Aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 11:29:16 (5540)

1998-04-16 11:29:16# 122. lþ. 105.4 fundur 579. mál: #A aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum# þál., Flm. KH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[11:29]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 984, sem er 579. mál þessa þings, um aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum. Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að sjá til þess að unnin verði ítarleg rannsókn og úttekt á aðdraganda, ferli og afleiðingum hitasóttar í hrossum sem breiðst hefur út hér á landi á þessu ári. Rannsóknin verði unnin á vegum embættis yfirdýralæknis og stuðst við upplýsingar og gögn frá dýralæknum og hestamönnum. Á grunni hennar verði mótuð áætlun um viðbrögð í samráði við atvinnumenn í hestamennsku og félagasamtök hestamanna.``

[11:30]

Herra forseti. Það er liðinn mánuður síðan þessi tillaga kom fram og hún hefur áður verið á dagskrá þingsins en náðist því miður ekki að mæla fyrir henni í það skiptið, og ég segi því miður því mér er mikið í mun að koma tillögunni til nefndar og treysti því auðvitað að hv. landbn. gefi sér tíma og afgreiði hana í vor. Það er mjög mikilvægt að taka á þessu máli og það er miður að hvorki hæstv. landbrh. né hv. formaður landbn. geta verið viðstaddir þessa umræðu en ég veit að þeir hafa lögmæt forföll og verður að taka tillit til þess. Hér eru staddir aðrir nefndarmenn í landbn. og ég treysti því að landbn. taki á þessu máli. Mér er reyndar kunnugt um og komst að því eftir að þessi tillaga kom fram að nokkurt starf þessu tengt hefur þegar farið fram á vegum landbn.

Það má vel vera að tillögunni sjálfri megi breyta, það megi skerpa hana og bæta. Ég vil t.d. sérstaklega nefna að fyrir misgáning er ekki minnt í tillögunni á stórt og mikilvægt hlutverk Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum. Það eru mistök af minni hálfu og það hlutverk og verkefni skil ég mætavel og það þarf að hafa í huga.

Þessa tillögu, herra forseti, má auðvitað ekki skilja sem svo að engin viðbrögð hafi orðið og ekkert hafi verið aðhafst af hálfu yfirvalda í þessu efni, því fer auðvitað fjarri eins og reyndar er minnt á í grg. með tillögunni. Strax og mönnum var ljóst að ekki var um að ræða venjulegt og kunnuglegt fóðurslen í hrossum heldur augljóslega smitandi sjúkdóm, sem menn könnuðust ekki við, var gripið til varúðarráðstafana sem m.a. fólust í banni við flutningum milli svæða og til útlanda og hestaeigendum var að sjálfsögðu leiðbeint um meðferð. En þrátt fyrir þessar ráðstafanir, sem menn hafa virt það ég best veit, hefur veikin breiðst út jafnt og þétt. Hundruð hrossa hafa sýkst og nokkur drepist og engin trygging er fyrir því að sóttin nái ekki til allra landsvæða áður en yfir lýkur. Mjög margir eru reyndar orðnir þeirrar skoðunar að hún muni fara yfir allt landið. Það sé útilokað að hindra það og margir hafa haldið því fram að þessi sótt verði landlæg.

Miklir hagsmunir eru í húfi og margir hafa vaknað til vitundar um hvílíkar afleiðingar andvaraleysi og óvarkárni geta haft. Þess vegna skiptir öllu að draga lærdóm til framtíðar af þessari reynslu og má ekkert til spara í fyrirhöfn eða fé. Rannsóknir eru að sjálfsögðu hafnar, eins og ég sagði, og hófust raunar fljótlega eftir að veikinnar varð vart á vegum embættis yfirdýralæknis og rannsóknastofnunarinnar á Keldum. Fjölmörg sýni hafa verið tekin og send til rannsóknar fyrst og fremst hjá dýralæknaháskólanum í Uppsölum í Svíþjóð. Kostnaður vegna þessa er þegar orðinn umtalsverður og ljóst að hann verður mikill áður en séð verður fyrir endann á þessari atburðarás. Það er m.a. þess vegna sem nauðsynlegt er að ræða þetta mál á Alþingi. Hér er um svo stórt mál að ræða, hér eru svo miklir hagsmunir í húfi að Alþingi ber að ræða málið og gera sér grein fyrir að taka þarf á því af festu og kosta nokkru til.

