Grunnskóli

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 11:03:03 (5535)

1998-04-16 11:03:03# 122. lþ. 105.2 fundur 636. mál: #A grunnskóli# frv., Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[11:03]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Fyrir fáeinum árum var tekin ákvörðun um að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna eins og það heitir og uppi voru efasemdir um það hjá ýmsum þingmönnum, og m.a. þeim sem hér stendur, að það þyrfti kannski að huga aðeins betur að því máli en þá var gert. Nú hygg ég hins vegar að það sé nokkuð almenn sátt um það að sveitarfélögin hafi sinnt grunnskólanum nokkuð vel.

Gallinn við grunnskólalögin er sá að þau kveða ekki á um rétt barna til þess að vera í skóla heldur bara skyldur sveitarfélaga til þess að hafa börn í skóla og það er mjög alvarlegt mál. Það hefur orðið til þess að börn sem eiga við vissa erfiðleika að stríða hafa ekki fengið skólavist og hafa langtímum saman orðið að sæta því að komast ekki í skóla af margvíslegum ástæðum. Sérstaklega er þetta erfitt þegar um er að ræða börn sem eru vistuð fjarri heimilum sínum í öðrum sveitarfélögum, t.d. á vegum barnaverndaryfirvalda. Barnaverndaryfirvöld taka stundum um það ákvörðun að skynsamlegt sé að koma börnum í fóstur á heimilum sem eru í öðrum byggðarlögum og þegar börn eru á skólaaldri eiga þau auðvitað samkvæmt lögum að eiga rétt á því að vera í skóla. Veruleikinn hefur þrátt fyrir þetta orðið sá að í sumum tilvikum hefur staða þeirra verið óljós og börnin hafa verið utan skóla langtímum saman. Það hefur vakið upp feiknalegar deilur og menn þekkja dæmi um það. Síðustu dæmin eru austan úr Flóa og í blaðinu Degi í dag birtist viðtal við Soffíu Sigurðardóttur á Neistastöðum í Villingaholtshreppi sem segir frá reynslu sinni í þessu efni þar sem hún gerði til þess ítrekaðar tilraunir að koma barni í skóla en aðstæður voru ekki með þeim hætti að viðkomandi yfirvöld, þ.e. sveitarfélagið, féllist á það.

Hér er flutt frv. til að bæta úr þessu. Hér er flutt frv. sem gengur út á að rétturinn sé alltaf barnsins fyrst. Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Á eftir 56. gr. koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:

Öll börn eiga rétt á skólagöngu samkvæmt lögum þessum, sbr. 1. gr. [þ.e. grunnskólalaganna] Sveitarstjórn er skylt að tryggja barni skólavist sem næst dvalarheimili þess og að tryggja því flutning til og frá skóla þegar um lengri veg er að fara. Nú koma upp deilur milli sveitarfélaga um það í hvaða skóla barn skuli ganga og hvaða sveitarfélag skuli bera kostnað af skólavist barnsins og skal þá úrskurðarnefnd`` --- sem er nýtt atriði í þessu frv. --- ,,kveða upp úrskurð um málið, sbr. 58. gr.``

Í 58. gr. er síðan gert ráð fyrir því að ákvæði komi um þessa úrskurðarnefnd sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar þriggja manna úrskurðarnefnd sem fjallar um deilumál milli sveitarfélaga sem upp kunna að koma vegna framkvæmda á lögum þessum. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár í senn. Skulu tveir nefndarmenn skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga en sá þriðji skipaður án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Úrskurðir nefndarinnar eru endanlegir á stjórnsýslusviði.``

Með öðrum orðum, hér starfar nefnd þriggja manna, hún kveður upp úrskurði þegar upp koma deilur milli sveitarfélaga. Barnið bíður ekki með skólavist sína eftir því að nefndin ljúki sér af heldur fer barnið í þann skóla sem er næst heimili þess eða sem hentar því að öðru leyti best því í 3. gr. og síðustu grein frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,Þegar um er að ræða skólagöngu barna sem hafa verið vistuð fjarri lögheimilum sínum á vegum barnaverndarnefnda eða hliðstæðra aðila skal menntamálaráðuneytið greiða kostnað af dvöl barnsins þar til úrskurðarnefnd skv. 58. gr. hefur fellt úrskurð sinn.``

Með öðrum orðum, ef barn er vistað fjarri heimasveitarfélagi sínu í öðru sveitarfélagi þá fer barnið skilyrðislaust í þann skóla sem það sveitarfélag notast yfirleitt við ef það hentar barninu af öðrum ástæðum. Nú vill viðkomandi sveitarfélag hins vegar ekki sætta sig við þetta og vill ekki borga þann kostnað sem af þessu hlýst. Þá bitnar það ekki á barninu samkvæmt þessu frv. heldur fer það beint til viðkomandi úrskurðarnefndar og þangað til hún kveður upp úrskurð sinn borgar menntmrn. brúsann.

Hér er um að ræða nauðaeinfalda breytingu og ég hygg að allir þingmenn hljóti að vera sammála um þetta mál. Þó að það sé seint fram komið þá trúi ég ekki öðru en það geti eins og ýmis önnur mál sem hér er verið að flytja þessa dagana orðið að lögum áður en þingi lýkur. Málið er svo einfalt að það er algerlega sjálfsagt mál að kveða upp úr með það að barnið eigi þarna allan rétt þegar kemur að spurninni um skólagöngu. Auðvitað þyrfti að endurskrifa grunnskólalögin þannig að réttur barnsins væri algerlega skýlaus sem grundvallaratriði þeirra laga miklu frekar en að lögin séu sett upp eins og réttur sveitarfélags. Satt að segja er það að verða þannig í vaxandi mæli finnst mér í seinni tíð að sveitarfélögin eru að verða eins og stofnanir sem menn líta á meira óháð því fólki sem býr þar og að sveitarfélögin hafi sem stofnanir kannski litlar eða engar skyldur við fólkið sem á heima í viðkomandi sveitarfélögum. Það er auðvitað óþolandi viðhorf og þarf að breyta því. Þess vegna þarf að mínu mati að velta því fyrir sér að endurskoða grunnskólalögin til þess að tryggja að þar sé alls staðar talað um rétt barnsins annars vegar og skyldur sveitarfélagsins hins vegar.

Herra forseti. Ég vænti þess að frv. verði vel tekið og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.