Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 17:37:25 (5514)

1998-04-15 17:37:25# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[17:37]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um kostnað Landsbanka Íslands af veiðiferðum og risnu er svört. Skýrslan er áfellisdómur yfir stjórnun bankans, bókhaldi hans, endurskoðun og eftirliti. Gegndarlaus sóun á almannafé hefur viðgengist vegna veiðiferða, ferðalaga og óhóflegra áfengiskaupa. Allt bendir til að lögbrot hafi verið framin í sambandi við áfengiskaup. Starfskjör bankastjóra eru ekki ljós þannig að bankaráðið hefur ekki staðfest hvort heimilt sé að bankastjórar fari í tvær einkaferðir ásamt maka til útlanda eða ekki. Bankaráðið fær mánaðarlegt yfirlit um risnukostnað og hefur ekki þótt hann óeðlilega hár. Hvaða viðmið á eiginlega að nota?

Lögbundið eftirlitshlutverk bankaráðsins er greinilega í molum. Bankaráðið bregst við því strax og segir að öllu verði eða hafi þegar verið kippt í liðinn. Yfirlýsingar bankaráðsins, sem fram koma í bréfi til viðskrh. dagsettu í dag, eru yfirklór aðila sem bera ábyrgð og eru ekki trúverðugar við núverandi aðstæður. Hvers vegna ætti að taka fyrir laxveiðar nú frekar en 1993? Hvernig getur bankaráðið tekið undir með Ríkisendurskoðun um að viðskipti með laxveiði við Bálk ehf. hafi verið óviðeigandi og sagt um leið að bankaráðið sem sat frá 1994--97, þ.e. að verulegu leyti sama fólk og nú, hefði lagst gegn slíkum viðskiptum ef það hefði vitað um þau? Hvernig kemur það heim og saman við fullyrðingu Sverris Hermannssonar um að laxveiðar á vegum bankans hafi farið fram með fullri vitneskju bankaráðsins öll árin?

Hvorki fólkið í landinu né við stjórnmálamenn látum blekkjast af svona yfirlýsingum. Ekki verður undan því vikist að menn sæti ábyrgð þannig að þetta mál verði upphaf siðvæðingar, ekki bara í Landsbankanum heldur og í íslenskri stjórnsýslu og stjórnmálum yfirleitt.

Ábyrgð viðskrh. er ótvíræð. Hann ber bæði hina formlegu ábyrgð og hann hefur ekki getað skýrt nógu vel þátttöku sína í laxveiðiferðum Landsbankans. Hvers vegna fer óbreyttur þingmaður í laxveiðiferð vegna komu erlends bankastjóra? Ég tel að hæstv. viðskrh. hafi ekki fyllilega gert grein fyrir sínum þætti þessa máls. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur ekki fram hverjir hafi farið í þessar ferðir. Þarna hefur sjálfur viðskrh. lýst því yfir að hann hafi tekið þátt í þeim án þess að skýra hvers vegna svo viðunandi sé.

Ábyrgð bankaráðsins er einnig mjög skýr þó að greinilega sé ætlunin að það sleppi með að láta bankastjórana segja upp. Tveir bankastjóranna þurfa að gera grein fyrir 2 millj. kr. risnu en þriðji bankastjórinn, Halldór Guðbjarnason, er greinilega með hreinni skjöld þó erfitt sé að líta svo á að einhver einn í bankastjórninni sé saklaus. Bankastjórnin hlýtur að vera samábyrg. Sérstaklega þarf að athuga ábyrgð fyrrv. formanns bankaráðsins, Kjartans Gunnarssonar, og hvort löglegt sé að hann sitji samtímis í bankaráðinu og stjórn VÍS. Ég hef ekki séð sannfærandi rök fyrir því þrátt fyrir fjölmiðlaumræðu. Kjartan Gunnarsson er framkvæmdastjóri Sjálfstfl. Ég tel að það yrði mjög varhugavert ef hann kæmist hjá því að sæta ábyrgð í þessu máli.

Herra forseti. Margir hafa undanfarna daga spurt hvort það sé ekki gott að vera kona í stjórnmálum í dag og horfa á þetta musteri karlveldisins molna innan frá. Í hugum þessa fólks eru höfuðstöðvar Landsbanka Íslands orðið tákn gamla karlveldisins sem er að hrynja. Þrír karltoppar eru látnir fjúka. Annar karl er umsvifalaust ráðinn í staðinn. Nokkrum öðrum er skákað til, til bráðabirgða að vísu. Hér er enn eitt dæmið um það hvar jafnréttismálin eru í forgangsröðinni hjá þessari ríkisstjórn. Ekki virðist hafa hvarflað að viðskrh. eða bankaráðinu að nota þetta tækifæri til að ráða fyrsta kvenbankastjóra landsins.

