Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:32:35 (5528)

1998-04-15 18:32:35# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), BH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:32]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. fór áðan í ræðu sinni yfir efni skýrslu Ríkisendurskoðunar og sagði sem svo að menn gætu ekki valið úr henni það sem þeir vildu og hvað ekki. Annaðhvort taka menn Ríkisendurskoðun trúanlega eða ekki.

Ég get ekki annað en bent á það í tengslum við þessi ummæli hæstv. forsrh. að hingað til hafa það helst verið hæstv. ráðherrar sem hafa viljað velja úr hvenær skýrslur Ríkisendurskoðunar eru réttar og hvenær ekki og man ég ekki betur en að ríkisendurskoðandi og stofnunin hafi setið undir stöðugri gagnrýni vegna nýlegrar skýrslu frá embættinu. Þurfti ríkisendurskoðandi að svara fyrir sig símleiðis frá útlöndum trekk í trekk. Það er einna helst úr herbúðum hæstv. ráðherra sem gagnrýni á störf þessarar þörfu stofnunar hafa komið fram og það er rétt að halda því til haga hér.

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu á sér margar hliðar sem enn er eftir að skoða og sem verðugt væri að skoða. Ég vil benda á eitt atriði til íhugunar. Í greinargerð bankaráðs í kaflanum um laxveiðar segir að farnar hafi verið ferðir með öðrum bönkum og má þá draga þá ályktun að þar hafi menn verið að ræða viðskipti því annars er óheimilt að stofna til kostnaðar sem bankinn greiðir, þ.e. tilefnið verður að þjóna hagsmunum bankans. En ef menn voru að ræða viðskipti í þessum ferðum, væntanlega með öðrum bankastjórum, getur þá verið og er það ekki beinlínis líklegt að slíkar ferðir hafi stangast á við samkeppnislög? Er það eðlilegt að verið sé að greiða niður slíkar ferðir, að bankinn standi fyrir því að menn séu að ræða saman um viðskipti, menn sem eru í forsvari fyrir stofnanir sem eru í samkeppni?

Það er margt sem enn á eftir að skoða í tengslum við þetta mál, enda er alveg ljóst að þetta milljónatugabruðl sem hér hefur komið í ljós verður ekki afgreitt með 15 síðna skýrslu Ríkisendurskoðunar og uppsögn þriggja bankastjóra. Málið er einfaldlega stærra en svo, herra forseti.