Áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins

Þriðjudaginn 21. apríl 1998, kl. 13:36:34 (5602)

1998-04-21 13:36:34# 122. lþ. 108.92 fundur 312#B áskorun til Alþingis varðandi frv. um skipulag miðhálendisins# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 122. lþ.

[13:36]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ekki hef ég á móti því að þjóðinni verði gefinn tími til að fara yfir mikilsverð mál sem hér voru nefnd. Ég tek undir að þar er um mjög stór mál að ræða, þó misjafnlega rædd, og það sem ég tel að sé það efni sem ástæða sé til að gaumgæfa betur en gert hefur verið og kannski að almenningur eigi meiri hlut í þeirri umræðu er frv. til laga um eignarráð yfir auðlindum í jörðu. Það er sannarlega mjög stórt mál og þess efnis að þar eru álitaefnin mörg og þar skiptir afar miklu hvernig ráðið verður.

Hins vegar varðandi þann þátt sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom að um skiptingu landsins milli sveitarfélaga, sem gert er ráð fyrir í frv. félmrh., og því tengd skipulagsmál á hálendi Íslands hef ég lýst því yfir að ég er dálítið undrandi á þeirri uppsetningu mála sem þingflokkur jafnaðarmanna hefur í því efni í ljósi þess að hann var forgönguaðili að því að skipulagsmál miðhálendisins voru tekin þeim tökum sem unnið hefur verið að síðan 1993--1994. Hér var minnt á úrvalslið níutíu mætra manna, sem ritar undir ávarp í Morgunblaðinu og þar er síðastur ef ég man rétt, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sami þingmaður og hleypti með pompi og pragt skipulagsvinnunni vegna miðhálendisins úr vör á sínum tíma, þannig að það á engum og síst af öllum þingmönnum Alþfl. að koma á óvart það sem þar hefur verið að gerast undir forsögn þeirra og forustu.

Ég vara við því, virðulegur forseti, að menn séu að setja þar hugsanlega í uppnám þá vinnu sem fram hefur farið varðandi skipulagsmál miðhálendisins og ég bið menn að fara varlega á því að mörgu leyti viðkvæma svæði.