Hlutafélög

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 10:47:22 (5533)

1998-04-16 10:47:22# 122. lþ. 105.1 fundur 634. mál: #A hlutafélög# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[10:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frv. og þakka hv. framsögumanni fyrir ágæta ræðu. Ég vil gjarnan láta það koma fram í að þessi mál hafa verið rædd hér áður, fyrir allmörgum árum, ótrúlega mörgum árum satt að segja. Ég hygg að það séu komnir um þrír áratugir síðan hv. þm. Ragnar Arnalds hreyfði þessu máli í tillögu til þál. um lýðræði, minnir mig að málið hafi heitið. Efnið var alla vega atvinnulýðræði.

Ég minnist þess að þessi mál voru talsvert mikið rædd, m.a. í mínum flokki og þá komu fram misjöfn sjónarmið í þessum efnum. Þau komu frá ýmsum forustumönnum í verkalýðshreyfingunni, eins og Eðvarð Sigurðssyni sem taldi að þetta væri í raun og veru ekki að öllu leyti skynsamlegt fyrirkomulag. Hann taldi að með þessu væri verið að gera verkalýðinn, eins og það hét, samábyrgan fyrir rekstri fyrirtækjanna og draga úr vilja og krafti fólks til þess að berjast fyrir betri kjörum og með þessu væri verið að veikja baráttuþrek verkalýðshreyfingarinnar. Þetta snerist um að fólk mundi smátt og smátt öðlast meiri samúð með fyrirtækjunum en því fólki sem það ætti að standa með, þ.e. þeim sem lifa á því einu að selja vinnuafl sitt. Ég vil taka það fram að ég er þeirrar skoðunar að þetta sé fullkomlega gilt sjónarmið og að atvinnulýðræði megi aldrei verða til þess að veikja baráttu verkalýðshreyfingarinnar heldur verði það að styrkja hana.

Sú tillaga sem hv. þm. Ragnar Arnalds flutti hér fyrst hljóðaði svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela 11 manna nefnd að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launamanna á stjórn þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá. Skal löggjöf þessi vera fyrsti áfanginn í áætlun til næstu tveggja áratuga um aukið lýðræði í íslenskum atvinnuvegum og ber sérstaklega að stefna að því í fyrstu lotu að veita launafólki í ríkisfyrirtækjum, og þá einkum iðnfyrirtækja, veruleg bein áhrif á stjórn þeirra en starfsmönnum í einkarerkstri víðtæk ráðgefandi áhrif.``

Ég held að þessi tillaga hafi síðan verið flutt nokkrum sinnum en náði ekki fram að ganga. Henni fylgdi mjög ítarleg greinargerð um atvinnulýðræði sem er mjög fróðleg miðað við allar aðstæður og í ljósi sögunnar. Á grundvelli hugsunarinnar í þessari tillögu og þeirrar stefnumótunar sem fólst í henni beitti Alþb. sér fyrir því að starfsmenn fengju aðild að stjórnun allmargra ríkisfyrirtækja. Þannig voru sett ákvæði í lögin um heilbrigðisþjónustu sem gerðu ráð fyrir því að starfsmenn ættu t.d. aðild að stjórnarnefnd Ríkisspítalanna. Þau lög voru sett að frumkvæði Magnúsar Kjartanssonar, þáv. heilbr.- og trmrh., og þessi atvinnulýðræðishugsun var þar að leiðarljósi. Ég tel mjög nauðsynlegt að halda því til haga að málið hefur átt sér langan aðdraganda og nauðsynlegt að muna eftir því um leið og rætt er um málin.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að nefna er kom að mínu mati ekki nægilega skýrt fram hjá hv. frsm. Það er a.m.k. mitt sjónarmið að tilgangurinn með þessu sé einnig sá að reisa skorður við ofurvaldi fjármagnsins yfir vinnandi mönnum yfirleitt. Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því að hérna er ekki um neina silkihanskanálgun að ræða gagnvart þeim sem eiga fyrirtækin og fjármagnið á hverjum tíma. Í raun er þrengt að fjármagninu með lýðræðislegum aðgerðum eins og hér er gerð tillaga um. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að í frv. og í umræðum um málið er ekki um það að ræða að fulltrúar starfsmanna fái meiri hluta í stjórnum fyrirtækja og þar með yfirráð yfir fjármagninu eða hlutafénu á bak við fyrirtækið, heldur er gert ráð fyrir því að viðkomandi hafi áhrif á tiltekna þætti í starfsemi fyrirtækjanna eins og hv. þm. rakti ágætlega áðan.

Þessi tvö atriði, annars vegar hinn sögulegi aðdragandi og hins vegar það meginmál að atvinnulýðræði getur sett skorður við valdi fjármagnsins, voru þau meginatriði sem ég vildi draga fram.

Við höfum á undanförnum árum og áratugum fjallað heilmikið um markaðinn og að hve miklu leyti eigi að nota markaðinn. Við alþýðubandalagsmenn höfum um árabil verið þeirrar skoðunar að markaðurinn eigi að vera þjónn en ekki herra. Ég hygg að við höfum viljað ganga lengra í því en flestir aðrir að takmarka völd markaðarins þá þörf krefur, með lýðræðislegum ákvörðunum sem Alþingi tæki eða með samningum sem verkalýðsfélögin beittu sér fyrir. Ég lít svo á að ákvarðanir um atvinnulýðræði, eins og finna má í þessu frv. sem ég er meðflm. að, hafi þann tilgang að setja markaðnum skorður og koma í veg fyrir það að markaðsöflin neyti ýtrasta styrks síns til þess að aukast og margfaldast, jafnvel á kostnað hins almenna launamanns.