Gagnagrunnar á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 16. apríl 1998, kl. 18:55:42 (5596)

1998-04-16 18:55:42# 122. lþ. 106.12 fundur 661. mál: #A gagnagrunnar á heilbrigðissviði# frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 122. lþ.

[18:55]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þau svör sem hún gaf og ræðu hennar áðan. Í máli hennar kom ýmislegt fram sem sannaði einungis það sem ég hef verið að leggja svo mikla áherslu á að þetta mál þarf miklu ítarlegri og vandaðri meðferð en það hefur fengið. Það eru svo margar spurningar sem þarf að svara.

Hún sagði að ekki hefði verið mikið rætt um það gagn sem hinar ýmsu heilbrigðisstofnanir hafa af samþykkt málsins eða framgangi málsins. Það er einmitt eitt af þessum atriðum. Þær þurfa þá að sannfærast um það gagn sem þær hafa af þessu og það er eitt af því sem þarf að fjalla um á næstu vikum og mánuðum.

Hún orðaði það svo um meðferð upplýsinga að það verði tölvunefndar að glíma við það. Það er eitt af því sem hefur verið gagnrýnt að tölvunefnd fékk frv. fyrst í hendur, eftir því sem upplýst hefur verið í blöðum, 1. apríl sl. Það geta ekki talist mjög góð vísindaleg vinnubrögð að svo mikilvægur aðili í málinu fái það fyrst til meðferðar skömmu áður en ætlast er til að það sé afgreitt.

Hæstv. ráðherra sagði: Þetta mál þarf sinn eðlilega tíma. Hvað telur hæstv. ráðherra vera eðlilegan tíma í þessu efni?

Enn eitt. Hæstv. ráðherra sagði: Það er viss áhætta í sambandi við þetta frv., það er viss áhætta í málinu, og undir það tek ég. Ég lagði einmitt áherslu á það í máli mínu og þess vegna er svo mikilvægt að fara vel yfir það og ætla því góðan tíma. En ég spyr þá hæstv. ráðherra: Hver er áhættan í málinu?