Hlutafélög

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 10:32:33 (5532)

1998-04-16 10:32:33# 122. lþ. 105.1 fundur 634. mál: #A hlutafélög# frv., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[10:32]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um atvinnulýðræði. Auk mín flytja frv. 14 aðrir þingmenn úr þingflokki jafnaðarmanna og Alþb., hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Ragnar Arnalds, Sighvatur Björgvinsson, Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson auk átta annarra þingmanna úr þingflokki jafnaðarmanna. Flutningsmenn eru því meðal annarra þingflokksformennirnir hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir og Svavar Gestsson og flokksformennirnir hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson.

Með atvinnulýðræði er átt við leiðir til að auka áhrif starfsmanna innan fyrirtækja en atvinnulýðræði er ekki útbreitt hér og eru Íslendingar langt á eftir nágrannaþjóðunum hvað varðar þá þætti í skipulagi atvinnulífsins. Meginreglan varðandi fyrirtækjarekstur var að eigendur viðkomandi fyrirtækis höfðu allt ákvörðunarvald í fyrirtæki en launafólk var einungis samningsbundið. Þetta hefur breyst mikið á undanförnum áratugum.

Í nútímafyrirtækjum eru þrír hópar sem ráða mestu, þ.e. eigendur, æðstu stjórnendur, þ.e. framkvæmdastjórar, og starfsmenn. Framkvæmdastjórar eru oft meðal eigenda en það er alls ekki algilt. Hins vegar starfa eigendur og framkvæmdastjórar náið saman og koma oftast fram sem ein heild gagnvart starfsmönnum, m.a. við kjarasamninga. Þótt eigendur fyrirtækja fari með hið formlega vald, þá hafa áhrif æðstu stjórnenda eða framkvæmdastjóra aukist verulega á Vesturlöndum undanfarna áratugi.

Rök fyrir auknum áhrifum starfsmanna eru m.a. þau að með samstarfi og upplýsingum er hægt að ná fram hagkvæmum áhrifum í starfsemi fyrirtækis og á stöðu starfsmanna. Aukið atvinnulýðræði veitir stjórnendum aðhald, bætir starfsanda, bætir kjör og eykur lýðræðislega stjórnarhætti. Það vinnur jafnframt gegn óeðlilegri valdasamþjöppun og það er hluti af fyrirtækjamenningu sem er ákveðin félagsleg umgjörð um starfsemi fyrirtækis.

Fleiri rök fyrir aðild starfsfólks að stjórnun fyrirtækja eru m.a. að þá er tekið tillit til hagsmuna starfsmanna meira en nú er gert, t.d. með því að veittur er aðgangur að reynslu og upplýsingum starfsmanna. Ráðstöfunarréttur stjórnar er í reynd takmarkaður þegar um er að ræða aðgerðir sem eru mjög óvinsælar meðal starfsmanna og tekið er meira tillit til þjóðfélagslegra afleiðinga af stefnu fyrirtækis, svo sem á sviði mengunar, líðan starfsmanna á vinnustað, tryggingu atvinnu, staðsetningu og ýmislegt fleira.

Fyrirtæki hafa einnig verið að færa sig meira frá miðstýringu yfir til dreifstýringar þar sem fleiri aðilar koma meira að ákvörðunum sem tengist vinnu þeirra. Gott samband milli stjórnenda og starfsmanna getur verið í þágu beggja og haft í för með sér betri launakjör. Atvinnulýðræði er þannig góð aðferð til að hækka laun, bæta framleiðni og styrkja fyrirtæki um leið og það eykur eftirlit sem er nauðsynlegt í heimi vaxandi samkeppni.

Evrópusambandið hefur sett ákvæði um atvinnulýðræði og vikið er að þeim í alþjóðlegum samningum, sem við erum aðilar að, og búast má við því, herra forseti, að við verðum innan ekki langs tíma að lögfesta hér á landi ákvæði í tengslum við atvinnulýðræði vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við festum í lög útfærslu á okkar eigin forsendum um atvinnulýðræði og fáum reynslu á þessa hugmyndafræði án þess að bíða eftir tilskipunum að utan.

Þótt hagsmunir gætu farið saman innan fyrirtækis, þá takast þessir aðilar á, þ.e. vinnuveitendur og starfsmenn, um kaup og kjör. Nú er hins vegar líklegt að þróunin fari meira að færast yfir á vinnustaði í formi samninga og hún muni verða meira innan einstakra vinnustaða með samvinnu og ráðgjöf frá heildarsamtökum vinnuveitenda og verkalýðsfélaga. Síðustu kjarasamningar settu ákveðnar reglur á þessu sviði. Slíkt fyrirkomulag er þekkt víða erlendis og hefur verið þar lengi í föstum skorðum, m.a. í nágrannalöndunum. Við þekkjum hér á landi sameiginlega hagsmunagæslu verkalýðsfélaga og vinnuveitenda, t.d. oft og tíðum gagnvart ríkisvaldi auk samvinnu þeirra í lífeyrissjóðaumhverfi.

