Skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands

Miðvikudaginn 15. apríl 1998, kl. 18:36:53 (5530)

1998-04-15 18:36:53# 122. lþ. 104.11 fundur 304#B skýrsla viðskiptaráðherra um málefni Landsbanka Íslands# (munnl. skýrsla), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 122. lþ.

[18:36]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég hef fullan skilning á að þetta mál liggi þungt á hv. þingmönnum. Það liggur þungt á þjóðinni allri, því miður, og þetta er ekki bara áfall fyrir Landsbankann sem þarna kemur upp. Þetta er áfall fyrir alla þjóðina því að þjóðin er eigandi þessa banka.

Ég held hins vegar að þau mál sem núna liggja fyrir í skýrslum á þinginu og liggja alveg ljós fyrir verði ekki leyst til hagsbóta hvorki fyrir Landsbankann sem fyrirtæki né fyrir þjóðina með gífuryrðum og stóryrðum eins og hér hafa verið höfð frammi í umræðunni, því miður.

Varðandi lögsókn og lögreglurannsókn kemur það skýrt fram í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir frá bankaráði Landsbankans, að bankaráðið hefur ráðið sér lögfræðing, Jón Steinar Gunnlaugsson, til að gæta réttarstöðu bankans í málinu og það er bankaráðsins að taka ákvarðanir um framhald þess máls.

Það tímabil sem hérna er til umfjöllunar er tímabilið 1994--1997. Á þeim tíma var Landsbanki Íslands ríkisviðskiptabanki. Það var Alþingi sem kaus bankaráð bankans hlutfallskosningu á Alþingi og fulltrúar þeirra flokka sem höfðu þann styrk á þinginu og buðu fram í þeirri kosningu fengu sína fulltrúa kjörna í bankaráðið. Alþingi bar ábyrgð á því bankaráði og þeir fulltrúar sem þar sátu báru ábyrgð gagnvart Alþingi. Það er líka hins vegar alveg ljóst að viðskrh. á hverjum tíma er eftir sem áður yfirmaður bankamála í landinu. (Gripið fram í: Og ber ábyrgð.) Og ber ábyrgð. Hans ábyrgð er skilgreind í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og ég bið hv. þingmenn um að kynna sér hvað stendur um ábyrgð viðskrh. í þeim efnum.

Það sem núna hefur hins vegar gerst frá seinustu áramótum er að breyting hefur orðið á rekstrarformi ríkisviðskiptabankans. Honum hefur verið breytt í hlutafélag. Viðskrh. fer með þá ábyrgð að vera eini hluthafinn í Landsbanka Íslands hf. og kýs bankaráð á aðalfundi. Það bankaráð ber ábyrgð gagnvart viðskrh. og viðskrh. ber ábyrgð á því bankaráði. Rannsókn þessa máls snýr ekkert að því bankaráði sem núna er starfandi og breytir engu um það þó að sömu aðilar að stofni til sitji í bankaráðinu sem einstaklingar vegna þess að ábyrgðin er annars vegar gagnvart viðskrh. og hins vegar gagnvart Alþingi og á því er munur. Ég vona að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því. Það sem hins vegar hefur gerst núna... (Gripið fram í: Voru ekki bankastjórarnir endurráðnir líka?) Jú, hv. þm., bankastjórarnir voru ráðnir af bankaráði Landsbanka Íslands hf. Bankaráð Landsbanka Íslands hf. hefur líka fallist á lausnarbeiðni þeirra bankastjóra sem nú hafa beðist lausnar. Þetta er hinn lögformlegi gangur málsins og mér þykir það skrýtið ef þetta er hv. þm. ekki alveg skýrt. (Gripið fram í: ... voru líka í bankaráðinu?) Jú, brotið tekur til þess tíma þegar Alþingi kaus bankaráðið og það er það sem ég er að reyna að skýra út fyrir hv. þingmönnum. (Gripið fram í.) Breytingin sem núna hefur hins vegar átt sér stað er ... (Gripið fram í: Er þá bankaráðið ábyrgðarlaust?)

(Forseti (StB): Forseti biður hv. þingmenn að gefa hljóð.)

Breytingin sem núna hefur átt sér stað er sú að ráðningarsamningur eftir að hlutafélagaformið kom til --- og þetta segir okkur kannski ekki neitt annað en það að ríkisviðskiptabankaformið var úrelt og er úrelt og það hefur orðið breyting með hlutafélagaforminu. (Gripið fram í: Yfirstjórn ...) Ráðningarsamningar hafa núna verið gerðir við alla bankastjórana. Reglur hafa verið settar um risnukostnað, reglur hafa verið settar um ferðakostnað sem ekki voru áður til. Þetta er breyting. Bankaráðið núna hefur lýst því yfir að ný vinnubrögð verði viðhöfð. Það verður hætt að veiða lax. Kostnaðareftirlit í bankanum verður aukið. (ÖJ: Hvers konar rugl er þetta?) Hv. þm. Ögmundur Jónasson ætti að lesa yfirlýsingu bankaráðsins áður en hann hefur þau stóryrði uppi sem hann fer hér með vegna þess að það kemur fram, hv. þm., í þeirri yfirlýsingu sem liggur fyrir hjá bankaráðinu. (ÖJ: Ráðherrann ruglar.) Aðalbankastjóri bankans hefur lýst því yfir að ekki verði lagt í neinn kostnað nema sem skilar bankanum raunverulegum tekjum. Ríkisendurskoðun fer núna með endurskoðun bankans en velur til þess fulltrúa. Það er ekki viðskrh. sem gerir það. (Forseti hringir.)

Aðalatriðið er þetta, og ef hv. þingmenn bera hag Landsbankans fyrir brjósti eins og mér virðist að hv. þingmenn hafi viljað gera við þessa umræðu, þá mun það ekki þjóna hagsmunum Landsbankans sem banka (Forseti hringir.) og þar af leiðandi ekki hagsmunum þjóðarinnar til lengri tíma litið að halda þessari umræðu áfram (Gripið fram í.) vegna þess að það liggja allar upplýsingar fyrir í þessu máli. Í þeim skýrslum (Gripið fram í.) sem hérna liggja fyrir í þinginu núna liggja allar upplýsingar fyrir. (Forseti hringir.) Umræðu í þinginu á að vera lokið ... (Gripið fram í.) vegna þess að framhald málsins ... (Gripið fram í.) Hv. þingmenn, framhald málsins hlýtur að ráðast af því hvernig bankaráðið tekur á þeim sem brotið hafa af sér. (Gripið fram í: Við treystum ekki á það. Er verið að banna umræðu á Alþingi?)