Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:34:53 (5529)

1998-04-15 18:34:53# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:34]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið góð en allt of stutt fyrir þá sem aðeins hafa fengið heilar þrjár mínútur til umráða. Eftir situr í mínum huga að ég er ekki sannfærð um að nógu mikið breytist til batnaðar við það að skipt er um bankastjóra. Það að stjórnmálaflokkarnir hafa skipað bankaráðin hefur leitt af sér þá vafasömu hefð að þau starfa á ábyrgð Alþingis og hvorki bankaráðsmenn né hæstv. bankamálaráðherra hafa sætt þeirri ábyrgð sem annars væri eðlileg. Þetta sýnir að mínu mati vel að skynsamlegra er að ráðherrar skipi stjórnir ríkisstofnana eins og nú er að verða algengara og í samræmi við nútímastjórnarhætti.

Núverandi bankaráð Landsbankans er kosið af viðskrh. sem fer með öll hlutabréfin í Landsbankanum hf. Hæstv. viðskrh. kaus hins vegar að gera litlar breytingar á bankaráðinu frá því sem áður var og þar sitja nú flokkspólitískir fulltrúar sem eru vanir því að flokkar þeirra taki á sig ábyrgðina. Er ekki orðið tímabært, herra forseti, að bankaráðin verði kjörin á faglegum forsendum og að þau og viðskrh. taki á sig þá ábyrgð sem þeim ber? Þó að þessu máli sé augljóslega ekki lokið þar sem nauðsynlegt er að rannsaka fyrirsjáanleg lagabrot, þá er mjög umhugsunarvert hvort hæstv. viðskrh. og bankaráðið ætli að láta viðkomandi stjórnmálaflokka sitja uppi með ábyrgðina. Er það betri kostur að mati hæstv. viðskrh.?