Meginefni þessa frv. er hins vegar ekki að búa til streymi fyrir almennar upplýsingar og samráð heldur að taka skrefið að fullu, þ.e. að kveða ótvírætt á um rétt starfsmanna til að kjósa fulltrúa í stjórn hlutafélags af tiltekinni stærð. Hér þarf að hafa í huga að við erum mjög langt á eftir og reyndar áratugum á eftir nágrannaþjóðunum hvað varðar áhrif starfsmanna á stjórnun fyrirtækja.

Hjá Alþýðusambandi Íslands er hins vegar verið að undirbúa núna mikið átak í menntun trúnaðarmanna til að starfa á jafnréttisgrundvelli sem fulltrúar starfsmanna gagnvart eigendum og æðstu stjórnendum. Aukin menntun trúnaðarmanna með námskeiðahaldi er mjög mikilvæg og einmitt þessi áhersla innan verkalýðshreyfingarinnar sýnir að verið er að bregðast við nýjum aðstæðum. Trúnaðarmenn munu verða lykilaðilinn varðandi samstarf í atvinnulýðræði og í kjarasamningum framtíðarinnar og þetta mun vafalítið þróast mjög hratt á næstu árum þannig að starf stéttarfélaganna stefnir meira inn á vinnustaðina, bæði hvað varðar kjarasamninga, starf trúnaðarmanna og, ef frv. verður að lögum, með formlegri aðild starfsmanna að stjórnun fyrirtækja.

Þetta frv. byggir á danskri löggjöf en íslenska hlutafélagalöggjöfin tekur mjög mið af þeirri dönsku. Sú útfærsla sem hér er lögð til, að starfsmenn kjósi stjórnarmenn, er hluti af hugmyndafræðum um atvinnulýðræði og sú aðferð sem skilar fljótast árangri.

Ákvæðin í dönsku hlutafélagalöggjöfinni eru yfir 25 ára gömul og þau hafa reynst vel. Hér er lagt til að í félögum þar sem 35 manns eða fleiri hafa starfað síðustu þrjú ár kjósi starfsmenn fulltrúa í stjórn sem svarar til helmings þeirra stjórnarmanna sem eru kosnir af öðrum. Til dæmis ef í stjórn félags væru sex manns þá yrðu kosnir þrír til viðbótar frá starfsmönnum, þannig að í stjórn þess félags sætu níu manns. Ef um væri að ræða sjö manna stjórn að öðru jöfnu, þá er helmingurinn af sjö þrír og hálfur og er kveðið á um að hækka upp í næstu heila tölu, fjóra. Í þeirri stjórn sætu þá sjö frá eigendum og fjórir frá starfsmönnum eða ellefu manns samtals. Þetta er lagt til í frv. og er sama aðferðafræði og er í danskri löggjöf.

Í lögum um hlutafélög ræður einfaldur meiri hluti þannig að vandalaust er að framkvæma þessi ákvæði vegna þess að þó svo að standi á jafnri tölu í stjórn, þá má kveða á um í samþykktum að atkvæði formanns ráði úrslitum ef atkvæði eru jöfn, þannig að þar skapast engin vandkvæði við framkvæmd þessa frv.

Stjórnarmenn sem sækja umboð sitt til starfsmanna fyrirtækis hafa sama rétt og aðrir stjórnarmenn. Þeir taka þátt í stjórnun fyrirtækisins, koma fram með skoðanir starfsmanna, ræða stefnu og stjórnun fyrirtækis út frá öðru sjónarhorni en aðrir stjórnarmenn. Í frv. er lagt til að þessir fulltrúar starfsmanna séu valdir þannig að haldinn sé almennur starfsmannafundur a.m.k. viku fyrir aðalfund þar sem fulltrúar eru kosnir og allir fastráðnir starfsmenn eigi seturétt á þeim fundi og séu kjörgengir í stjórnina. Sérhver fastráðinn starfsmaður fer með eitt atkvæði eða hluta úr atkvæði sé um hlutastarf að ræða.

Tilgangur þessa frv. er fyrst og fremst að opna fyrir atvinnulýðræði í íslenskum fyrirtækjum og nýta hina vel heppnuðu dönsku löggjöf í því skyni. Hér er lagt til eins og í dönsku lögunum að fulltrúi í stjórn félagsins komi úr hópi starfsmanna en í Svíþjóð er gert ráð fyrir að fulltrúi starfsmanna komi frá stéttarfélögunum en sé ekki nauðsynlega starfsmaður viðkomandi fyrirtækis. Hér er hins vegar lagt til eins og algengt er erlendis að fulltrúar starfsmannanna séu starfandi innan fyrirtækisins. Væntanlega mundu þetta verða trúnaðarmenn, í fyrstu a.m.k., og væri það mjög vel við hæfi að einmitt slík tengsl sköpuðust. Við áframhaldandi útfærslu verða tengsl starfsmanna og stéttarfélaga og heildarsamtaka þeirra nánari en verið hefur og við flutningsmenn teljum að þetta frv. stuðli að því.

