Aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 12:29:27 (5550)

1998-04-16 12:29:27# 122. lþ. 105.4 fundur 579. mál: #A aðgerðir vegna hitasóttar í hrossum# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[12:29]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar að koma aðeins örstutt inn í umræðuna og lýsa yfir stuðningi mínum við þáltill. sem hér hefur verið til umræðu og er hið merkasta plagg. Ég mun fyrir mitt leyti stuðla að því að hún fái skjóta og góða afgreiðslu í hv. landbn. Ég tel það vera til mikils sóma ef tillagan verður samþykkt, þótt með einhverjum breytingum verði.

[12:30]

Það hafa orðið mikil vonbrigði að hingað til hefur ekki tekist að rækta þessa veiru þó að sýni hafi verið send víða til útlanda þannig að við vitum í rauninni ekki enn hvað þarna er á ferðinni en það eru samt góðar vonir til að íslenskur vísindamaður sé að ná þeim árangri að geta ræktað þessa veiru sem er náttúrlega skilyrði fyrir því að hægt sé að rannsaka hana og greina. Vonandi á eftir að koma í ljós alveg á næstunni að þetta sé veira sem er þekkt í nálægum löndum og það mun þá auðvitað snarbreyta stöðunni. Hið gagnstæða getur komið í ljós þannig að eins og rætt hefur verið í dag getur það komið á daginn að mjög varanlegt tjón verði fyrir íslenskan landbúnað af þessum sjúkdómi. Ég verð að segja að mér finnst oft hafa verið ráðist í aðgerðir til aðstoðar af minna tilefni en þessum sjúkdómi núna og finnst mjög athugandi að hægt sé að veita a.m.k. til að byrja með þeim sem þess þurfa, ég held það þurfi náttúrlega alls ekki eins og hv. 2. þm. Reykn. stakk upp á, að það fari nákvæmlega eftir því hve mörg hross hver aðili flutti út í fyrra heldur hverjir þurfa aðstoð og hverjir ekki. Það sé fyrst og fremst miðað við það og það sé þá hægt að byrja á að veita þeim aðilum lán sem, ef svo illa fer að þessi sjúkdómur virðist valda varanlegu tjóni á þessari búgrein, er þá hægt að breyta yfir í styrki til viðkomandi aðila. Mér finnst þetta mjög athugandi og þetta er atriði sem þarf að ræða því eins og komið hefur fram í dag er þetta sá þáttur í íslenskum landbúnaði sem hefur kannski verið hvað mestur vaxtarbroddur í á undanförnum árum, hefur fært miklar tekjur í þjóðarbúið og ef það stöðvast við þennan sjúkdóm, sem guð forði okkur frá að fari svo illa, er það náttúrlega alveg gríðarleg blóðtaka.