Aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 12:19:01 (5549)

1998-04-16 12:19:01# 122. lþ. 105.4 fundur 579. mál: #A aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum# þál., Flm. KH
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[12:19]

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka öllum þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu fyrir mjög mikilvæg og góð innlegg í hana. Það vekur athygli mína að hv. 2. þm. Reykn., hv. 1. þm. Austurl. og hv. 1. þm. Vestf. eru allir stjórnarþingmenn og fyrir stjórnarandstæðing sem hér stendur er það nokkurs virði að þeir sýni tillögunni svona mikinn áhuga og skilning og vilji leggja sitt af mörkum til að hún verði samþykkt eða a.m.k. um hana fjallað rækilega í nefnd.

Hv. 2. þm. Reykn. hóf mál sitt á því, eins og hann orðaði það, að gagnrýna tillöguna örlítið. Ég tek þá gagnrýni hreint ekki nærri mér. Hann sagðist vera andvígur því að embættismönnum og framkvæmdarvaldinu væri sagt að gera það sem það ætti að gera. Það væri raunverulega það sem fælist í tillögunni að segja þeim að þeir ættu að sinna sínum embættisskyldum. Ég er ekki alveg sammála þessu. Það getur oft þurft að ýta við embættismönnum og framkvæmdarvaldinu og ekkert athugavert við það. Hv. Alþingi hefur fullan rétt til þess að taka upp hvert það mál sem því sýnist og koma með sína skoðun á málinu, álykta um það og styrkja þannig og styðja embættismennina og framkvæmdarvaldið í sínum störfum. Þeir eru á okkar ábyrgð eins og við vitum. En ég skil hins vegar afstöðu hv. þm., ég hef heyrt hana áður í sambandi við aðrar tillögur og hann er auðvitað í annarri stöðu en sú sem hér stendur. Hann er í fyrsta lagi stjórnarþingmaður og með miklu meiri tengsl inn í kerfið en ég. Hann er auk þess sérfræðingur í þessu máli og þekkir hvað er að gerast þar og hefur aðstöðu til þess að beita sér á þeim vettvangi. Ég er alveg sammála honum um að það mikilvægasta í málinu er að tryggja að rannsóknir fari fram, allt verði gert til að upplýsa málið og nýta þetta tækifæri til að komast að sannleikanum um það. Samstarf við erlenda vísindamenn er mikilvægt, vísindaleg niðurstaða er mikilvæg en það er ekki síður mikilvægt að taka á málinu, eins og kom fram sérstaklega í máli hv. 1. þm. Austurl. og hv. 1. þm. Vestf., að taka á málefnum einstaklinganna sem hafa orðið fyrir skaða og munu vafalaust verða fyrir fjárhagslegum skaða vegna þessa. Ég ræddi það í fyrri framsöguræðu minni og þykir vænt um að menn sýni skilning á þessu. Þetta er mál sem þarf að velta fyrir sér. Það má vel vera að nokkuð erfitt verði að komast að niðurstöðu um þau efni en við vitum nú þegar talsvert um það. Við vitum að það eru fleiri en einn og fleiri en tveir sem sitja uppi með stóran hóp hrossa sem þeir hafa ekki fengið leyfi til að flytja út.

Ég er ekki að varpa sök á þá sem ráða hér heima vegna þess að þeir eru auðvitað í þeirri aðstöðu að búast má við því að alls ekkert yrði tekið á móti þessum hrossum erlendis. En hv. 2. þm. Reykn. sagði að skaðinn væri náttúrlega ekki allur, þeir ættu væntanlega enn þá þessi hross. En við skulum ekki gleyma því að þessi hross standa ekki og bíða eftir því að verða flutt út. Það safnast kostnaður á þessi hross, þau þurfa sitt fóður, þau þurfa sitt atlæti og umhirðu og safna þannig upp kostnaði hjá eigendum sínum. Það er því mjög mikið fjárhagslegt tjón sem ýmsir í greininni hljóta að verða fyrir. Slíkur útflutningur gerist kannski ekki svona óvænt, eins og mér fannst koma fram í máli hv. 2. þm. Reykn. Þetta er ekki eitthvað sem mönnum dettur allt í einu hug og ætla að flytja út næsta dag. Þetta er ekkert hipsumhaps. Það eru nokkrir aðilar á Íslandi sem hafa atvinnu af þessu og þetta tekur langan tíma og undirbúning og er ekki jafnóvænt eins og mér fannst hann vilja vera láta.

Við skulum líka athuga það að ekki er bara um hrossasölu að ræða hvort sem hún er innan lands eða erlendis. Það er margt fleira í sambandi við hestamennskuna. Hv. 1. þm. Austurl. og Vestf. minntu á ferðaþjónustuna í þessu sambandi og það er ljóst að þetta mun hafa einhver áhrif á útgerð þeirra aðila nú í ár, vonandi ekki mjög mikil og sennilega ekki jafnmikil og á söluna. En menn selja fleira en hross. Það eru líka ýmsar vörur og þjónusta í tengslum við hestamennskuna og mér var t.d. sagt að þær vikur sem mesta óvissan ríkti á suðvesturhorninu og minnst umferð hestamanna var á þeim tíma, þá duttu gjörsamlega niður öll viðskipti í þeim verslunum sem þjónusta hestamennina. Það er því ýmislegt sem þarf að hugsa í þessu máli og velta fyrir sér. Þetta er ekki grein sem er sambærileg við aðrar búgreinar, ekki beint. En við skulum samt hafa í huga að það hefur þótt sjálfsagt að taka á áföllum í öðrum greinum, hvort sem um er að ræða loðdýrarækt, fiskeldi eða hvaðeina, og það hlýtur að þurfa að hafa það í huga líka í sambandi við þessa grein.

Ég vil líka nefna að alls ekki er búið að bíta úr nálinni með afleiðingar þessara atburða. Fram undan er landsmót í byrjun júlí og það er ekki útséð með að þessir atburðir kunni að hafa talsvert mikil áhrif á landsmótið. En við skulum vona að það fari ekki illa.

Ég vil aðeins þakka aftur fyrir þessar umræður og þann stuðning sem mér fannst koma fram í máli hv. þm. sem hér töluðu. Ég met þann velvilja og vilja hv. 2. þm. Reykn., sem fram kom í máli hans, til að nýta þessa tillögu til að koma rannsókninni í annan og betri farveg eins og hann orðaði það, en eins og við vitum er hv. þm. fulltrúi í landbn. Hér situr reyndar annar þingmaður, hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir einnig í landbn. og mér þykir vænt um að hafa hana hér viðstadda til að undirbúa sig undir þau störf sem bíða landbn. í sambandi við þessi mál.

Ég vil aðeins minna á megintilgang þessarar tillögu. Það er svo ríkt í Íslendingum ,,komi það sem koma vill``-afstaða og ,,verði það sem verða vill``-viðbrögð. Fyrir mér vakir fyrst og fremst að reyna að tryggja að dreginn verði lærdómur til framtíðar af þessari reynslu, þessir atburðir verði ekki látnir ganga yfir án þess að nýta reynsluna til mótunar áætlunar um viðbrögð í svipuðum tilvikum, sem við getum alveg átt von á að verði, og þess vegna mættu verða til fleiri en ein áætlun til þess að láta ekki koma sér á óvart ef annað eins dynur yfir þessa ágætu atvinnugrein.