Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 17:57:50 (5518)

1998-04-15 17:57:50# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), PHB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[17:57]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það er vandi að fara með fé, sérstaklega annarra manna fé, og alveg sérstaklega opinbert fé sem ég kalla fé án hirðis. Það er alveg sérstaklega mikill vandi að fara með mikið fé. Það fólk sem lendir í þeirri stöðu, aðallega karlmenn, mega gæta sín að halda mjög greinilega aðskildum einkafjárhag og fjárhag viðkomandi fyrirtækis.

Fólk á að fá nákvæmlega skilgreind laun fyrir störf sín. Fólk í slíkri stöðu þarf daglega að spyrja sig: Er ég að gera rétt? Fyrir utan það að miklum peningum fylgja mikil völd og völd geta skapað örlög annars fólks, valdið atvinnuleysi eða ráðningum o.s.frv.

Herra forseti. Það er greinilegt að myndast hefur gjá á milli fólksins í landinu og ráðamanna. Fólk sem er í basli með að láta mánaðarlaunin endast og snýr þúsundkallinum á milli fingranna, því ofbýður þegar ráðamenn bjóða sjálfum sér í veiðiferðir sem kosta mánaðarlaun hver dagurinn. Við hv. þingmenn megum ekki gleyma því fólki sem hefur kosið okkur. Við ráðstöfum meiri peningum en flestir aðrir og við þurfum að spyrja okkur daglega: Förum við vel með þá peninga? Förum við vel með skattana sem fólkið er að borga og eru skattarnir bærilegir?

Herra forseti. Það mál sem við ræðum nú, skýrsla Ríkisendurskoðunar um kostnað við veiðiferðir bankastjóra Landsbanka Íslands, truflar á margan hátt og særir réttlætiskennd fólks. Í fyrsta lagi er röng upplýsingagjöf til Alþingis ein og sér mjög alvarleg. Í öðru lagi eru viðskipti eins bankastjórans við nátengdan aðila sem lýsir óafsakanlegu dómgreindarleysi. Svo er það mikill kostnaður sem kemur bankarekstri ekkert við.

Í skýrslunni er ekki fjallað um, og átti ekki að fjalla um, önnur atriði miklu stærri sem varða útlánatöp bankans, rekstur bankans og þess að bankastjórarnir sitja í stjórnum dótturfyrirtækja í vinnutímanum og taka fyrir það sérstök laun.

Herra forseti. Sú lausn sem fengist hefur gefur von um að tekist hafi að leysa þau brýnu siðferðilegu vandamál sem Landsbankinn hefur glímt við. Þetta er mikil breyting og kannski meiri en við sjáum fyrir. Í fyrsta skipti hafa bankastjórar hætt störfum vegna ábyrgðar og verið er að gera miklu meiri kröfur til stjórnunar og það er mjög jákvætt að nýi bankastjórinn er ráðinn ópólitískt. Vonandi verður þetta mál til þess að það fólk sem er í valdastólum, bæði í ríkisfyrirtækjum sem og í ráðuneytum, spyrji sig daglega hvort það sé að gera rétt.