Kvennalistinn átti fulltrúa í bankaráði Landsbankans árið 1990--1993. Þá tíðkaðist það að bankaráðið færi í árlegar laxveiðiferðir sem okkar fulltrúi tók þátt í en lagði margoft til, fyrst ein og síðan með Önnu Margréti Guðmundsdóttur, að laxveiðiferðum á kostnað bankans yrði hætt. Það er athyglisvert að skoða örlög þeirrar tillögu sem mörg hundruð starfsmanna Landsbankans úti um allt land höfðu bankaráðið til að samþykkja með undirskriftum sínum.

Af fimm fulltrúum í þáverandi bankaráði eru fjórir eftirlifandi. Þar af hafa þrír staðfest að tillagan hafi verið samþykkt, þ.e. Kristín, Anna Margrét og Steingrímur Hermannsson. Það er mjög athyglisvert hvernig Kjartan Gunnarsson, þáverandi formaður bankaráðsins, og Sverrir Hermannsson hafa verið tvísaga um þessa tillögu. Fyrir skömmu var haft eftir Kjartani í blöðum að tillagan hafi aldrei verið samþykkt en verið vísað með góðum tilmælum til bankastjórnar. Í dag segir sami Kjartan í bréfi bankaráðsins til viðskrh. að bankaráðið hafi samþykkt árið 1993 að hætta sjálft þátttöku í veiðiferðum bankans.

Í frétt Morgunblaðsins frá 14. sept. 1993 er sagt frá fundi landsbankamanna á Selfossi. Þar var verið að réttlæta uppsagnir á annað hundrað starfsmanna og um sama leyti var t.d. árlegt matarboð starfsfólks Landsbankans með mökum í mötuneyti bankans lagt af í sparnaðarskyni. Í greininni stendur orðrétt, með leyfi forseta:

,,Sverrir Hermannsson bankastjóri sagði að ekki yrði um neinar laxveiðar bankastjóra né bankaráðsmanna á kostnað bankans. Það væri einn liðurinn í sparnaði bankans. Sóun er of viðtekin venja í þessu þjóðfélagi, sagði Sverrir og að tími væri kominn til að henni linnti.``

[17:45]

En hvað segir bankastjórinn fyrrverandi um þetta mál í Morgunblaðinu í dag? Orðrétt svarar hann spurningu um hvort því hafi ekki verið beint til bankastjórnar að hætta laxveiðum á vegum bankans 1993. Svar Sverris er á þessa leið:

,,Þetta er rangt. Hið rétta er að hún Kristín litla Sigurðardóttir hóf þessa umræðu í bankaráði og kom með þessa hugmynd úr prjónaklúbbi Kvennalistans. Það var hins vegar engin samþykkt gerð í þessa veru og engu beint til bankastjórnar. Laxveiðar á vegum Landsbankans fóru því fram með fullri vitneskju bankaráðsins öll árin og engar athugasemdir gerðar við þær.``

Svo mörg voru þau orð. Þetta svar sýnir ekki eingöngu hvernig viðkomandi hagræðir sannleikanum og e.t.v. minni sínu eftir hentugleikum heldur sýnir þetta viðhorf Sverris Hermannssonar til fyrrv. bankaráðskonu Landsbankans, viðhorf hans til tillögu lögskipaðra bankaráðskvenna. Sjaldan heyrist nú til dags jafn hreinræktuð kvenfyrirlitning.

Við kvennalistakonur hvetjum alla prjónaklúbba landsins til virkni í starfi því kannski eru það einmitt þeir sem eru þess megnugir að verða litlar þúfur sem velta þungu hlassi. Eftir svona yfirlýsingar verða höfuðstöðvar Landsbankans fyrir mér ímynd kvenfyrirlitningar og spilltra stjórnarhátta. Ég vona að tilvist Landsbankans úti um allt land verði áminning um að herða þurfi baráttuna fyrir kvenfrelsi og jafnrétti auk þess að ráðast á spillingu í stjórnsýslunni. Það eru toppar Landsbankans sem eru spilltir og starfsfólkið líður fyrir það.

Ég vil að lokum, herra forseti, óska nýjum bankastjóra góðs gengis í starfi með von um að honum takist að breyta ímynd bankans frá því að vera ímynd siðspillingar og sóunar en verði í raun banki allra landsmanna þar sem jöfn virðing er borin fyrir konum og körlum. Hvort það er tilviljun eða ekki að hinn nýráðni bankastjóri er sjálfstæðismaður skal ósagt látið. Hitt skiptir mig meiru að kynni mín af störfum Halldórs J. Kristjánssonar eru þannig að ég hef fulla ástæðu til að treysta honum til að reisa Landsbankann og ímynd hans við þó ekki sé ljóst að ráðning hans sé framfaraspor fyrir jafnrétti kynjanna.