Þátttaka starfsmanna í stjórnun fyrirtækis er sums staðar erlendis tryggð með víðtækari hætti en þetta frv. gerir ráð fyrir þó svo einnig þekkist útfærsla þar sem skemmra er gengið, en víðast hvar í nágrannalöndunum eða má segja í flestum þeirra eru ákvæði í þessa átt sem frv. gerir ráð fyrir.

Í frv. er lagt til að lögin öðlist þegar gildi og kosnir starfsmenn taki þegar sæti í stjórn félagsins og veittur aðlögunartími til breytinga á samþykktum.

Ef miðað er við 35 starfsmenn og fleiri þá falla stærri fyrirtæki undir þetta og er vikið að því í frv. Í tölum frá Þjóðhagsstofnun kemur fram að einungis 2.000 fyrirtæki hér á landi eru með fleiri en fimm starfsmenn. Það eru 390 fyrirtæki og stofnanir hérlendis árið 1995 með 35 starfsmenn eða fleiri. Þessi fyrirtæki og stofnanir mundu falla undir þetta frv. ef gert er ráð fyrir að sambærileg ákvæði gildi um ólík rekstrarform.

Meðal þeirra fyrirtækja sem falla undir ákvæði frv. eru langflest fyrirtæki sem eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands. Það liggja fyrir góðar tölulegar upplýsingar um þau. Þetta eru flest stærstu og öflugustu fyrirtæki landsins og um það bil 45 fyrirtæki mundu falla undir þetta ákvæði. Heildarumsvif þeirra fyrirtækja árið 1997 eru 150 milljarðar, starfsmannafjöldi á annan tug þúsunda og markaðsvirði félaganna er um það bil 150 milljarðar. Við sjáum því að þetta hefði strax áhrif á starfsemi þessara fyrirtækja. Hægt er að nefna fyrirtæki eins og Eimskip, Flugleiðir, Samherja, Granda, Íslandsbanka, olíufélögin og tryggingafélögin. Ef frv. yrði samþykkt fengju starfsmenn þessara félaga allra fulltrúa í stjórn þeirra.

Vitaskuld er hægt að útfæra stefnu frv. gagnvart einkahlutafélögum og samvinnuhlutafélögum og þetta á einnig að ná yfir stofnanir í eigu ríkisins sem eru ekki í hlutafélagaformi þannig að vitaskuld á þessi aðferð víðar við en einungis innan hlutafélaga þó að hér sé lagt upp með breytingar á hlutafélagalögum.

Það er mjög brýnt, herra forseti, að mótuð sé sjálfstæð stefna á þessu sviði, m.a. vegna þess að búast má við því að innan Evrópusambandsins verði þetta form lögfest með tíð og tíma og við yrðum þá að lögfesta það einnig hér á landi. Þá er mjög mikilvægt að við hefðum þegar sett lög um slíkt kerfi í atvinnulífinu, unnið með það í nokkurn tíma og öðlast reynslu á þessu mikilvæga sviði sem eykur hlut starfsmanna í fyrirtækjarekstri.

Sú löggjöf sem byggt er á, þ.e. danska löggjöfin, hefur reynst vel hvað þessa hluti varðar og það er skynsamlegt að byggja útfærslu okkar á löggjöf sem hefur komið vel út í framkvæmd.

Frv. tekur á einum þætti í atvinnulýðræði, þ.e. þátttöku starfsmanna í stjórnun fyrirtækja og með samþykkt þess væri eðlilegt að útfæra sambærilega aðild starfsmanna að stjórnun stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins sem eru í öðru rekstrarformi.

Ég er þess fullviss, herra forseti, að samþykkt þessa frv. muni styrkja íslenskt atvinnulíf, leiða til bættra kjara launafólks en jafnframt bæta möguleika á aukinni framleiðni fyrirtækja og þar með bæta samkeppnisstöðu þeirra á alþjóðamarkaði. Með tilliti til þess hve margir úr þingflokkum jafnaðarmanna og Alþb. standa að þessu frv. þá er hægt að fullyrða að hér er um að ræða útfærða stefnu jafnaðarmanna og félagshyggjufólks og markar tímamót í umræðu um skipulag á vinnumarkaði. Þessar hugmyndir hafa verið ræddar oft áður innan íslensks samfélags. Hér er framhald af þeirri umræðu og tillögum sem áður hafa verið gerðar, bæði innan þingsala og annars staðar og það fer vel á því að svo víðtæk samstaða hafi skapast í þessum flokkum, þ.e. Alþfl. og Alþb., við útfærslu frv. að það er lagt fram með þessu móti á hinu háa Alþingi.