Þrávirk lífræn efni í lífríki Íslands

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 12:33:05 (5551)

1998-04-16 12:33:05# 122. lþ. 105.5 fundur 428. mál: #A þrávirk lífræn efni í lífríki Íslands# þál., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[12:33]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem miðar að því að komið verði á könnun á þrávirkum lífrænum efnum í lífríki Íslands. Hana flyt ég með hv. þm. Kristjáni Pálssyni, Gísla Einarssyni og Árna M. Mathiesen. Með tillögunni leggjum við til að ríkisstjórninni verði falið að láta gera athugun á dreifingu og styrk lífrænna þrávirkra efna í lífríkinu við íslenskar strendur. Við leggjum sérstaklega til að þess verði freistað að mæla magn þessara efna í helstu tegundum nytjafiska á miðunum við Ísland, jafnframt að gerðar verði sérstakar mælingar á útbreiðslu efnanna meðal sjávarspendýra við Ísland. Ég kem að því síðar í framsögu minni hvers vegna við leggjum það til. Í þriðja lagi að teknar verði upp skipulegar rannsóknir á því hvernig þrávirk lífræn efni flytjast upp fæðukeðjuna við Ísland með sérstakri áherslu á efri stig keðjunnar.

Það kemur fram í skýrslum sem gerðar hafa verið um lífríki norðursins á allra síðustu árum að ein af mestu hættunum sem menn telja að steðji að lífríkinu á norðurhjaranum eru þessi efni. Nýlega kom út skýrsla á vegum sérfræðinga átta ríkisstjórna í löndum norðurhjarans, Ísland er eitt af þeim, og þar er gerð úttekt á lífríkinu og reynt að benda á þær hættur sem kunna að koma upp í framtíðinni. Það er sameiginleg niðurstaða þessara sérfræðinga að sú vá sem kann að búa í þessum þrávirku lífrænu efnum kunni að reynast lífríkinu á norðurhjaranum mesta ógnin. Þar fyrir utan er líklegt, herra forseti, eins og ég færi rök að síðar í máli mínu að löngu áður en þessi efni kunna að hafa raunverulega heilsufarslega spillandi áhrif eru þau líkleg til að gera verulegan usla í markaðsmálum Íslendinga erlendis með fiskafurðir. Ástæðan er sú að í fyrsta lagi eru þessi efni afar skaðleg öllu því sem lifandi er og í öðru lagi er eðli þeirra slíkt að það er líklegt að þau safnist fyrir á norðurhveli jarðar þótt hér sé engin uppspretta þeirra. Vel þekktar afleiðingar af uppsöfnun þessara efna í mönnum og dýrum eru t.d. krabbamein, ófrjósemi, óeðlilegur kynþroski, hvers kyns ofnæmi og alvarleg bilun ónæmiskerfisins. Þótt efnin séu í sjálfu sér ekki talin valda krabbameini örva þau hins vegar vöxt frumna sem hafa hafið skiptingu og geta orðið að krabbameini.

Það er líka alvarlegt að á allra síðustu missirum hafa komið í ljós niðurstöður rannsókna sem sýna að þau hættumörk, sem menn höfðu áður talið gild, standast ekki. Þ.e. þau eru e.t.v. rétt fyrir hinar dramatískari afleiðingar efnanna eins og þau sem ég taldi upp áðan en nú er hins vegar komið í ljós að kannski í þúsund sinnum minna magni geta þessi efni leitt til skaðlegra áhrifa á fóstur í móðurkviði, þau geta leitt til þess að afkvæmi dýra og börn manna sýni ákveðna bilun, til að mynda í samstillingu tauga. Hjá börnum slíkra mæðra kemur fram skortur á einbeitingu, stundum ofvirkni, misþroski og ýmislegt sem ógnar kannski ekki beinlínis lífi viðkomandi en getur haft mjög óheillavænlegar og alvarlegar afleiðingar fyrir viðkomandi einstaklinga. Ég get þess í framhjáhlaupi, herra forseti, að könnun sem fór fram í Bandaríkjunum bendir til að u.þ.b. 5% allra bandarískra barna eigi við einhvers konar kvilla af þessu tagi að stríða sem má beinlínis rekja til þrávirkra lífrænna efna. Við þekkjum þessi efni vel. PCB-fjölskyldan, sem er blanda 207 efna, er e.t.v. þekktust í umræðunni því að hún hefur margoft komið upp en jafnframt eru það skordýraeitur ýmis konar eins og DDT. Þetta eru allt saman efni sem eiga uppruna sinn langt fjarri Íslands ströndum en samt koma þau hingað. Við erum í rauninni saklaus fórnarlömb hinna iðnvæddu samfélaga heimsins. Hvergi á norðurhvelinu og hvergi á Íslandi eru neinar raunverulegar uppsprettur þessara efna.

