Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 15:55:10 (5569)

1998-04-16 15:55:10# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[15:55]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að undirstrika að stjórnarandstaðan hefur með engu móti lagst gegn þessu máli og ég persónulega frábið mér allar ásakanir um slíkt. Ég hef sjálfur í ræðu og riti innan lands sem erlendis lýst því yfir að þetta mál sé mjög merkilegt og það eigi að fá framgang. Það sem hér er verið að spyrja um er hvort þessi tími sem er til reiðu núna sé nægur.

Þessi umræða snýst raunverulega um það að hæstv. heilbrrh. hefur gefið okkur upplýsingar sem reyndust ekki réttar. Hæstv. heilbrrh. hefur lýst því yfir, ekki einu sinni heldur tvisvar, í fjölmiðlum að þetta mál verði lagt fyrir þingið til einnar umræðu og til kynningar en að hún ætlist ekki til þess að það verði afgreitt í vor og raunverulega gekk hún svo langt að hún sagði að hún mælti ekki með því.

Það skiptir mjög miklu máli, herra forseti, að þingmenn og ekki síst við sem erum í heilbr.- og trn. fáum að vita frá hæstv. ráðherra hvort ætlunin sé að fá þetta mál fram á þessu þingi eða ekki. Þetta er spurning um vinnutilhögun og verkframkvæmdir. Ég held þess vegna að það sé mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri hér og nú hvort hún leggi kapp á að málið verði afgreitt.