Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:29:13 (5527)

1998-04-15 18:29:13# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:29]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að fá það fram hvort hæstv. viðskrh. telji málinu lokið af sinni hálfu á Alþingi með þessari skýrslugjöf. Ég tel nefnilega að málinu sé alls ekki lokið. Líkt og síðasti ræðumaður sé ég hvergi í skýrslu Ríkisendurskoðunar þá syndakvittun sem hæstv. forsrh. sagði að bankaráðið hefði fengið.

Við þurfum að ræða greinargerð bankaráðsins vegna þess að mörgum spurningum er enn ósvarað um hlut og eftirlitsskyldu bankaráðsins.

[18:30]

Við þurfum líka, herra forseti, að óska eftir því að hæstv. viðskrh. gefi Alþingi skýrslu um hvort krafist verði endurgreiðslu á oftekinni risnu. Líka hvernig farið verður með þann misbrest sem virðist vera í skattalegri meðferð. Ríkisendurskoðun segir að eðlilegt sé að skattframtal verði leiðrétt ef frádráttarbær kostnaður vegna risnu sé oftalinn í framtölum. Þess vegna þurfum við að fá skýrslu um þetta tvennt ásamt umræðu um greinargerð bankaeftirlitsins.

Við eigum líka eftir að fá svör frá Ríkisendurskoðun varðandi fyrirspurnir sem ég hef lagt fram. Ríkisendurskoðun svarar bara einni fyrirspurninni og viðurkennir meira að segja að það svar sé ófullkomið vegna þess að sagt er --- og það snertir risnuna og ferðalögin, að Ríkisendurskoðun kannaði þó ekki sérstaklega nánari sundurliðun í heildarkostnaði einstakra gjalda. Og fyrirspurn mín var frá árinu 1993 en ekki 1994 eins og Ríkisendurskoðun tilgreinir.

Einnig er ósvarað fyrirspurnum frá mér sem beint var til Ríkisendurskoðunar að staðreyna, um starfskjör og lífeyrisréttindi bankastjóra og aðstoðarbankastjóra og einnig varðandi stjórnargreiðslur, lífeyrisgreiðslur og ferða- og bílahlunnindi stjórnenda frá þessum tíma. Þessu er öllu ósvarað.

Einnig segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að heildstæð athugun á ferðakostnaði hafi ekki farið fram vegna tímaskorts hjá Ríkisendurskoðun. Og ég minni á að við þurfum einnig að fá skýrslu um það til þingsins. Þegar sú niðurstaða Ríkisendurskoðunar liggur fyrir, þá þarf einnig að ræða hana. Ég spyr ráðherrann: Mun hæstv. ráðherra gefa Alþingi skýrslu um þau atriði sem ég nefndi sem enn er ósvarað og niðurstaða ekki fengin í? Það er mjög mikilvægt að fá það fram, herra forseti, við lok þessarar umræðu hvort ráðherrann telji virkilega að málinu sé lokið af hans hálfu, vegna þess að það er það ekki. Í mínum huga hefur ráðherrann alls ekki skýrt nægjanlega fyrir þinginu ábyrgð sína í þessu máli.

Ég minni einnig á það í lokin, herra forseti, að við höfum ekki rætt þann þátt sem snýr að þinginu og framkvæmdarvaldinu og hvernig forsrn. og þingheimur allur ætlar að bregðast við til að styrkja stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.