Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 15:57:27 (5572)

1998-04-16 15:57:27# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Spurning mín í upphafi var til þess ætluð að komast að hug ráðherra gagnvart afgreiðslu málsins nú eða hvort það væri lagt fram til kynningar. Svörin voru kannski ekki alveg mjög skýr, alla vega ekki jafnskýr og þau voru í fjölmiðlum. En fram kom hjá hæstv. ráðherra ítrekað að hann óskaði eftir vandaðri meðferð í þinginu, vandaðri umfjöllun og sagði nú síðast að ekki væri pressa á þetta mál og að hin vönduðu vinnubrögð sætu í fyrirrúmi hjá hæstv. ráðherra. Ég get, herra forseti, ekki skilið þetta öðruvísi, með tilliti til þess hve stutt er til þingloka --- nefndastörfum á að ljúka 28. apríl --- en að málið fái vitaskuld þá vönduðu umræðu sem það á skilið og þarf að eiga sér stað í þingsölum og síðan framhaldsmeðferð í þingnefnd, en ... (Gripið fram í: Ertu á móti þessu máli?) Frammíkall hv. þm. um efnisatriði málsins eru algerlega óviðkomandi og hæfa ekki þessari umræðu. Hér er verið að ræða um fundarstjórn forseta. Hér er verið að reyna að komast að því hvernig menn hyggjast stýra umræðunni og efnisatriði sem komið hafa fram í umræðunni eiga ekki við undir þessum dagskrárlið.

Ég skil það svo, herra forseti, að málið fari í þennan farveg sem ég lýsti, þ.e. að málið komi til 1. umr. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort það væri ekki hefðbundið við þetta tækifæri að óska eftir fundarhléi þannig að forseta gæfist tækifæri að ráðslagast um frekari málsmeðferð við þingflokksformenn. Ég vil þó leyfa mér að inna eftir því hvort ekki gæti orðið samkomulag um að hæstv. ráðherra tali fyrir málinu og innleiði hina vönduðu umræðu sem er nauðsynleg. Síðan yrði málinu frestað þannig að við, stjórnarandstæðingar og aðrir, fengjum tækifæri til að halda umræðunni áfram í afmarkaðan tíma, t.d. í næstu viku og þá höfum við gefið 1. umr. mjög vandaða umgjörð sem þetta mál á skilið. Ég vil vita hvort ég skil ráðherrann rétt, að við gætum reynt að viðhafa svona góð vinnubrögð í þessu máli því það felur í sér mikil nýmæli eins og ég nefndi í upphafi, mikil tækifæri og margar spurningar. Ég vil vanda allt sem er í kringum þetta mál en gæta vitaskuld fullrar sanngirni gagnvart meiri hluta þingsins.