaðarstarfa í þjóðfélaginu og fá fyrir það himinhá laun, starfskjör og fríðindi sem fólkið, líka það sem hundelt er af kerfinu, þarf að greiða fyrir.

Herra forseti. Gömul kona hringdi í mig í gærkvöldi og sagði: Ég hef hreinlega ekki sofið vegna þessa máls. Þetta er grátlegt. Búum við virkilega í svona spilltu samfélagi? Orð þessarar konu er spegill þjóðarinnar í þessu máli. Fólk vill ekki svona þjóðfélag. Það gerir kröfu um allsherjarhreingerningu í íslensku samfélagi. Fólki gjörsamlega ofbýður, herra forseti, og eftir þessa svörtu skýrslu mun fólk verða hamslaust af bræði.

Þessi svarta skýrsla mun hvíla eins og skuggi yfir þjóðinni, herra forseti, þar til leikreglum samfélagsins hefur verið breytt og við höfum búið fólkinu þjóðfélagssiðgæði í stað siðspillingar. En, herra forseti, nægir það til að endurreisa trúnað milli bankans og fólksins að bankastjórarnir þrír skyldu segja af sér? Nei. Gallinn er sá að fjöldi fólks trúir ekki að bankaráðið hafi hreinan skjöld í málinu.

Bankaráðið segir að Ríkisendurskoðun telji þá hafa rækt hlutverk sitt sem eftirlitsaðilar fullkomlega eðlilega. Þetta er algjörlega rangt. Enga slíka yfirlýsingu er að finna í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er hlálegt að lesa greinargerð bankaráðsins sem er hreinn kattarþvottur, herra forseti. Þar reyna þeir að hvítþvo sig þegar bankaráðið segir að nokkrar fjárhæðir hjá tveimur bankastjórum hafi ekki verið skýrðar. Við erum þó að tala um margar milljónir. Betra hefði verið að ganga hreint til verks og að bankaráðið hefði einnig sagt af sér.

Greinargerð bankaráðsins þarf líka að ræða í sérstakri umræðu. Ég furða mig á því, herra forseti, að ráðherra verji bankaráðið í þessari umræðu. Bankaráðið á hafa eftirlit með rekstri bankans, þar með talið risnu og ferðalögum. Hvernig gat 200 millj. kr. risna og ferðalög á tæpum fimm árum farið fram hjá bankaráðinu sem á að hafa eftirlit með rekstri bankans? Sá bankaráðið virkilega ekkert athugavert við það að nærri 400 ferðir voru farnar til útlanda á tæpum fimm árum? Það samsvarar því að nær fjórða hvern dag allt árið um kring var einhver erlendis á vegum bankans. Sá bankaráðið ekkert athugavert við að ferðalög og risna eru að meðaltali um 40 millj. kr. á hverju ári sem samsvarar mánaðarlaunum 550 verkakvenna?

Hvernig skilgreinir ráðherra hlutverk bankaráðsins þar sem í lögum segir að bankaráðið eigi að hafa eftirlit með rekstri bankans? Hvernig skilgreinir ráðherrann það? Fellur ekki risna og ferðalög undir reksturinn, eða hvað? Var virkilega ekkert stoppað við þessar háu tölur hjá bankaráðinu? Hvað með innra eftirlit bankans? Hver ber ábyrgð á því ef innra eftirlit bankans hefur verið í molum? Ég spyr ráðherrann: Er það ekki bankaráðið? Hvað segir ráðherrann um þau ummæli Sverris Hermannssonar að bankaráðið sjálft hafi hafið og stundað þessi viðskipti við Sverri en sjálfur hafi hann verið gerður að kokki og veislustjóra?

Ég óska þess að ráðherra staðreyni þessi ummæli því þau snúa að ábyrgð bankaráðsins í þessu máli.

Ekki má gleyma því, herra forseti, sem snýr að löggjafarþingi þjóðarinnar. Greinilega vísvitandi rangar upplýsingar. Ég játa að menn blekktu, segir einn bankastjórinn. Löggjafarþing þjóðarinnar hefur verið lítilsvirt og smánað. Því hefur verið gefið langt nef. Hvernig, herra forseti, ætlar forsn. og allur þingheimur að endurheimta stöðu sína og styrk gagnvart framkvæmdarvaldinu? Við því verðum við að bregðast. Forusta hæstv. forseta er þar mikilvæg. Ég beini óskum um það til virðulegs forseta en fjölmörg mál um það liggja fyrir þinginu og verða að fá efnislega umfjöllun og afgreiðslu á Alþingi.

Svör við fyrirspurnum frá þingmönnum eru á ábyrgð ráðherra. Ráðherrann er ábyrgur gagnvart þinginu, ekki embættismennirnir. Í því efni getur ráðherrann ekki skotið sér á bak við undirmenn eða aðra. Ég spyr ráðherra: Hver er ábyrgð hans í þessu máli? Telur ráðherrann, líkt og í öðrum löndum, að ráðherra eigi sjálfur að axla ábyrgðina? Ráðherrar eru ekki bara sendlar með svör frá embættismönnum til þingsins. Þeir bera ábyrgð gagnvart þinginu.

Hreingerning er hafin í bankakerfinu. Alla bankana verður að skoða. Dótturfyrirtæki þeirra verður að skoða. Opna verður upp á gátt hjá dótturfélaginu Lýsingu og lýsa þar upp hvert skúmaskot. Taka þarf til í öllu kerfinu, breyta leikreglunum og búa hér til siðað samfélag sem fólk er stolt af að tilheyra. Verði það ekki gert mun skuggi þessarar kolsvörtu, skelfilegu hrollvekju hvíla yfir þjóðinni um langan tíma.