Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:04:06 (5520)

1998-04-15 18:04:06# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þinginu og þjóðinni er núna mikilvægast að friður og traust fái að ríkja um Landsbankann á ný, jafnt inn á við sem út á við. Landsbankinn er ein mikilvægasta fjármálastofnun landsins og orðspor okkar út á við og inn á við krefst þess að skapað sé traust og friður um bankann. Bankastjórar Landsbankans hafa sagt af sér, fyrst aðalbankastjórinn, m.a. af heilsufarsástæðum, og síðan hinir tveir bankastjórarnir í kjölfarið. Þar með hafa orðið kaflaskil í málinu og viðbrögð bankastjóranna eru óvenjuleg við aðstæður eins og þessar. Ekki er deilt um það í þinginu að þessar afsagnir voru eins og mál voru komin algerlega nauðsynleg forsenda þess að skapa mætti traust og frið um bankann á nýjan leik.

Ég tel að hæstv. viðskrh. og reyndar ríkisstjórnin hafi sýnt algerlega fumlaus viðbrögð í þessu erfiða máli og tryggt að enginn dagur liði eftir að mál höfðu skipast eins og við þekkjum án þess að bankanum væri tryggð skipuleg, traustvekjandi stjórn. Það hefur hæstv. viðskrh. gert fumlaust og það mun hafa mesta þýðingu fyrir framtíð bankans að mínu mati.

Við þingmenn hljótum hins vegar að vera dálítið hugsandi yfir því hvar sem við erum staðsett í stjórn eða stjórnarandstöðu eða í verkum okkar gagnvart þinginu að jafnmiklar upplýsingar og jafnháar tölur skuli geta farið fram hjá öllum eftirlitsaðilum bankans um jafnlanga hríð vegna þess að í því tilfelli sem er um að ræða er því ekki haldið fram að forráðamenn bankans hafi í neinu reynt að leyna gjörðum sínum eins og stundum gerist þegar mál af þessu tagi koma upp. Því er hvergi haldið fram að forráðamenn bankans hafi reynt að leyna gjörðum sínum. Athafnir þeirra sem gerðar eru athugasemdir við hafa legið ljósar fyrir í gögnum bankans. Hér er um stórar tölur að ræða. Við hljótum að vera undrandi yfir því að þessar tölur hafi svo lengi, ekki bara þau ár sem eru nú sérstaklega skoðuð, heldur mörg ár þar á undan því talað er um að þetta hafi viðgengist um mjög langa hríð, að þetta skuli allt saman hafa farið fram hjá mönnum. Við sem störfum í ráðuneytunum erum sérstaklega undrandi vegna þess að eftirlitskerfið með ráðuneytunum er þannig að það er farið yfir og gerð athugasemd við smæstu atriði, atriði sem okkur finnst stundum næstum því hjákátlega smá gagnvart ráðuneytunum en atriði sem eru jafnumfangsmikil virðast fara fram hjá öllum aðilum.

Því var áðan haldið fram áðan að hæstv. viðskrh. væri að reyna að hvítþvo bankaráðið. Hæstv. viðskrh. hefur ekki gert neina tilraun í þá átt. Við byggjum umræðuna í þessum sal á þessari stundu á upplýsingum Ríkisendurskoðunar og við höfum tekið þá afstöðu að byggja á þeim upplýsingum, trúa þeim upplýsingum og trúa því mati og við eigum engan annan kost. Það er mat Ríkisendurskoðunar, sem má lesa úr skýrslum hennar, að bankaráðið hafi ekki brugðist í neinu.

Í greinargerð bankaráðsins er vísað sérstaklega til orða í lok skýrslu bankaráðsins og á fundi með bankaráðinu lýsti ríkisendurskoðandi því yfir að þessi orð bæri að túlka með þeim hætti sem bankaráðið gerir hér. Bankaráðið spurði síðan ríkisendurskoðanda sérstaklega um það hvort það orðalag sem væri notað væri fullnægjandi að hans mati og hann undirstrikaði það. Við eigum engan annan kost en að taka alla skýrsluna gilda, ekki velja úr það sem okkur líkar eða hitt sem okkur líkar ekki. Við eigum engan slíkan kost.

Í annan stað kemur fram í greinargerðinni að bankaráðið spurðist sérstaklega fyrir um það hvort verið gæti að upplýsingum væri haldið frá bankaráðinu þannig að það gæti ekki tekið afstöðu til viðkvæmra og erfiðra mála. Ríkisendurskoðun fór yfir málið og það var mat Ríkisendurskoðunar á þeim tíma að bankaráðið fengi allar þær upplýsingar sem það þyrfti til að byggja á eftirlit sitt með starfsemi bankans. Við verðum fyrir okkar leyti að byggja á þessu. Við eigum engan annan kost en að byggja á þessu ella erum við að tala með ótraustvekjandi og ótrúverðugum hætti. Það er ekki traustvekjandi gagnvart almenningi ef við veljum okkur umræðuefnin og kjósum að taka mark á Ríkisendurskoðun þegar það hentar en henda jafnframt áliti Ríkisendurskoðunar á burt þegar það hentar ekki.

Meginmálið er að bankanum, stærsta banka þjóðarinnar, hefur verið komið á ról á nýjan leik og full ástæða er til að ætla að bankinn muni fljótt og vel ávinna sér traust á ný. Það hlýtur að vera það sem vakir fyrir okkur að verði tryggt. Hér geta menn haft uppi stór orð um einstaklinga sem eru ekki hér til að verja sig og við vitum að viðurkennt er að þeim hefur orðið á í messunni. Þeir hafa heldur betur viðurkennt það með því að segja störfum sínum lausum, virðulegum, þýðingarmiklum störfum, og þar með tekið á sig fulla ábyrgð eins og hér var krafist á sínum tíma og jafnframt gefið bankanum tóm, þeir hafa allir tekið það fram, tóm og tækifæri til að byggja upp traust sitt á nýjan leik. Ég endurtek að ég tel að hæstv. viðskrh. hafi staðið fumlaust að þessu máli og það sé honum til hróss fremur en til hins gagnstæða.