Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 15:40:24 (5560)

1998-04-16 15:40:24# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., HG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[15:40]

Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. 11. þm. Reykn. um málsmeðferðina varðandi það frv. sem hér hefur verið tekið á dagskrá. Ég tel að það sé á engan hátt forsvaranlegt að sá sem hefur forræði á málinu, hæstv. heilbrrh., skjóti sér undan því að greina þinginu frá því nú, áður en málið kemur til umræðu, hver sé vilji hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar í sambandi við þetta mál. Það er ekki hægt að tala um þetta efni á einhverju dulmáli eins og hæstv. ráðherra. Það er dulkóðuð afstaða sem kom hér fram í máli hæstv. ráðherra, og mér finnst nauðsynlegt að sá lykill sem að þeirri afstöðu gengur sé gefinn upp, og það er einungis á valdi hæstv. heilbrrh. að gera það.

Ég sá í viðtali við hæstv. ráðherra í Morgunblaðinu 8. apríl sl. að þar segist hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, í samtali við blaðið ,,leggja áherslu á að frumvarpið væri nú aðeins kynnt, það yrði vart afgreitt á þessu þingi heldur þráðurinn tekinn upp næsta haust. Hún sagði að því mundu þeir, sem gera vildu við það athugasemdir, fá til þess nægan tíma.``

Hér er nokkuð skýrt talað. Það eru nokkur tíðindi ef hæstv. ráðherra getur ekki kveðið jafnskýrt að orði eða þannig að enginn vafi leiki á um vilja hæstv. ráðherra í þessu efni. Ég held að ekki þurfi að segja þinginu, sem á aðeins fáa starfsdaga eftir, að mál af þessum toga fær ekki vandaða meðferð í þinginu til afgreiðslu nema menn ætli að sitja hér langt fram á sumar.