Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 17:47:21 (5515)

1998-04-15 17:47:21# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[17:47]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Segja má að kaflaskipti hafi orðið í stjórnsýslu Íslendinga. Jafnvel er talað um siðvæðingu stjórnsýslunnar. Það sem áður kann að hafa verið látið afskiptalítið sem einhvers konar forréttindi háttsettra aðila í samfélaginu á hreinlega ekki við í dag. Aðgerðir síðustu vikna bera þess merki. Háttsettir embættismenn hafa verið látnir sæta ábyrgð á gerðum sínum. Það eitt sætir í sjálfu sér tíðindum. Kaflaskilin eru þannig tákn nýrra tíma.

Komið hefur í ljós hversu mikilvægu hlutverki Ríkisendurskoðun sem sjálfstæður og hlutlaus aðili gegnir fyrir það sem kalla má þriflega stjórnsýslu. Það er hins vegar jafnmikilvægt fyrir Alþingi og ríkisstjórn að bregðast við á réttan hátt. Brýnt er að vöndur siðvæðingarinnar lendi þar sem honum er ætlað en verði ekki beitt gegn saklausum.

Herra forseti. Fróðlegt er að lesa í skýrslu Ríkisendurskoðunar athugasemdir um embættisstörf Halldórs Guðbjarnasonar. Þar kemur skýrt fram að engar athugasemdir eru gerðar við störf Halldórs, engar. Þetta er athyglisvert ekki síst í ljósi þess að Halldór er sá bankastjóranna sem á frumkvæði að því að segja starfi sínu upp, eða eins og segir í yfirlýsingu hans, með leyfi hæstv. forseta: ,,Til að skapa yfirvöldum það svigrúm sem nauðsynlegt er til að endurskipuleggja bankann og endurreisa traust almennings á honum þannig að eigendur bankans og starfsfólk þurfi ekki að líða fyrir þá neikvæðu umræðu sem orðið hefur um bankann.``

Ég tel afskaplega mikilvægt fyrir þingið og framkvæmdarvaldið að rétt sé staðið að verki við tiltektir í stjórnsýslu. Þeir sem bera ábyrgð eiga að svara fyrir þá ábyrgð. Þeir sem bregðast þeirri ábyrgð eiga að gjalda þess en ég tel það jafnmikilvægt fyrir þing og önnur stjórnvöld að gæta ekki síður hagsmuna þeirra sem hafa hreinan skjöld. Svo virðist ekki vera í tilviki Halldórs Guðbjarnasonar. Segja má að skipulagsleysi í yfirstjórn bankans hafi beinlínis hrakið hann úr starfi. Það getur aldrei hafa verið tilgangurinn. Ég tel að yfirvöld beri siðferðilega ábyrgð á að refsivöndur siðvæðingar hafi hrakið Halldór Guðbjarnason úr starfi.

Réttlætinu á að fylgja. Þeir sem gerast brotlegir í starfi eiga að víkja. Með sama hætti ber okkur skylda til að verja rétt þeirra sem sannarlega hafa hreinan skjöld. Að öðrum kosti er umræðan öll óábyrg.