Hvernig stendur á þessu? Það er sérstakt eðli þessara efna. Þau eru rokgjörn sem þýðir að þegar þau lenda einhvers staðar í hita gufa þau upp mjög fljótlega. Þau berast með háloftastraumum víðs vegar um heiminn en um leið og þau komast inn á kaldari svið heimsins, t.d. yfir á norðurhluta kringlunnar, þéttast þau og falla til jarðar. Þannig geta þau fært sig í stökkum í átt til kaldari svæðanna og alltaf þegar hitnar gufa þau upp aftur og berast lengra norður eftir. Þegar þau eru hins vegar komin alla leið norður eru litlar líkur á að það hlýni nægilega til að þau gufi upp aftur og fari enn lengra þannig að norðurhvelið er eins konar kuldagildra fyrir þessi efni. Það safnar þessum efnum saman til sín.

Því miður eru ekki til langar mælingaseríur yfir þessi efni en það sem þó er til bendir til að þetta sé að gerast. Sem betur fer hafa Evrópuþjóðir, ekki síst fyrir forustu Íslendinga, beitt sér fyrir takmörkunum og banni hin allra skelfilegustu þessara efna. Það hefur leitt til þess að menn hafa dregið mjög úr notkun þeirra og í sumum verst menguðu hlutum Evrópu með tilliti til þessara efna hefur styrkur þeirra hraðminnkað. En ég nefni sem dæmi að í innhafi, sem er ekkert ýkja langt frá okkar parti kringlunnar, eins og Eystrasaltinu, hefur mengunin af völdum þessara efna verið slík að fólki er ráðlagt að takmarka fiskát ef fiskurinn er upprunninn úr Eystrasaltinu. Þarna er um að ræða váboða sem hlýtur auðvitað að skipta máli fyrir okkur Íslendinga í framtíðinni.

Þessi efni eru kölluð þrávirk vegna þess að þau brotna ekki niður. Þau geta verið virk aftur og aftur og aftur, e.t.v. öldum saman, og í því felst hættan. Náttúran vinnur ekki á þeim og út af því eðli þeirra sem ég reifaði áðan munu þau um síðir safnast saman á köldu svæðin, þar á meðal hér fyrir norðan. Þau flytjast síðan upp í gegnum fæðukeðjuna og vegna þess að þau brotna hvergi niður verða margföldunaráhrif meiri eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjunni. Smáþörungar og bakteríur taka þessi efni upp úr hafinu umhverfis og síðan koma smásæ krabbadýr og éta þau og stærri krabbadýr éta hin smáu og fiskar og seiði éta krabbadýrin og stærri fiskar hina smærri og síðan éta selirnir fiskana, ísbirnirnir til að mynda í norðurhöfum éta síðan selina. Í sumum tilvikum éta menn ísbirnina. Þetta veldur því að ef við tökum til að mynda þorsk er að finna kannski 25 millj. sinnum meira magn af þessum efnum í þorskinum en í sjónum sem hann syndir í en ef við tökum til að mynda ísbjörn er að finna 50 þús. millj. sinnum meira magn af þessum efnum en í sjónum.

