Aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 11:53:00 (5542)

1998-04-16 11:53:00# 122. lþ. 105.4 fundur 579. mál: #A aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum# þál., JHall
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[11:53]

Jónas Hallgrímsson:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft þörfu máli. Mér finnst það raunar löngu tímabært, enda liðnir einir tveir, þrír mánuðir síðan hins skæða hrossasjúkdóms sem hér um ræðir varð vart. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. flm., Kristínu Halldórsdóttur, fyrir að færa þetta mál inn í sali Alþingis og vekja þar með athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem heil atvinnugrein, hrossabúskapur í landinu, stendur nú og e.t.v. síðar frammi fyrir. Ég skil þetta mál svo að flm. hvetji almennt til ítarlegrar rannsóknar, jafnvel ítarlegri en þeir sem aðild eiga að rannsókninni. Það má ekki skilja orð mín svo að ég telji þá ekki vel hæfa til þess og að þeir reyni ekki allt sem þeir geta til að finna orsakavaldinn. Ég tel að hér sé reynt að skapa möguleika á að gera enn frekari rannsóknir með auknum fjármunum, meiri fjármunum en þeir hafa úr að spila í dag. Ég skil það svo að leita eigi eftir aðdraganda, ferli og afleiðingum þessa ókennilega sjúkdóms og styð það heils hugar.

Gríðarlegir hagsmunir, menningarlegir, félagslegir og fjárhagslegir eru hér í veði og mikils vert að ekkert verði til sparað svo orsakavaldur finnist og reynt verði að forða frekara tjóni en þegar er orðið. Það gæti ráðið úrslitum um framtíðarhagsmuni í þessari atvinnu- og tómstundagrein, bæði hér innan lands og þá ekki síður erlendis, ef sjúkdómurinn bærist þangað sé hann þá ekki þar þegar eins og ýmsir telja. Það er þó önnur saga og lengri.

Ég legg þunga áherslu á að þessu máli verði fylgt eftir líkt og mér skildist hv. þm. Árni M. Mathiesen gera á undan mér.