Herra forseti. Svo margt hefur verið rætt og ritað um hitasóttina sem herjað hefur á þarfasta þjóninn undanfarnar vikur að naumast er þörf á miklum lýsingum eða útlistunum þar að lútandi. Ég held að ekki líði sá dagur að ekki sé fjallað um þetta í fjölmiðlum. Mikið hefur verið skrifað í blöðin og þeir sem hafa viljað hafa getað fylgst vel með þessu. Aðalatriðið er að við stöndum frammi fyrir alveg nýjum aðstæðum í sambandi við hestamennsku, hvort sem um atvinnu- eða áhugamennsku er að ræða. Við þurfum að horfast í augu við nýjar aðstæður, annað umhverfi en við höfum búið við eða talið okkur búa við.

Heilbrigði íslenska hestsins hefur verið viðbrugðið, svo sem flestra annarra dýrategunda hérlendis. Nýtur þar við fjarlægðar frá öðrum löndum og tiltölulega góðra aðstæðna til að verjast sjúkdómum og smiti sem herja víða erlendis. Strangar reglur eru í gildi til að koma í veg fyrir slíka óáran en hún getur auðvitað valdið gríðarlegum usla í dýrum sem aldrei hafa komist í kast við ýmsa sjúkdóma og þar af leiðandi ekki byggt upp ónæmi eða varnir gagnvart þeim. Almennt er talið að íslensk hross hafi mótefni gegn tiltölulega fáum veirum og hættan lúri því víða í leyni og full ástæða til að hafa varann á, og þótt misbrestur hafi vissulega orðið á framkvæmd reglanna hafa varnir að mestu dugað til þessa.

Hestamenn hafa óneitanlega verið nokkuð andvaralausir og talið sig geta um frjálst höfuð strokið í þessu tiltölulega einangraða og hreina umhverfi. Þeir hafa umgengist hver annan áhyggjulaust, sent hesta um landið þvert og endilangt á sýningar, til tamninga eða til sölu og öllum þótt sjálfsagt. Menn hafa jafnvel hent hálfgert gaman af smámunasemi í reglum um samskipti við útlönd og lagt mátulegan trúnað á nauðsyn þess að sótthreinsa notuð stígvél og reiðfatnað þótt menn hafi á ferðum sínum erlendis heilsað upp á kunningja í hestamennsku, jafnvel brugðið sér með honum í reiðtúr eða litið inn í hesthúsið hans. Gamla hugsunin um að íslenska rokið, --- ekki ríkið heldur rokið --- sjái um að feykja burt hvers konar pestaröngum hefur líklega verið nokkuð ríkjandi, enda höfum við í raun og veru sloppið við mestalla óáran sem rekja mætti til óvarkárni af þessu tagi.

Því er ekki að undra að hestaeigendur og þeir sem hafa atvinnu af hestamennsku séu slegnir óhug og áhyggjum vegna þessarar enn þá óþekktu hitasóttarinnar sem geisað hefur einkum á suðvesturhorni landsins um nokkurra vikna skeið en hefur breiðst nokkuð út um landið á undanförnum dögum.