Hið furðulega, herra forseti, í þessu dæmi er að eftir að mælingar á þessum efnum hófust kom í ljós að hvergi á jarðríki hafa mælst jafnhá gildi þessara efna og einmitt í hinum fituríku spendýrum norðursins. Ísbirnir á Svalbarða og á Grænlandi hafa í sér gríðarlegt magn af þessum efnum. Sá hinn ágæti ísbjörn sem drepinn var af skipverjum úr kjördæmi hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar var til að mynda tekinn og mældur með tilliti til margra þessara efna og í ljós kom að þótt hann hafi verið tekinn í hafi ekki ýkja langt frá fæðingarstað hv. þm., sem ég nefndi hér áðan, var hann kolmengaður, hann var fullur af eitri. (Gripið fram í: Er eitthvert samband þarna á milli?) Eigi er svo, herra þm., sem ég get a.m.k. fært rök á enda er hv. þm. með hreinlegri mönnum sem ég þekki. Það er líka hægt að benda á að á ýmsum eyjum norðursins, eins og á Bjarnareyju og eyjaklas\-anum sem tengist Svalbarða, hefur verið mikill óskýrður fugladauði á árum fyrri sem nú er rakinn til þess að þar var einfaldlega komið svo mikið af efnum í þessi dýr.

Hefur þetta einhver áhrif við Ísland? Örugglega í framtíðinni en nú þegar bendir margt til að staðan sé alls ekki nógu góð við Ísland. Nokkrar mælingar hafa verið gerðar á þessu hér á Íslandi. Hin fyrsta sem verulegum tíðindum sætti var gerð á fálkum og þá kom í ljós að lífræn þrávirk efni sem mæld voru í íslenskum fálkum voru meiri en í sambærilegum ránfuglum erlendis sem voru þó í þeim löndum þar sem var verið að nota þessi efni. Þetta eru alveg skelfileg tíðindi fyrir okkur, herra forseti. Þegar við Reykvíkingar förum í sunnudagsbíltúrinn okkar út á Álftanes og horfum og hlustum á æðarfuglinn úa á kyrrlátum vordögum hljótum við að gleðjast yfir fegurð lífsins á slíkum dögum en að baki þessari spegilfögru mynd blasir þó við annar og ógnvænlegri veruleiki. Í nákvæmlega þessum æðarfugli, sem hefur búsetu í nánd við forseta Íslands í stærsta æðarvarpi á suðvesturhorninu, hafa menn gert mælingar á fuglinum. Það kemur í ljós að lífræn þrávirk efni, PCB í þessum æðarfugli, sem er svo að segja í jaðri borgarinnar, eru svo mikil að það er meira en í slíkum fuglum annars staðar. Það er svo mikið að við tilteknar aðstæður, þ.e. á vorin þegar fuglinn er að búa sig undir varp og hefur safnað mikilli fitu og í fitunni setjast þessi efni fyrir og þegar hann brýtur fituna niður til að mynda egg og hugsa um unga sína fara efnin út í blóðrásina. Þá verður styrkur þeirra svo mikill að samkvæmt niðurstöðum Hollustuverndar ríkisins eru þau líkleg til að valda bráðum eiturhrifum, svo ég vitni orðrétt í þá skýrslu sem komið hefur frá þeim.

Ég er ekki viss um að menn á Íslandi geri sér yfirleitt grein fyrir því hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að í nánasta nágrenni okkar, í hinu óspillta Íslandi, er staðan einfaldlega þannig að æðarfuglinn er svo fullur af eiturefnum sem hafa komið annars staðar frá að við vissar aðstæður getur það valdið bráðum eiturhrifum. Þetta eru fyrir mér alveg ótrúleg tíðindi, og ég verð að segja, herra forseti, að þetta er mál sem er erfitt að verjast en mál sem við þurfum eigi að síður að reyna að taka einhvern veginn á.

