Áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 13:32:09 (5600)

1998-04-21 13:32:09# 122. lþ. 108.92 fundur 312#B áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[13:32]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að vekja athygli forseta og Alþingis á áskorun sem níutíu einstaklingar beina til Alþingis og ríkisstjórnar í dag. Í áskoruninni segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Á Alþingi liggja nú fyrir lagafrv. sem m.a. munu ákveða um alla framtíð hver fer með stjórnsýslu og skipulagsrétt á miðhálendinu. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa lýst ánægju sinni yfir þjóðlendufrv., sem gerir ráð fyrir að mestur hluti hálendisins verði þjóðareign, enda er það skilningur flestra Íslendinga að svo hafi alltaf verið, samanber forn lög og dóma. Mikill ágreiningur er hins vegar um frv. til breytinga á sveitarstjórnarlögum sem gerir ráð fyrir að skipta miðhálendi og jöklum milli sveitarfélaga.

Í ljósi þess að samstaða er um að miðhálendið verði áfram eign þjóðarinnar, teljum við undirrituð höfuðnauðsyn að ekki verði á þessu þingi bundið með óafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verði háttað þar. Meiri tími verði gefinn til opinnar umræðu, þannig að öll þjóðin fái að taka þátt í að ákveða hvernig með þessi mál verði farið í framtíðinni.``

Virðulegi forseti. ,,Höfuðnauðsyn að ekki verði á þessu þingi bundið með óafturkræfum hætti hvernig stjórnsýslu- og skipulagsmálum verði háttað þar.`` Þetta eru nöfn sterkra einstaklinga í ferða-, menningar- og umhverfisumræðu hér á landi. Þetta eru vísindamenn, þetta er fólk úr öllum stjórnmálaflokkum, fólk sem mark er takandi á. Ég legg mikla áherslu á að forseti gefi þessari áskorun gaum og bregðist við. Ég tek undir að það verður ekki aftur snúið ef við skiptum miðhálendinu upp með lögum nú og það er alvarlegt að gera það í ágreiningi við þjóðina.