Það er kannski ástæða til að minna á að svo virðist sem um frekar væga sótt sé að ræða en engu að síður er ástæða til fyllstu aðgæslu vegna hugsanlegra hliðarverkana. Veiran sjálf er ekki banvæn en ef eitthvað annað amar að getur hún ráðið úrslitum. Einmitt nú er runninn upp eða að renna upp sá viðkvæmi tími sem menn höfðu hvað mestar áhyggjur af, þegar hryssur kasta hver af annarri og mega illa við sýkingu. Og um allt land eru menn með böggum hildar vegna áætlana um sýningar og mót og hvað bjóða megi hestum í þjálfun hvað sem svo síðar verður af slíkum mótum.

Herra forseti. Íslenski hesturinn hefur fylgt íslenskri þjóð frá upphafi byggðar gegnum þykkt og þunnt og verið henni bæði til gagns og gleði. Hann er einstakur og lofaður víða um heim fyrir hæfni og sérstaka kosti. Fyrr á öldum var hann nefndur þarfasti þjónninn og vann þá flest þau verk sem bílar og margs konar vinnuvélar leysa nú í þágu mannsins. Á síðustu áratugum hefur hann í æ ríkari mæli orðið félagi mannsins í tómstundum. Fjölmargir eiga nú hesta sér til ánægju. Hestamenn fara hundruðum saman í lengri og skemmri hestaferðir um byggðir og óbyggðir landsins og slíkar ferðir eru mjög eftirsóttar af útlendingum. Á hverju ári koma hátt á þriðja þúsund erlendir ferðamenn til Íslands eingöngu vegna áhuga á íslenska hestinum, en auk þess kynnast 20--25 þúsund erlendir ferðamenn íslenska hestinum í styttri ferðum. Um 5 þúsund útlendingar sækja landsmót hestamanna sem haldin eru fjórða hvert ár og mér er til efs að nokkur önnur samkoma dragi slíkan fjölda útlendinga til sín með tilheyrandi tekjum, gjaldeyri og öðrum tekjum.

Mikil atvinna hefur skapast við hestamennsku um allt land við hrossarækt og alls konar þjónustu við hestaeigendur, atvinna við járningar, reiðkennslu, hestaflutninga, hestaleigu, framleiðslu og sölu hestavara, skipulagningu hestaferða, leiðsögn og aðra þjónustu í því sambandi. Ekki má svo gleyma dýralæknunum sem hafa haft ærið að starfa undanfarnar vikur og reyndar oftast endranær því ýmislegt getur komið upp í sambandi við þessar ágætu skepnur. Erfitt er að slá tölu á þá sem hafa atvinnu af hestamennsku en kunnugir telja að ársverk tengd henni séu a.m.k. eitt þúsund. Þau störf eru nú í uppnámi af völdum þessarar sóttar.

Útflutningur hesta er umtalsverður og íslenskir hestar teljast nú vera um 100 þúsund í 20 löndum, þar af munu vera um 45 þúsund íslenskir hestar í Þýskalandi þar sem hann er ákaflega vinsæll. Veglegar sýningar og mót eru haldin árlega erlendis þar sem íslenskir hestar og íslenskir knapar halda orðstír lands og þjóðar hátt á lofti. Það má líka minna á að í júlí 1997 kom út skýrsla á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins um störf nefndar sem falið var að kanna möguleika á auknum útflutningi framleiðslu sem tengist eða gæti tengst íslenska hestinum. Niðurstöður nefndarinnar eru að umtalsverðir möguleikar séu á því sviði.

Af öllu því sem hér hefur verið talið upp má ljóst vera að miklir hagsmunir eru í húfi þegar um íslenska hestinn er að ræða, bæði fjárhagslegs og atvinnulegs eðlis, auk þeirra hagsmuna sem ekki verða í krónum taldir, heldur tilfinningum. Því er mikilvægt að bregðast myndarlega við þeirri vá sem nú steðjar að hestum, hestaeigendum og atvinnumönnum í greininni.