[12:45]

Þegar ég var umhvrh. í tíð fyrri ríkisstjórnar var þetta eitt af þeim málum sem við beittum okkur fyrir. Þá kynntist maður því hversu erfitt er að taka á svona málum. Hvers vegna? Vegna þess að það er ekki líklegt að það sem menn gera og verja kannski mjög miklum fjármunum til skili nokkrum árangri fyrr en eftir mjög langan tíma. Það kemur kannski ekki fram fyrr en eftir öld eða aldir. Eigi að síður verða menn að hafa framsýni til þess að fara í þetta.

Íslendingar hafa beitt sér fyrir því að dregið verði úr notkun þessara efna á alþjóðavettvangi. Það er ekki síst fyrir atbeina þeirra að nú liggur fyrir að innan skamms mun verða gert alþjóðlegt samkomulag um að hætta notkun tólf hættulegustu efnanna. Eitt af þeim er til að mynda toxafen, skordýraeitur sem hefur áhrif á taugakerfið og er aldrei notað á Íslandi. En það eru samt sem áður, held ég, ekki nema tvö til þrjú missiri síðan útflutningur á gámum með tiltekinni sjávarafurð frá Íslandi var stöðvaður til Þýskalands vegna þess magns af toxafeni sem var í þessari afurð.

Mig langar að síðustu, herra forseti, að reifa aðeins mikilvægi þessa máls fyrir íslenskan sjávarútveg. Menn hafa til að mynda verið að mæla PCB í brjóstamjólk kvenna og það kemur í ljós að ein tegund kvenna sker sig frá. Það eru inúítakonur á norðurhjaranum, til að mynda víðs vegar um Kanada og á Grænlandi. Þær hafa í móðurmjólk sinni miklu hærra magn en nokkrar aðrar konur, áttfalt meira magn en hvítar konur í Kanada, stallsystur þeirra í sama landi, áttfalt meira magn af þessum efnum er að finna í brjóstamjólk þeirra. Hvers vegna? Vegna þess að þær lifa á hefðbundinni fæðu úr náttúrunni, þ.e. á feitum sjávarspendýrum, hval, sel og jafnvel ísbjörnum.

Í Færeyjum, þar sem ég taldi sjálfur að menn væru svo að segja hættir að éta grind nema til hátíðabrigða, kemur í ljós að neysla sjávarspendýra er það mikil að í færeyskum konum mælast þessi efni í brjóstamjólk miklu hærri en annars staðar ef inúítakonurnar eru taldar frá. Á Íslandi mælist þetta líka þó að við séum víðs fjarri uppsprettu mengunarinnar, þá er þriðjungi meira af sumum þessara efna í brjóstamjólk íslenskra kvenna en kvenna í ýmsum löndum í Evrópu. Af hverju er það, herra forseti? Það er vegna þess að við lifum á sjávarfangi. Þó að PCB sé í íslensku sjávarfangi miklu minna en til að mynda í fiski erlendis, í Evrópu, þá er það samt sem áður nægilegt vegna þess hversu mikið við borðum af fiski að þetta safnast fyrir. Ég hef miklar áhyggjur af því þegar þessi mál eru að komast í hámæli eins og þau eru að gera í Bandaríkjunum núna. Nýlega var t.d. haldin 900 manna ráðstefna í San Francisco bara um þetta. Þar komu fram uggvænlegar upplýsingar og ég hef áhyggjur af því að þegar umræðan vex um þetta kunni hún að hafa mjög neikvæð áhrif á markaðssetningu okkar á þessum afurðum erlendis. Þess vegna þarf að grípa í taumana. Eitt af því sem við getum gert er að hafa stöðugt á hraðbergi nýjar upplýsingar um að staðan er þrátt fyrir allt enn þá þannig að íslenskur fiskur er miklu hreinni en víðast annars staðar.