Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:21:07 (5524)

1998-04-15 18:21:07# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), LB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:21]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hér ræðum við mjög alvarlegt mál eins og fram hefur komið í þeirri umræðu sem fram hefur farið. En það sem vakti sérstaka eftirtekt mína voru orð hæstv. forsrh. áðan. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur ekkert gert í þessu máli. Þeir einstaklingar sem bornir voru sökum hafa sagt af sér og ríkisstjórnin í kjölfarið ráðið einn bankastjóra. Það er það eina sem ríkisstjórnin hefur gert í þessu máli. Það eru í raun og veru öll hin fumlausu viðbrögð sem hæstv. forsrh. talaði um áðan, þ.e. að ráða einn mann í staðinn, það er allt og sumt. Ríkisstjórnin hefur því í sjálfu sér ekki gert neitt annað.

Ég vil líka vekja athygli á því tímabili sem Ríkisendurskoðun fór yfir, en þá höfðu ráðherra og bankaráð yfirumsjón, allan þann tíma, með rekstri og almennu eftirliti bankans. Því er eðlilegt að menn spyrji sem svo: Hvernig er þessu eftirliti háttað? Lýtur eftirlitið einungis að þeim upplýsingum sem bakaráðið fær? Hvílir engin skylda á bankaráðinu um að afla sér upplýsinga sjálfstætt? Þetta hljóta að vera grundvallarspurningar því að ef svo er ekki, ef bankaráðið ber einungis ábyrgð á þeim upplýsingum sem það fær en ekki þeim sem það aflar sér ekki, þá er spurning af hverju við erum með bankaráð og hver beri almennt ábyrgð á þessum þáttum málsins.

Hæstv. forsrh. sagði áðan að Ríkisendurskoðun hafi hvítþvegið bankaráðið. Hann orðaði það þannig. Þess er hvergi að finna stoð í þeirri skýrslu sem lögð var fyrir þingið að Ríkisendurskoðun hefði á einhverjum stað hvítþvegið bankaráðið. Það er ekki í þeirri skýrslu sem er lögð fyrir okkur. Ef það er í einhverri skýrslu þá er hún annars staðar en hér á þinginu þannig að menn verða að halda þessu til haga.

En það breytir því ekki, virðulegi forseti, að þáttur Alþingis er líka nokkuð stór í þessum efnum því aldrei hafa verið gerðar neinar sérstakar hæfiskröfur til þeirra sem starfa í bankaráði. Það hafa aldrei verið gerðar neinar sérstakar hæfiskröfur. Kannski er það svo og kannski eru allir flokkarnir undir þá sök seldir að tilnefningar í bankaráð hafi að miklu leyti verið pólitískir bitlingar og við höfum gert litlar kröfur til þeirra sem sitja í bankaráði þannig að það er kannski dálítið erfitt við þessar aðstæður að ætlast til þess að þeir sem við gerum litlar kröfur til þegar skipað er í bankaráðin skuli sinna jafnmikilvægu hlutverki og að veita heilli bankastofnun eftirlit. Því held ég að í kjölfar þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram sé nauðsynlegt að stjórnarformaður eða formaður bankaráðs í bönkunum eigi sæti í bankanum sjálfum en sé ekki í þessu í hlutastarfi (Forseti hringir.) því að meðan svo er þá er ekki mjög erfitt að gera ríka kröfu til bankaráðsins.