Farsóttin er nú að mestu gengin yfir á suðvesturhorni landsins og hestamennskan að miklu leyti komin í eðlilegt horf á því svæði. En því er ekki að neita að sóttin hefur valdið miklum tilfinningalegum og fjárhagslegum skaða. Hestaeigendur hafa misst hross, atvinnumenn hafa orðið af viðskiptum og aðeins framtíðin sker úr um varanlegt tjón. Nú má einskis láta ófreistað að vinna úr þessu máli sem best við getum. Leggja þarf kapp á að upplýsa hvernig veikin hefur borist til landsins eða hvort hún er e.t.v. heimafengin eins og sumir hafa hallast að. Upplýsa þarf hvernig hún smitast, rannsaka afleiðingar hennar og komast að niðurstöðu um hvaða meðhöndlun reynist best. Sumir halda því fram að hestamenn og sérfræðingar hafi farið á taugum og viðbrögðin og fréttaflutningurinn ekki síst í útlöndum hafi þegar valdið þvílíkum skaða að langan tíma taki að bæta hann. Fréttaflutningur í útlöndum hefur a.m.k. sums staðar verið á hasarnótum á þá leið að hross drepist hér í hrönnum og íslenski stofninn sé að hrynja og allt veldur þetta ákaflega miklum skaða. Það getur tekið langan tíma að hrekja og afsanna slíkar fréttir þegar þær eru einu sinni komnar á kreik. Einnig er ljóst að útflytjendur hrossa frá ósýktum svæðum telja sig hafa orðið að sæta miklu órétti. Það þarf auðvitað alveg sérstaklega að fara yfir fjárhagslegar afleiðingar þessa máls, meta fjárhagslegan skaða einstaklinga í greininni og taka ákvarðanir um hugsanlegan stuðning eða bætur við þá sem orðið hafa fyrir tjóni. Það verður ekki komist hjá því og við getum bara spurt okkur hvað hefði verið gert ef slík sótt hefði lagst á annan stofn húsdýra, svo sem sauðfjár eða kúa.

Það þarf líka að svara áleitnum spurningum eins og þeim hvort gerlegt sé eða jafnvel æskilegt að verja íslenska hestinn gegn sýkingu af þessu tagi, en um það eru deildar meiningar. Menn spyrja sig jafnvel þeirrar spurningar hvort fjárhagslegt tap verði í raun og veru meira vegna varúðarráðstafana heldur en ef ekkert eða minna hefði verið gert til að hefta útbreiðslu sóttarinnar. Allt þetta þarf að ræða og skoða allar hliðar málsins. Það þarf að fara yfir allt ferlið og viðbrögðin. En mikilvægast alls og algerlega nauðsynlegt er að móta áætlun um hvernig taka beri á málum við svipaðar aðstæður í framtíðinni. Þessir atburðir virðast hafa komið dálítið að óvörum þannig að menn voru ráðvilltir. Það verður ekki annað sagt. Ég er ekki að beina þessu til sérfræðinga. Ég er fyrst og fremst að tala um áhyggjur og þann óhug sem hestamenn almennt urðu slegnir. Þeir eiga skilið að tekið verði á þessu þannig að þeir hafi það á tilfinningunni að þetta sé tekið alvarlega og áætlun verði mótuð um hvernig taka beri á málinu. Það er ekki nóg að dýralæknar og veirufræðingar ráði ráðum sínum heldur þurfa bæði atvinnumenn og áhugamenn í greininni að eiga fulla aðild að málinu. Við eigum ekki að láta atburði sem þessa koma gersamlega flatt upp á okkur. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að hvort sem því er um að kenna í þetta sinn eða ekki, þá hefur með auknum samskiptum við útlönd og útlendinga á þessu sviði stóraukist hætta á sýkingum og smiti sjúkdóma sem við höfum hingað til ekki talið okkur útsett fyrir. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því og vera þess vitandi hvernig við ætlum að lifa með þessum aðstæðum. Hér þurfa allir að leggjast á eitt, bæði dýralæknar og veirufræðingar og jafnt atvinnumenn sem áhugamenn í hestamennsku og að því miðar þessi tillaga.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. landbn.