Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 12:50:57 (5552)

1998-04-16 12:50:57# 122. lþ. 105.10 fundur 509. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (gjald af flugvélabensíni) frv., 207. mál: #A flugmálaáætlun 1998-2001# þál., Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 122. lþ.

[12:50]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. forseta mun ég í fyrsta lagi mæla fyrir nál. um frv. til laga um breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum og í öðru lagi fyrir nál. og brtt. varðandi flugmálaáætlun fyrir árin 1998--2001.

Nál. um frv. til laga um breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, nr. 31 27. mars 1987, með síðari breytingum, er á þskj. 1136. Eins og menn þekkja komu fram athugasemdir m.a. frá samkeppnisráði fyrr í vetur um að innheimta eldsneytisgjalds af flugvélabensíni og þotueldsneyti stæðist ekki að öllu leyti þær kröfur sem gerðar væru til fjáröflunar af þessu tagi og leiddi til mismununar. Þess vegna lagði hæstv. samgrh. fram frv. til laga um breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum sem fól í sér að fella úr lögum heimild til innheimtu gjalda af flugvélabensíni og til þess að jafna samkeppnisskilyrði í flugi með því að fella þetta gjald niður.

Þetta frv. fékk talsvert mikla umræðu í samgn. Leitað var eftir umsóknum frá Flugmálastjórn, flugráði, Flugleiðum, Flugfélagi Íslands og Íslandsflugi. Umsagnir bárust frá þremur fyrstnefndu aðilunum. Alls staðar voru umsagnirnar jákvæðar og sama kom fram reyndar þegar fulltrúar þessara aðila komu til fundar við nefndina. Samgn. leggur þess vegna til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Með þeim breytingum sem þessi lagabreyting hefur í för með sér ...

(Forseti (RA): Áður en lengra er haldið og vegna þess hve stuttur tími er þangað til fresta verður fundi, það eru aðeins tiltölulega fáar mínútur, þá vildi forseti spyrja hv. þm. hvort ræða hans sé mjög stutt. Ef svo er ekki, þá væri kannski æskilegt að fresta málinu í heild til kl. 3 þannig að allir sitji þá við sama borð að mæla fyrir málinu.)

Ég geri út af fyrir sig engar athugasemdir við það. Ræða mín verður í sjálfu sér ekki löng en til að fá heilsteyptari mynd og meira samhengi í umræðuna, þá get ég tekið undir það með hæstv. forseta að málinu verði frestað til kl. 3 í dag.

(Forseti (RA): Þá gerum við það.)