Aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 12:09:23 (5545)

1998-04-16 12:09:23# 122. lþ. 105.4 fundur 579. mál: #A aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[12:09]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. 2. þm. Reykn. sagði að fjárhagsleg aðstoð varðandi hrossaræktina er mjög flókin alveg eins og alltaf hefur verið mjög flókið að bregðast við miklum vanda sem steðjað hefur að einstökum atvinnugreinum. Það var mikill vandi þegar erfiðleikar dundu yfir í sjávarútveginum, t.d. í hraðfrystihúsaiðnaðinum, hvernig ætti að bregðast við því. Það var mjög mikill vandi hvernig ætti að bregðast við þegar vandinn steðjaði að í loðdýraræktinni eða fiskeldinu. Þetta þýðir hins vegar ekki að við eigum ekki að grípa til aðgerða, enda tel ég ekki að hv. þm. hafi verið að tala um það.

Ég er hins vegar ekki alveg sammála honum um að ótímabært sé að huga að aðgerðum í þessum efnum. Ég held að ef við viljum vera raunsæ varðandi þetta hrossafár, þá verður í besta tilfelli um að ræða stórkostlegt tekjuhrun í atvinnugrein sem fyrir er ekkert allt of vel stödd. Þá á ég auðvitað við landbúnaðinn í heild. Þess vegna held ég að það væri mjög óskynsamlegt af okkur að bíða mjög lengi með aðgerðir núna. Það er alveg ljóst að þegar hefur orðið mikill tekjubrestur. Það er alveg ljóst að á næstu mánuðum, hvernig sem allt fer, verður mikil tekjuminnkun í þessari atvinnugrein. Vitneskjan um þessa hrossasótt mun hafa áhrif á markaðsstarfsemi okkar erlendis. Þessi vitneskja um hrossasóttina hefur dregið úr kjarki manna til þess að versla með hross innan lands, það er mér kunnugt um, og einmitt þess vegna eru menn að reyna að verjast með því að setja upp víggirðingar milli héraða til að koma í veg fyrir að hrossasóttin breiðist út. Þess vegna tel ég skynsamlegt, til þess að afstýra vandræðum og til að firra menn frekari vandræðum, að lánastofnanir reyni að bregðast við fyrir sitt leyti. Mér er ljóst að einmitt í þessari atvinnugrein hafa menn oft og tíðum átt erfitt með innkomu inn í opinbera lánasjóði en það breytir því ekki að það er þó vísir í rétta átt, það er alla vega skref í þá áttina, að reyna að koma til móts við atvinnugrein sem á sannarlega í gríðarlegum vanda og sem er mjög mikilvæg fyrir hinar dreifðu byggðir og raunar þéttbýlið líka. Þess vegna held ég að það væri skynsamlegt af okkur að bregðast við fyrr en seinna.